Fimmtudagur 20. júlí 2006

201. tbl. 10. árg.

Vonandi er landið ekki að sökkva með manni og mús. Að vísu er ekkert sérstakt sem bendir til slíkra hamfara, hvorki í bókstaflegri né óeiginlegri merkingu, en engu að síður eru orð Sivjar Friðleifsdóttur í nýlegu tímaritsviðtali ekki hughreystandi. Þar er því slegið upp á forsíðu að Siv sé „klár í bátana“, enda segir hún það sjálf um sig og aðra framsóknarmenn. Því miður útskýrir Siv ekki í viðtalinu af hverju menn eru nú að búa sig undir að stökkva í björgunarbátana en ef til vill hefur hún heyrt af því að Ingibjörg Sólrún ætli loks að opna sitt Pandórubox eða kannski veit heilbrigðisráðherra eitthvað annað sem aðrir vita ekki – og það er auðvitað ekki hughreystandi þegar slíkir menn taka að spenna á sig björgunarvestin og hrópa í örvæntingu „kóngsríki mitt fyrir kork!“

Sennilega er þó ekkert fararsnið á Siv og félögum þó hún hafi einhverra hluta vegna séð ástæðu til að tilkynna að þau væru reiðubúin að yfirgefa skipið og róa burt fyrirvaralaust. Og í gær var meira að segja samið við samtök nokkurra aldraðra um stórbættan hag aldraðra og öryrkja, og geta menn gert sér í hugarlund hvort stjórnarandstaðan hefur fagnað þeim fréttum. Raunar hefur stjórnarandstöðunni verið svo mislagðar hendur á undanförnum árum að slíks þekkjast fá dæmi, en barátta hennar hefur einkum verið bundin upphlaupsmálum, þar sem hún hefur tekið undir allar kröfur þrýstihópa, og hins vegar persónulegum árásum á örfáa stjórnmálamenn. Og nú situr hún uppi nær tómhent þegar ríkisstjórnin tekur að semja um öll deilumálin og stjórnmálamennirnir, sem mest erfiði var lagt í að ráðast á, eru ýmist búnir að draga sig í hlé, eða þá farnir úr þeim ráðuneytum sem þeir voru tengdastir. Stjórnarandstaðan hefur gert minna af því að berjast fyrir skýrri stefnu, byggðri á almennum sjónarmiðum sem ekki breytast eftir því hvernig vindar blása, skoðanakannanir segja eða frægðarfólk biður um á tónleikum. Stjórnmál snúast nefnilega um meginsjónarmið en ekki einstök upphlaup, hvort sem þau eru byggð á örvæntingu, heift eða hagsmunum.

Það er margt þreytandi sem vellur upp úr blaðamönnum Morgunblaðsins núorðið. Þó var margt ljómandi í listagrein Ásgeirs Ingvarssonar nú í vikunni. Þar fjallar hann um þann sið áheyrenda á listviðburðum að hrósa miðlungsframmistöðu í hástert. Í pistli sínum segir Ásgeir meðal annars:

Ég er líklega ekki einn um það að þykja Íslendingar klappa of mikið, of lengi og of kröftuglega af of litlu tilefni. Lófatak íslenskra áhorfenda er oft í engu samræmi við það sem borið hefur verið á borð af listamönnunum. Miðlungsgóðir listamenn eru klappaðir upp í tví- og þrígang af litlu tilefni. Jafnvel rís fólk úr sætum fyrir þá. Að sama skapi heyrist aldrei púað á lélega frammistöðu og innileg húrra- og bravóhróp heyrast of sjaldan þar sem virkilega vel hefur verið gert. Þetta er ekki nógu gott, því fagnaðarlæti áhorfenda eru mikilvægt gæðastjórnunaráhald fyrir listamennina. Þeim er enginn greiði gerður þegar viðbrögð áhorfenda eru ekki í samræmi við gæði listarinnar. Ég er fjarri því útlærður í þessum fræðum, en ég reyni að fylgja eftirfarandi reglum: Á afleitri sýningu eða tónleikum á ekki að klappa, hafi fólk á annað borð látið sig hafa að sitja út alla dagskrána. Og ef einhver hefur staðið sig sérstaklega illa er sjálfsagt (og mjög andlega hreinsandi) að púa á viðkomandi. Ef sýning er í besta falli sæmileg þá má klappa stutt í sýningarlok, fyrir kurteisi sakir, þó ekki of lengi. Sama gildir eftir ágætar aríur í óperum eða lög á tónleikum: að klappa rétt hæfilega, s.s. í 5-10 sekúndur, fyrir því sem vel er gert. Eftir virkilega hrífandi frammistöðu er hið besta mál að klappa af mikilli ákefð, og ef listamaðurinn hefur snortið einhvern innri sálarstreng í áhorfandanum, þá er um að gera að hrópa Bravó!, Brava! eða Bravi! eftir atvikum. Að stappa niður fótum eða blístra er prímitíft og ætti ekki að stunda á vettvangi klassískra lista. Það er síðan aðeins ef unnið hefur verið sannkallað listrænt afrek, þar sem allir hafa staðið sig prýðisvel – og þá helst aðeins á frumsýningu – að við hæfi er að rísa úr sætum.