Helgarsprokið 16. júlí 2006

197. tbl. 10. árg.

M orgunblaðið styður aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn þenslu og vill almennt talað að farið sé vel með almannafé. Nema að vísu þegar kemur að einstökum útgjaldamálum, þá styður Morgunblaðið jafnan aukin útgjöld. Morgunblaðið gætir þess líka vandlega að skoðanir blaðsins komi ekki fram í fréttum eða fréttamati, heldur aðeins í leiðurum og öðrum þar til gerðum dálkum. Nema að vísu þegar blaðinu finnst mikilvægt að auka útgjöld til ákveðins málaflokks, þá má greina ákveðið mynstur í frétta- og leiðaraskrifum.

„Morgunblaðið klykkir út með því að ekki verði lengur við unað og gefur lítið fyrir þá staðreynd að útgjöld til málaflokksins hafi aukist um helming á fáeinum árum.“

Í byrjun þessa mánaðar birtist grein í Lesbók Morgunblaðsins þar sem dósent við Háskóla Íslands fann að því að of litlu fé væri varið til ritakaupa fyrir bókasafn Háskólans. Ekki dugði að dósentinn fengi að koma þessari kvörtun sinni á framfæri í Lesbókinni, heldur var hún samdægurs sett á forsíðu aðalblaðsins undir fyrirsögninni „Bylta þarf bókasafnsmálum HÍ“. Í forsíðufréttinni var meðal annars haft eftir dósentinum að Háskóli Íslands verði aðeins litlu broti af þeim fjármunum sem Harvard-háskóli ver til bókakaupa, sem er vitaskuld eini rétti samanburðurinn og óþarfi að kanna útgjöld annarra háskóla að þessu leyti. Þriðjudaginn eftir að þessi grein birtist fylgdi Morgunblaðið þessari forsíðufrétt eftir með því að spyrja landsbókavörð út í málið. Líklega kom það blaðinu mikið á óvart að landsbókavörður skyldi vera dósentinum „hjartanlega sammála“ og þess vegna hefur þótt ástæða til að slá fréttinni af þessari skoðun landsbókavarðar upp á baksíðu blaðsins undir fyrirsögninni „Þrefalda þarf framlag til ritakaupa“. Í sömu frétt var rætt við stjórnarmann Landsbókasafnsins, sem öllum að óvörum var einnig sammála því að auka þyrfti framlög til bókakaupa.

Daginn eftir rataði málið enn á útsíðu Morgunblaðsins þegar rætt var við deildarforseta hugvísindadeildar, en svo skemmtilega vill til að fyrrnefndur dósent kennir einmitt við hugvísindadeild. Tilefni fréttarinnar var ærið, enda deildarforsetinn sammála dósentinum um að „þörf sé á að auka fé til bókakaupa fyrir deildina“. Inni í blaðinu var svo myndarleg frétt um málið og yfir henni stóð „Þörf talin á átaki í framlögum til tímarita- og bókakaupa við Landsbókasafnið“. Tveimur dögum síðar heldur Morgunblaðið áfram og finnur að þessu sinni framkvæmdastjóra rekstrar- og framkvæmdasviðs Háskólans til að greina frá því að framlög til bókakaupa hafi verið skorin niður. Sá kemur ekki síður á óvart en fyrri viðmælendur og álítur eðlilegt að „safnið fengi aukið fé frá yfirvöldum“. Þessi stórfrétt rataði vitaskuld á baksíðu auk fréttar í innblaði.

Næsta dag er rætt við menntamálaráðherra bæði á baksíðu og innblaði. Ráðherra tekur undir mikilvægi bókasafnsins, en segir það háskólanna sjálfra að skipta því fé sem þeir fái til rekstrar. Ráðherra bendir ennfremur á þá staðreynd að framlög til háskólanna hafi aukist úr 6,5 milljörðum króna í 10 milljarða króna frá árinu 2002. Þetta er um 50% aukning á fjórum árum, en sú svimandi hækkun verður Morgunblaðinu ekki tilefni til uppsláttar. Næsta dag fylgdi sviðsstjóri þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, eins og orðhagir menn munu hafa nefnt safnið, umfjöllun Morgunblaðsins eftir með aðsendri grein þar sem hoggið er í sama knérunn. Morgunblaðið lætur að þessu sinni eiga sig að vera með sérstaka frétt um skelfilegt ástand bókasafnsins, en samdi að vísu í staðinn myndarlegar fréttir bæði á baksíðu og innsíðu um safnamál almennt, sérstaklega um hversu brýnt það sé að „koma upp náttúrugripasafni“. Alltaf gott að geta haldið lífi í gömlum útgjaldahugmyndum.

Enn líða tveir dagar, og þá, þriðjudaginn 11. júlí, birtir Morgunblaðið bæði samtal við háskólarektor um slæma stöðu bókasafnsins undir fyrirsögninni „Tekjur skólans þurfa að aukast verulega“ og leiðara um sama efni sem bar nafnið „„Klipið“ af gæðakröfunum?“. Í leiðaranum segir að grein dósentsins sem ritaði fyrstur um bókaskortinn mikla í Lesbókina hafi „vakið verðskuldaða athygli“. Þar segir einnig að ljóst sé af fréttaflutningi blaðsins sjálfs, þar sem viðmælendur eru valdir af algeru handahófi eins og rakið er hér að ofan, að „flestir eru sammála um að bókakostur Þjóðarbókhlöðunnar sé afleitur“. Morgunblaðið klykkir út með því að ekki verði lengur við unað og gefur lítið fyrir þá staðreynd að útgjöld til málaflokksins hafi aukist um helming á fáeinum árum.

Þó að þessari tilteknu atlögu Morgunblaðsins að skattgreiðendum hafi ef til vill lokið með fyrrnefndum leiðara eru engar líkur til að það hafi látið af spunafréttamennsku sinni til baráttu fyrir auknum opinberum útgjöldum. Morgunblaðið er eins og margir aðrir þegar kemur að aðhaldi hjá hinu opinbera. Blaðið mælir einstöku sinnum með aðhaldi þegar það þykir við hæfi og þá aðeins almennum orðum svo öruggt sé að enginn styggist við skrifin. Flesta aðra daga er hvert tækifæri nýtt til þrautar til að mæla beint og óbeint með auknum útgjöldum. Hugmyndaauðgi stjórnenda blaðsins til að finna mikinn fjölda viðmælenda sem mælir með útgjöldum nýtist hins vegar afar sjaldan til að hafa uppi á fulltrúum gagnstæðs málstaðar, það er að segja þeim sem efast um kosti aukinna opinberra útgjalda.