Miðvikudagur 12. júlí 2006

193. tbl. 10. árg.

Þ eir keppast um það þessa dagana varaformaður og helsti formannskandídat Framsóknarflokksins að svara út í hött. Fréttablaðið ræddi á mánudag við varaformanninn Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra um matvælaverð hér á landi og var á honum að skilja að innflutningsvernd sú sem sett hefur verið upp fyrir landbúnaðinn hafi engin áhrif á matvælaverð hér á landi. Og það var líka á honum að skilja að málið væri ekki í höndum íslenskra stjórnvalda, því að nú standi yfir viðræður um þessi mál á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Markmiðið með verndarstefnunni í landbúnaðinum er að gera innlendar landbúnaðarafurðir seljanlegri í samanburði við erlendu afurðirnar. Þetta er gert með aðgerðum sem hækka verð erlendu afurðanna. Svona einfalt er þetta. Hafi landbúnaðarráðherra hins vegar rétt fyrir sér um það að verndarstefna gagnvart landbúnaði hafi ekki tilætluð áhrif hljóta menn að spyrja hvers vegna haldið sé fast við þessa stefnu. Og menn hljóta þá líka að spyrja hvernig það megi vera að gjöld sem lögð eru sérstaklega á erlendu vörurnar skili sér ekki út í verðlagið. Svarið er vitaskuld að landbúnaðarráðherra fer með tóma fjarstæðu. Það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessu efni, það er ekki bæði hægt að reka stefnu sem hækkar vöruverð og halda því fram um leið að vöruverð mundi ekki lækka ef horfið yrði frá stefnunni.

Hin „röksemd“ landbúnaðarráðherra er að við séum nú þátttakendur í viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og að þær viðræður haldi áfram þó að þær hafi tafist. Af þessum sökum getum við ekki lækkað vöruverð hér á landi, ef marka má landbúnaðarráðherra. Þetta er auðvitað líka fjarstæða. Viðræður við önnur ríki um að slaka á verndarstefnu gagnvart innflutningi í heiminum banna engu ríki að lækka tolla og gjöld eða hætta að kvótabinda innflutning. Alþjóðlegar viðræður um minni innflutningshömlur skylda ríki ekki til að halda áfram að gera íbúa sína fátækari ef samningar tefjast eða þeir nást ekki.

Afleiðingar innflutningsverndar, hvort sem er á sviði landbúnaðar eða á öðrum sviðum, eru einmitt þær að íbúarnir búa við skert lífskjör, eru með öðrum orðum fátækari.