Ívikunni sem leið lést Kenneth Lay, sem áður hafði verið forstjóri og síðar stjórnarformaður Enrons. Enron var orkuframleiðslufyrirtæki en orkugeirinn skilaði lítilli arðsemi og var ákaflega óhagkvæmur þar sem fyrirtækin gátu í skjóli reglugerðafargans velt kostnaðinum yfir á kúnnana. Kenneth Lay sem var hagfræðimenntaður sá réttilega að þetta var atvinnugrein sem bauð upp á mikla hagræðingarmöguleika og ætlaði sér að taka þátt í því.
Framámönnum fyrirtækisins dugði hins vegar ekki að reka orkuveitu og víkkuðu starfsemi fyrirtækisins út í hvers kyns aðra starfsemi. Kenneth Lay hafði ráðið forstjóra að nafni Jeffrey Skilling. Skilling hafði verið ráðgjafi hjá McKinsey fyrirtækinu og var sjálfstraustið uppmálað. Hann þótti öðrum betri við að flytja powerpoint kynningar og safnaði í kringum sig hópi lærisveina innan fyrirtækisins.
„Fyrirtæki hafa margsinnis orðið uppvís að vafasömum reikningsskilum eins og Enron en fæst þeirra fest jafn vel í vitund fólks. Ástæðan er sú að stór hluti starfsmanna Enrons var með verulegan hluta lífeyrisréttinda sinna bundinn í hlutabréfum fyrirtækisins.“ |
Skilling þótti og var klár – og vissi vel af því sjálfur. Skilling skipti fólki í tvo hópa, þá sem skildu hugmyndir hans og þá sem gerðu það ekki, þeir sem viðurkenndu að þeir skildu ekki hugmyndir hans voru samkvæmt skilgreiningu kjánar. Eins og gefur að skilja var þetta ekki til að auka á gagnrýna hugsun innan fyrirtækisins.
Enron ætlaði sér að miðla viðskiptum með hvers kyns vöru allt frá orku til bandvíddar um ljósleiðara. Þegar rekstur fyrirtækisins gekk ekki sem skyldi var ómögulegt fyrir þetta snillingaveldi að viðurkenna að því höfðu orðið á mistök. Stjórnendurnir fóru því að fegra veruleikann. Þeir teygðu og beygðu allar mögulegar og ómögulegar reikningsskilareglur og hvergi kom kænska þeirra betur í ljós en einmitt í því að en láta viðskipti eða samninga samkvæmt orðanna hljóðan vera í samræmi við reglur en sníða þá samt með þeim hætti að áhrif þeirra voru algjörlega á skjön við reglurnar.
Með þessum hætti tókst stjórnendum Enron að fá virt endurskoðunarfyrirtæki og lögmannastofur til að leggja blessun sína yfir gjörninga sem blekktu fjárfesta. Gjörningana var hægt að túlka í samræmi við bókstaf reglnanna en afleiðingarnar gengu í bága við þær. Eins og gengur byrjaði þessi „blekkingarstarfsemi“ smátt en vatt upp á sig eftir því sem á leið og gjáin á milli veruleika og væntinga breikkaði.
Að lokum hafði fyrirtækinu tekist að fela stóran hluta skulda sinna og bókfæra hagnað sem þó skilaði ekki fyrirtækinu krónu.
Þetta skýrir þó ekki hversu vel þekkt Enron er, kvikmyndir eins og Fun with Dick and Jane hafa Enron að fyrirmynd og nýlega sagði Kevin Spacey að Kenneth Lay hefði verið fyrirmyndin að túlkun sinni á Lex Luther í nýjustu Superman myndinni. Ein skýringin á hversu þekkt Enron er liggur í brandara sem Jay Leno sagði í tilefni af ummælum Kevins Spacey; Nú vill Lex Luther ekki bara tortíma Superman heldur líka hafa af honum lífeyrinn.
Fyrirtæki hafa margsinnis orðið uppvís að vafasömum reikningsskilum eins og Enron en fæst þeirra fest jafn vel í vitund fólks. Ástæðan er sú að stór hluti starfsmanna Enrons var með verulegan hluta lífeyrisréttinda sinna bundinn í hlutabréfum fyrirtækisins. Og Kenneth Lay hvatti starfsmenn sína jafnt sem aðra til að kaupa hlutabréf í Enron, jafnvel þótt hann hefði selt sjálfur hluta bréfa sinna í félaginu. Þegar undan fjaraði missti starfsfólkið vinnu sína, horfði á lífeyrisréttindi sín fuðra upp og þar sem Enron var stór vinnuveitandi í Houston lækkaði fasteignaverð á sama tíma.
Fólk hafði því öll eggin í sömu körfu og burt séð frá réttarhöldunum um bókhaldssvik þá hefur opinber umræða snúist um að refsa þurfi stjórnendum Enron fyrir þetta tap starfsmanna félagsins. Hlutabréf lækka daglega og fólk tekur því með ró, fyrirtæki lenda daglega í bókhaldsrannsóknum og fólk tekur því með ró, hins vegar þola menn ekki að sjá samborgara sína verða af lífeyrisréttindum sínum.
Í síðustu viku var í fréttum að framkvæmdastjóri eins stærsta lífeyrissjóðs landsins taldi sig hafa orðið fyrir hótunum tveggja stórra atvinnurekenda. Það sem atvinnurekendurnir, sem sýsla með fjárfestingar, voru óánægðir með var að þeir töldu lífeyrissjóðinn hefði beitt sér gegn sér með því að ætla selja hlutabréf í fyrirtæki þar sem vinnuveitendurnir voru að seilast til áhrifa. Vinnuveitendurnir hótuðu að stofna sérstakan lífeyrissjóð fyrir „sitt“ starfsfólk. Vonandi var það sagt í hálfkæringi fremur en Lex Luther til heiðurs.
Í lífeyrissjóðum hefur safnast mikið fjármagn, um 120% af landsframleiðslu í lok síðasta árs. Með reglulegu millibili heyrast raddir um hvernig rétt sé að ráðstafa fénu, ýmist í valdabaráttu eins áður var nefnt eða verkefni eins og íbúðir fyrir aldraða. Aðalatriðið er hins vegar að lífeyririnn er eign rétthafa sjóðanna og á að standa straum af kostnaði á efri árum.
Sjóðunum á hvorki að ráðstafa í valdabaráttu eða þau baráttumál mannvina sem njóta mestra vinsælda hverju sinni. Spurningin sem þá hlýtur að vakna er hvers vegna skyldi framkvæmdastjóra sjóðsins vera treyst til að fara með fjármunina? Og er það hollt að jafn miklum auði skuli safnað innan lífeyrissjóðanna án þess fólk hafi um það að segja hvernig honum er ráðstafað?
Lærdómurinn sem rétt er að draga af „hótun“ forstjóranna, er sá að nauðsynlegt er að veita algjört valfrelsi rétthafa lífeyrissjóða. Að hver og einn ráðstafi fjármunum sínum á þann hátt sem honum þykir skynsamlegast, ýmist taki þátt í valdabaráttu eða selji og fjárfesti í íbúðum fyrir aldraða eða einhverju allt öðru.