Föstudagur 21. júlí 2006

202. tbl. 10. árg.

Undanfarnar vikur hefur margt af því sem Vefþjóðviljinn hefur um árabil sagt um rekstur strætó verið staðfest af stjórn byggðasamlagsins. Það hlaut að koma að því að einhver annar segði hingað og ekki lengra með sífellt færri farþega á sífellt hærri styrk frá útsvarsgreiðendum á höfuðborgarsvæðinu. Stjórn samlagsins boðar nú 360 milljóna króna sparnað í rekstri þess og takist það mættu fleiri opinberar stofnanir taka sér það til fyrirmyndar.

Í 12 ára stjórnartíð R-listans í Reykjavík fækkaði farþegum strætisvagnanna á hverju einasta ári ásamt því að framlög til byggðasamlagsins úr sveitarsjóðum hækkuðu ár frá ári. Á sama tíma fjölgaði einkabílum Íslendinga eins og meðal nýríkra Kínverja og bensínstöðvum fjölgaði einnig um 50%. Í lok stjórnartíðar sinnar ákvað R-listinn svo að breiða yfir innantóm kosningaloforðin um eflingu strætó með því að veðsetja tóman borgarsjóðinn enn frekar með lagningu sérstakra tómra akreina á Miklubraut sem aka mætti tómum strætisvögnunum eftir. 

Ýmsir halda að nú sé mikil umhverfisverndarvakning. Það má vel vera enda eykst áhugi manna á hvers kyns umhverfismálum með bættum hag. Góður hagvöxtur síðustu árin, góðar atvinnuhorfur og aukinn kaupmáttur gera mönnum mögulegt að sinna hugðarefnum eins og náttúruvernd. Kannski hjálpar þessi áhugi nú til að menn koma böndum á rekstur strætisvagnanna. Akstur niðurgreiddra strætisvagna með innan við 10% nýtingu hlýtur að vera andstæður almennum sjónarmiðum um skynsamlega nýtingu auðlinda. Jónína Bjartmarz, nýr umhverfisráðherra, hefur hins vegar varpað fram þeirri hugmynd að vilji sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu draga úr niðurgreiðslum sínum til þeirrar mengandi starfsemi sem akstur tómra strætisvagna er muni hún láta skoða hvort ríkissjóður geti ekki hlaupið undir bagga svo halda megi sóuninni áfram af fullu kappi.

En þessi hugmynd Jónínu um að ríkið styðji mengandi starfsemi ef sveitarfélögin gefast upp á því er ekki sú eina sem bendir til að ráðherrar Framsóknarflokksins séu utangátta í hinni miklu umhverfisverndarvakningu. Guðni Ágústsson varaformaður flokksins hefur áhyggjur af því að jarðir séu nú keyptar á háu verði vítt og breitt um landið í þeim tilgangi að stunda ekki á þeim búskap. Nú er auðvitað vel hægt að stunda búskap án þess að ganga á gæði landsins en án búskapar minnkar hætta á ofbeit og jafnframt dregur úr þörf á því að ræsta fram land. Stór hluti mýra landsins hefur verið ræstur fram vegna búskapar en votlendið er afar mikilvægt lífríkinu, bæði plöntum, smádýrum og fuglum. Við réttar aðstæður geta mýrar myndast að nýju eftir að framræsluskurðir lokast. Nokkur skemmtileg dæmi um slíkt má finna á vef nefndar um endurheimt votlendis.