Föstudagur 14. júlí 2006

195. tbl. 10. árg.

Það fer væntanlega ekki framhjá neinum að bjór er auglýstur mjög grimmt í íslenskum fjölmiðlum um þessar mundir. Þetta var ekki síst áberandi í sjónvarpi á meðan HM fór fram í Þýskalandi enda verða forvarnaráhrif íþrótta seint metin að verðleikum. Að vísu er ætíð tekið fram í neðanmálsgrein með mauraletri að um léttöl sé að ræða en það dylst auðvitað engum hvað er verið að auglýsa í raun. En þótt þessar auglýsingar séu áberandi eru betur dulbúnar auglýsingar ekki síður orðnar algengar í flestum fjölmiðlum. Kynning og umfjöllun um einstök vín er orðin fastur þáttur í mörgum fjölmiðlum. Jafnvel morgunþáttur í sjónvarpi bauð um hríð upp á vínsmökkun í bítið. Það vantar ekki að vínunum er lýst á réttan hátt þegar þau eru kynnt lesendum og hlustendum og líklega er bið á því að vín fái slæma útreið í umfjöllun af þessu tagi. Í ágætu blaði var nýlega sagt frá rauðvíni frá Kollwentz fjölskyldunni í Burgenland í Austurríki. Það er rétt að vínin frá þessum framleiðanda eru afar góð og hér kemur umsögn smakkarans á umræddum fjölmiðli sem segir að vínið sé eitt besta rauðvínið sem hann hafi smakkað á árinu:

Það hefur ákaflega þéttan, plómurauðan lit og nokkuð opna angan sem býr yfir þroskuðum ávexti og áberandi eik. Þótt alkóhólið sé fulláberandi fyrir minn smekk er þarna líka aðalbláberjasulta, sultuð kirsuber, þurrt tóbak, heybaggi og súkkulaði. Það er bragðmikið í munni, þurrt og ákaflega vel byggt með mikið af tannínum og sýru. Það er bæði dökkt, karlmannlegt og jarðbundið með bragðglefsur af krækiberjasultu, plómum og kirsuberjum, dökku súkkulaði og vanillu.

Já þarna er ekki bláberjasulta heldur aðalbláberjasulta, kirsuberin er líka sultuð að mestu eins og krækiberin en þó voru plómurnar ekki soðnar niður í sveskjusultu, tóbakið er ekki vott heldur brakandi þurrt og heyið er í ferköntuðum bagga, það er augljóst, enda karlmannlegt vín með kirsuberjum og vanillu.

Vínsmakkari þessi er raunar einn sá kunnasti á landinu og engin ástæða til að efast um að þetta er hans skoðun þótt hann kunni að hafa sleppt fram af sér beislinu við lýsingarnar eftir að dreypt á þessu frábæra víni.

En á meðan áfengisauglýsingar eru bannaðar er meiri hætta á að menn hræri auglýsingum saman við kynningar af þessu tagi. Menn gætu rétt ímyndað sér hvað gerðist ef bannað væri að auglýsa bækur eða kvikmyndir og eina leiðin fyrir framleiðendur, útgefendur og umboðsmenn væri að troða boðskap sínum í ritdóma og kvikmyndarýni.

Á meðan áfengi er lögleg vara í landinu eiga seljendur þess að fá að segja sína skoðun á henni milliliðalaust við neytendur. Það heitir að auglýsa.