Helgarsprokið 23. júlí 2006

204. tbl. 10. árg.

Það er með nokkrum ólíkindum að ekkert hefur verið minnst á að fresta byggingu hins íburðarmikla og dýra tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík til að sporna gegn þenslunni svonefndu. Undirbúningur verksins hefur staðið í langan tíma. Öðrum áfanga undirbúningsins lauk með skýrslu um nýtingar- og hagkvæmnismat en formaður Samtaka um byggingu tónlistarhúss var verkefnisstjóri þeirrar vinnu eins og raunar í fyrsta áfanga. Um þennan undirbúning sagði Vefþjóðviljinn 10. janúar 1999:

„Ljóst er við lestur þeirrar skýrslu að kostnaðaráætlun er ekki nákvæm og margt sem leitt getur til hækkunar kostnaðar, þannig að óvissan er mikil. Hitt er verra að áætlanir um nýtingu hússins virðast mikið ofmat, en gert er ráð fyrir að í stóra tónleikasalinn einan komi á ári jafn margir að hlusta á tónlist og allir samanlagðir tónleikagestir á höfuðborgarsvæðinu eru sagðir hafa verið síðustu ár, eða um 200.000 manns. Þetta þýðir annaðhvort gífurlega aukinn áhuga landsmanna á tónlist á næstu árum – en hann þykir mikill fyrir – eða að engir tónleikar verða haldnir nema í hinu nýja húsi. Vonandi eru aðrar áætlanir í skýrslunni heldur raunhæfari en þessi, en þetta er að minnsta kosti ekki góðs viti og bendir ekki til að höfundar skýrslunnar leggi sig fram um raunhæfa áætlanagerð. Tilgangurinn er ef til vill frekar að ná fram heppilegri niðurstöðu fyrir fylgjendur byggingar tónlistarhúss.

„Miðað við vinnubrögðin í þessu máli hingað til, er ekki að furða að í umræðunni um nauðsyn þess að vinna gegn þenslu sé það ekki til umræðu að hætta við byggingu tónlistarhúss. Almenningur fær á áþreifanlegan hátt að finna fyrir kostnaðinum við byggingu tónlistarhúss með því að Sjálfstæðis-flokkurinn fórnar áður lofuðum skattalækkunum.“

Því hefur verið haldið fram að það borgi sig fyrir hið opinbera að reisa tónlistar- og ráðstefnuhús saman. Í skýrslu VSÓ ráðgjafar kom þó fram að ódýrasti kosturinn fyrir hið opinbera var að reisa tónlistarhús eitt og sér í Laugardal. Slík bygging mundi „aðeins“ kosta hið opinbera 2.397 milljónir króna, en aðrir möguleikar mundu kosta hið opinbera a.m.k. 2.834 milljónir króna, en reikna má með að munurinn verði enn meiri enda líklegt að kostnaður hins opinbera vegna ráðstefnumiðstöðvarinnar verði meiri en nefnt er sem viðmiðun í skýrslunni. Þegar við bætist að mjög óeðlilegt er að hið opinbera sé að taka þátt í atvinnustarfsemi í samkeppni við fjölda einkaaðila með því að leggja stórfé í ráðstefnuhús sem nýtist aðallega fáum einkaaðilum. Þá er gagnrýnisvert í sjálfu sér að ódýrasti kosturinn, þ.e. bygging tónlistarhúss í Laugardag, skuli ekki valinn.

Skýringin á því að ódýrasta leiðin er ekki valin er líklega hin sama og að húsið skuli yfirleitt eiga að byggja, nefnilega sú að þeim, sem vilja láta byggja fjögur þúsund milljóna króna hús fyrir sjálfa sig, er ósárt um skattfé almennings. Skattgreiðendur skulu greiða fyrir húsið hvort sem þeim líkar betur eða verr.

En hver verður svo ávinningurinn af byggingu tónlistarhúss? Hann verður sá að ein hljómsveit á landinu, Sinfónían, mun geta spilað við betri aðstæður en nú, því nú eru aðstæður ekki „fullkomnar“ eins og þær munu eiga að verða. Aðrar hljómsveitir geta þegar spilað í mjög góðu húsnæði og nægir þar að nefna hið nýja tónlistarhús í Kópavogi. Ákvörðunin um að byggja tónlistarhús snýst því þegar öllu er á botninn hvolft um að láta hvert mannsbarn á landinu greiða tíu til fimmtán þúsund krónur fyrir að Sinfónían geti spilað í dálítið betra húsnæði en hún getur nú. Telja menn virkilega að landsmenn hafi ekkert betra við peningana að gera?“

Frá því ofangreint birtist í helgarsproki frá 10. janúar 1999 hefur vísitala byggingakostnaðar hækkað um rétt tæp 51%. Þær 2.397 milljónir króna, sem nefndar voru sem ódýrasti kosturinn í úttekt VSÓ, eru framreiknaðar 3.619 milljónir króna en kosturinn sem var inni í umræðunni árið 1999 og átti að kosta 2.834 milljónir króna. myndi kosta 4.279 milljónir ef áætlanir hefðu fylgt hækkun vísitölu byggingarkostnaðar.

Nú er hins vegar rætt um framkvæmdir á annan tug milljarða króna og lítið rætt um hagkvæmnisathuganir. Miðað við vinnubrögðin í þessu máli hingað til, er ekki að furða að í umræðunni um nauðsyn þess að vinna gegn þenslu sé það ekki til umræðu að hætta við byggingu tónlistarhúss. Almenningur fær á áþreifanlegan hátt að finna fyrir kostnaðinum af byggingu tónlistarhúss með því að Sjálfstæðisflokkurinn fórnar áður lofuðum skattalækkunum.