Þriðjudagur 11. júlí 2006

192. tbl. 10. árg.
Gunnar Páll segir Íslendinga búa við gott lífeyrissjóðskerfi en lífeyrir sé eign launamanna. Það séu þeir sem ákveði hvar hann sé geymdur en ekki forsvarsmenn fyrirtækja.
– Vitnað í Gunnar Pál Pálsson formann VR í fréttum Ríkisútvarpsins 7. júlí 2006.

Það eru ekki aðeins góð tíðindi fyrir launamenn að þeir eigi lífeyrinn sem þeir hafa lagt til hliðar. Það eru einnig mjög óvænt tíðindi að þeir ákveði hvar lífeyririnn er geymdur. Ofangreind skoðun formanns VR kemur félagsmönnum VR væntanlega í opna skjöldu því þeir eru ekki aðeins nauðbeygðir til að vera félagar og greiða félagsgjöld í VR heldur fylgir með að þeir greiða þar með iðgjöld í ákveðinn lífeyrissjóð.

Lengstum hafa flestir launamenn á Íslandi búið við skylduaðild að stéttarfélögum sem oft á tíðum beita sér í pólitískum málum sem hinir nauðbeygðu félagsmenn eru algerlega ósammála. Nýlega sat formaður VR ásamt félögum sínum í ASÍ til að mynda að samningum við ríkisstjórnina um að hækka tekjuskatt einstaklinga um 1%. Já forstjóri launþegasamtaka vann að því að launþegar í samtökum hans fengju minna upp úr launaumslaginu eftir skatta. Vinnuveitendur og verkalýðsforstjórar hafa svo skipt með sér stjórnarsætum í lífeyrissjóðunum sem þeir neyða launamenn til að greiða í. Reglulega berast svo auðvitað fréttir af því að ýmsir af stærri lífeyrissjóðunum hafi keypt eða selt stóra hluti í stærstu fyrirtækjum landsins og tekið hina eða þessa afstöðuna í stjórnarkjöri í hlutafélögum.

Ofangreind tilvitnun í orð forstjóra VR kom til vegna þess að tvö fyrirtæki munu vera að kanna að starfsmenn þeirra yfirgefi VR og lífeyrissjóð félagsins því forsvarsmenn fyrirtækjanna séu óánægðir með fjárfestingar sjóðsins. Það er með öðrum orðum ekki að frumkvæði sjóðsfélaganna heldur atvinnurekenda sem smala á greiðendum iðgjaldanna yfir í annan sjóð.

Er ekki komið að því að atvinnu- og verkalýðsrekendur hætti að ráðskast með lífeyri launþega og launþegarnir sjálfir hafi eitthvað um það að segja hvar þeir leggja fyrir til efri áranna?

H ver ætli að hafi skorað á Jónínu Bjartmarz?