Þriðjudagur 18. júlí 2006

199. tbl. 10. árg.

Ífrétt Times í fyrir tveimur vikum var sagt frá því að Evrópuþingið hefði samþykkt að leggja 40 sterlingspunda skatt á flugmiða innan Evrópusambandsins. Fjörutíu pund eru um 5.600 krónur svo að það er ljóst að þessi skattur mundi meira en tvöfalda verð á ódýrustu flugferðum í Evrópu. Skattur þessi mun eiga að bæta fyrir þau umhverfisáhrif sem flugið veldur.

Það hefur lengi verið þeim sem fylgjast með umhverfismálum ráðgáta að allt flug hefur verið undanþegið helstu umhverfisreglum um efnainnihald eldsneytis og einnig að mestu laust við skattlagningu eldsneytis. Skýringin er stundum sögð sú að þeir sem setja reglur um umhverfismál séu mikið á ferð og flugi og vilji ekki setja reglur eða leggja á skatta sem gætu gert farmiðann á næstu umhverfisráðstefnu dýrari. Þetta er ekki nægilega trúverðug skýring því flestir þeirra sem sækja þessa ráðstefnur senda skattgreiðendum reikninginn fyrir dagpeningum, gistingu og flugferðum og hafa því litlar áhyggjur af kostnaðinum. En engu að síður segja sumir að stóri bónusinn við starf stjórnmála- og embættismanna séu flugmiðarnir á hinar endalausu ráðstefnur um ekki neitt sem haldnar eru undir merkjum alþjóðlegs samstarfs og það þurfi því ekki að koma á óvart þótt flugið sé að mestu undanþegið þeim reglum og skattlagningu sem ferðalangar á jörðu niðri verði að hlíta.

Í þessu samhengi væri fróðlegt að skoða hvort þeir sem fara um landið á farþegaþotum eða einkaþotum greiði „fullt verð“ fyrir afnot af flugvöllum landsins. Eins og allir vita þá greiða þeir sem fara um landið á bíl háa skatta af kaupverði bílsins og eldsneyti sem þó fara aðeins að hluta til vegagerðar. Ríkið styrkir sjálft flugið á nokkra staði á landinu en hvað kostar að halda sjálfum flugbrautunum opnum árið um kring?

En hvað sem öðru líður er ljóst að verði flugið sett undir sömu umhverfisreglur og skattlagningu og umferð á jörðu niðri á verð á farmiðum eftir að fljúga hátt.