Miðvikudagur 19. júlí 2006

200. tbl. 10. árg.

M orgunblaðið hefur löngum gefið sig út fyrir að vera blað borgaralegra gilda. Sumum hefur blaðið þótt full til íhaldssamt, en almennt má segja að fréttaflutningur þess og umfjöllun hafi einkennst af ákveðinni tegund af hófsemi og umburðarlyndi. Undantekningar má þó finna í umfjöllun Morgunblaðsins af ýmsum málum, sérstaklega þau sem snúist hafa um málefni í íslensku samfélagi, svo sem kvótakerfið, umhverfismál og byggingu tónlistarhúss.

Nú ber svo við að leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist varpa fyrir róða fyrrnefndum gildum og það í umfjöllun um atburði sem seint verða taldir til íslenskra innanríkismála. Síðustu daga hefur verið ítarleg umfjöllun um þá hörmulegu atburði sem nú eru að eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs, og ekki að ósekju. Það sem vekur einna mestan hrylling í þeim átökum öllum er hlutur bókstafstrúarmanna, sem hella olíu á eld átakanna með tilvitnunum í forna texta. Í þeim gömlu skræðum telja þeir sig finna alls kyns réttlætingar á eignarhaldi borga og svæða, og það sem verra er réttlætingar fyrir morðum á almennum borgurum.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins fjallar um átökin í leiðara blaðsins í gær. Það sem stingur nokkuð í augun er setning, sem ekki verður lesin öðruvísi en svo að um sé að ræða viðvörun Morgunblaðsins til Ísraelsmanna. Vitnað er beint í Habakúk spámann sem varar við ofríki gegn Líbanon, enda muni Guð hefna grimmilega þeim sem dirfast slíkt.

Nú er það svo að auðvitað má finna ýmislegt í ritum Biblíunnar, bæði Gamla og Nýja testamentinu. Það er hins vegar spurning hvort leiðarahöfundur Morgunblaðsins er tilbúinn að taka undir allt sem þar stendur, -jafnvel þótt það eigi vel við ástandið eins og það er í dag. Ætli gyðingar geti til dæmis ekki bent á spádóm Jesaja, máli sínu og kröfum til stuðnings:

[K]læð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg, því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga.