H eimsmynd eins getur verið öðrum lokuð bók. Hvað á til dæmis að segja um skrif Ingu Sigrúnar Atladóttur guðfræðings og bæjarfulltrúa í Vogum í Fréttablaðið í gær? Þar eru Íslendingar upplýstir um það, að „uppgangur síðustu ára hefur fyrst og fremst verið vegna opnunar markaða í kjölfar EES-samnings Samfylkingarinnar“ og eru vissulega ný tíðindi. Aðrar heimildir herma að vísu að Samfylkingin hafi haft heldur minna með samninginn að gera og raunar svo lítið að hvorki núverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, né núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir, studdu „EES-samning Samfylkingarinnar“ þegar hann var borinn undir alþingi – og raunar mesta furða að slíkur prívatsamningur eins flokks hafi yfirleitt verið borinn undir þingið.
En þetta heldur fólk stundum. „EES-samningur Samfylkingarinnar“. Raunar virðist það vera merkilega algengt núorðið að fólk ráðstafi atkvæði sínu – og reyni að fá fleiri til hins sama – með einhverjum rökum í þessa veru. Þannig skrifaði maður nokkur um það í Morgunblaðið að hann styddi Framsóknarflokkinn vegna þess að sá framsækni flokkur hefði í ríkisstjórn farið með sveitarstjórnarmál á þeim árum sem mestir áfangar hefðu náðst í mannréttindabaráttu sem greinarhöfundur ber fyrir brjósti. Allt var þetta alveg ljómandi fínt hjá manninum að því einu frátöldu að mannréttindamálin komu sveitarstjórnarmálum ekkert við heldur heyra undir annað ráðuneyti sem allt annar flokkur fór með á þessum örlagatíma.
Það er vafalaust algengara en margir hyggja að menn styðji stjórnmálaöfl vegna misskilnings um sögu þeirra og stefnu. Enginn Samfylkingarflokkanna þriggja studdi það að einkaréttur ríkisins til útvarps og sjónvarpssendinga væri afnuminn á sínum tíma. Hvorki Jón Baldvin Hannibalsson né Jóhanna Sigurðardóttir studdu það, svo dæmi séu tekin af tveimur Samfylkingarmönnum sem stundum þykja mjög frjálslyndir og framfarasinnaðir. Einungis einn af þremur Samfylkingarflokkum studdi EES-samninginn á sínum tíma. Í tveimur af þremur Samfylkingarflokkum fékkst ekki eitt einasta atkvæði við EES-samninginn á þingi en svo kemur ungt fólk og heldur í einlægni að samningurinn sé sérstakur samningur Samfylkingarinnar. Sama má segja af mörgum málum. Fyrir kosningar talar Samfylkingin harðlega fyrir skattalækkunum en þegar til kemur styður hún ekki þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Og þegar vinstrimenn höfðu völd í borgarstjórn Reykjavíkur hækkuðu þeir útsvar í hámark og efndu loforð um „lækkun gjalda á borgarbúa“ með því að færa þeim sérstakt holræsagjald.
Hvaða skoðun hefur Samfylkingin á stóriðju? Jú hún er á móti „stóriðjustefnunni“ er það ekki? Allir viðstaddir Samfylkingarmenn nema tveir greiddu atkvæði með lögum um álverksmiðju í Reyðarfirði þegar þau voru afgreidd á þingi á sínum tíma. En það var að vísu áður en stefnu Samfylkingarinnar var breytt á tónleikum í Laugardalshöllinni.
En svo kemur velviljað fólk og kýs Samfylkinguna í góðri trú. Til að fá lægri skatta, hóflegri álögur og niðurlagningu stóriðju. Og treystir þá vitanlega fáum betur en þeim sem gerðu EES-samninginn.