Laugardagur 22. júlí 2006

203. tbl. 10. árg.

S íðasta skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, sem er þriðja skýrsla nefndarinnar og kom út árið 2001, vakti mikla athygli og hefur verið undirstaða umræðu um loftslagsbreytingar allar götur síðan. Eitt af því sem vakti hvað mesta athygli í skýrslunni, og segja má að hafi verið þungamiðja hennar, var línurit sem átti að sýna þróun hita jarðar síðasta árþúsundið. Höfundur línuritsins var loftslagsfræðingurinn Michael Mann og línuritið var kennt við hokkíkylfu vegna lögunar þess, sem var þannig að skaftið á kylfunni myndaði tiltölulega jafn hiti frá árinu 1000 til ársins 1900 og svo tók við það sem leit út eins og blaðið á kylfunni, en það var hröð hækkun hita síðustu öldina. Línuritið var sláandi og vel til þess fallið að vekja athygli, sem það og gerði. Í skýrslunni var sagt að síðasta öld væri heitasta öld árþúsundsins, síðasti áratugur heitasti áratugurinn og árið 1998 heitasta árið. Allt var þetta mjög til þess fallið að ýta undir hræðslu almennings og ráðamanna víða um heim og auðvelda heimsendaspámönnum vinnu sína. Það þarf vart að taka fram að Al Gore notfærir sér línuritið í nýju hryllingsmyndinni sinni.

Tveimur árum eftir útkomu þriðju skýrslu IPCC kom fram gagnrýni á aðferðir, vinnubrögð og niðurstöður Mann og myndin af hokkíkylfunni var dregin í efa. Þeir sem gerðu það voru tveir Kanadamenn, Ross McKitrick og Steven McIntyre, sem skrifuðu grein í vísindarit þar sem þeir sögðu að með aðferðum Mann mætti teikna upp hokkíkylfumyndir með tölulegum gögnum sem valin væru af handahófi. Mann greip til varna fyrir verk sitt og deilt hefur verið um hvor hafi rétt fyrir sér, Mann eða McKitrick og McIntyre.

Ætli fjölmiðlar geri nokkuð með það að nú er búið að setja stórt spurningamerki við sjálfa hokkíkylfuna, eitt helsta grunngagnið í umræðunni um loftslagsbreytingar?

Fyrir rúmu ári þótti bandarísku þingnefndinni um orku og viðskipti ástæða til að komast til botns í því hvort gagnrýnin á hokkíkylfumyndina sem Mann dró upp ætti rétt á sér eða ekki. Hún fékk Edward Wegman, tölfræðiprófessor og formann nefndar Bandarísku vísindaakademíunnar um hagnýta og fræðilega tölfræði, til að leiða starf nokkurra tölfræðinga til að meta verk og niðurstöður Mann og gagnrýnina sem fram hafði komið.

Wegman og hans fólk skiluðu niðurstöðu fyrir nokkrum dögum og fullyrða má að niðurstaðan hlýtur að vera áfall fyrir IPCC og þau vinnubrögð sem beitt var við gerð skýrslu Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar árið 2001. Wegman tekur undir gagnrýni Kanadamannanna tveggja á aðferðir og niðurstöður Mann og segir í skýrslu sinni að „greining Mann styðji ekki það mat hans að síðasti áratugur 20. aldar hafi verið heitasti áratugur árþúsundsins og að árið 1998 hafi verið heitasta árið“.

Deilurnar snúast ekki um grunnrannsóknir á gögnum á borð við trjáhringi eða jökla, heldur um meðferð tölulegra gagna. Og þær snúast ekki um það hvernig hitinn hafi þróast síðustu ár eða áratugi, heldur hvernig sú þróun er í sögulegu samhengi. Í nýju skýrslunni er Mann gagnrýndur fyrir rangar tölfræðilegar aðferðir og fundið er að því að loftslagsfræðingar séu úr tengslum við og nýti sér ekki tölfræðinga við að fara yfir niðurstöður, líkt og þekkist á öðrum sviðum vísindanna. Þá er gagnrýnt að þeir loftslagsfræðingar sem hafi farið yfir og fjallað um verk Mann tengist honum flestir með ýmsum hætti,  hafi til að mynda samið vísindagreinar með honum. Þetta telja Wegman og félagar að geti skýrt að verk Mann hafi ekki verið ritrýnd með eðlilegum hætti, en sú gagnrýni hefur raunar stundum áður komið fram að vísindalegar kröfur sem gerðar séu til skýrslna Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar séu mun minni en æskilegt væri um mikilvæg rit byggð á vísindarannsóknum.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að fjölmiðlar munu taka eftir því að búið er að setja stórt spurningamerki við eitt helsta grunngagnið í umræðunni um loftslagsbreytingar. Og það verður ekki síður fróðlegt að sjá hvort að Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar mun endurskoða vinnubrögð sín áður en væntanleg skýrsla hennar, fjórða skýrslan, kemur út.