Laugardagur 15. júlí 2006

196. tbl. 10. árg.

D anski umhverfisverndarsinninn Björn Lomborg, höfundur bókarinnar Hið sanna ástand heimsins, sem nálgast má í bóksölu Andríkis, var í helgarviðtali bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal fyrir réttri viku. Í viðtalinu kemur fram að þegar hann skrifaði bókina sína hafi Lomborg, sem var mikill stuðningsmaður Greenpeace, ætlað að afsanna kenningar þeirra sem héldu því fram að ástand umhverfismála færi batnandi. Þetta mistókst og í staðinn skrifaði hann þessa þekktu bók þar sem neikvæð viðhorf til umhverfismála í dag eru gagnrýnd. Miklar rannsóknir hans og yfirgripsmikil tölfræði sýndu að í málaflokkum allt frá líffræðilegri fjölbreytni til hlýnunar jarðar var einfaldlega ekki tilefni til heimsendaspádóma.

Árið 2004 bauð Björn Lomborg átta af helstu hagfræðingum heimsins, þar með talið fjórum nóbelsverðlaunahöfum, til Kaupmannahafnar til að leggja mat á vandamál heimsins og raða þeim upp eftir mikilvægi. Aðferðin var sú að forgangsraða eftir því hversu miklu miklu fjárframlög til málaflokkanna myndu skila, sem sagt svokölluð kostnaðar- og ábatagreining. Hagfræðingarnir voru héðan og þaðan úr hinu pólitíska litrófi, en voru engu að síður í meginatriðum sammála um forgangsröðunina.

Niðurstöðurnar voru sláandi. Hver dalur sem settur væri í baráttuna gegn eyðni mundi skila 40 dölum í ávinning. Eyðnibaráttan fór þess vegna í fyrsta sætið, næst kom vannæring, svo frjáls verslun og malaría var í fjórða sæti. Með sömu aðferðum fundu hagfræðingarnir út að hver dalur sem færi í að draga úr hlýnun jarðar mundi skila til baka 2 centa til 25 centa ávinningi. Baráttan gegn hlýnun jarðar lenti á botninum, fyrir neðan fjórtán verkefni sem hagfræðingarnir töldu brýnni.

S.þ. spá svipaðri hækkun sjávarborðs á þessari öld og raunin varð á þeirri síðustu. Björn Lomborg bendir á að þessi hækkun þyki ekki meðal stærstu atburða síðustu aldar.

Nýverið endurtók stofnun Lomborgs, Copenhagen Consensus, tilraunina frá 2004 en að þessu sinni með átta sendiherrum hjá Sameinuðu þjóðunum. Hugmyndin með því var að ná til þeirra sem hafa bein áhrif eða taka ákvarðanir. Athygli vekur að sendiherrarnir átta komust að sömu niðurstöðu og hagfræðingar átta tveimur árum fyrr um að baráttan gegn hlýnun jarðar ætti heima neðst á lista yfir brýn verkefni til að bæta ástandið í heiminum. Efst á blaði voru betri heilbrigðisþjónusta, hreinna vatn, fleiri skólar og betri næring.

Lomborg er ekki þeirrar skoðunar að hlýnun jarðar sé ekki vandamál, en  hann telur að menn verði að setja það í samhengi við önnur brýnni vandamál. Hann bendir líka á umhugsunarvert sögulegt samhengi: „Sameinuðu þjóðirnar segja okkur að hlýnun jarðar muni valda breytingum á sjávarhæð um eitt til tvö fet. Það verða ekki þessi 30 fet sem Al Gore er að hræða okkur með. Eru þessi eitt til tvö fet vandamál? Vissulega, en við skulum hafa í huga að síðustu öldina hækkaði sjávarborðið um þriðjung úr feti upp í heilt fet. Og ef þú spyrð eldra fólk í dag hvað hafi verið mikilvægast á öldinni sem leið, heldurðu þá að það segi: „Heimsstyrjaldirnar tvær, brunahreyfillinn, upplýsingatæknibyltingin … og hækkun yfirborðs sjávar“? Það er ekki þar með sagt að þetta sé ekkert vandamál, en við leysum svona vandamál.“