Föstudagur 30. júní 2006

181. tbl. 10. árg.
Fjöldinn sér þetta allt. Þorri manna veit þetta og viðurkennir það í orði kveðnu. Allur fjöldinn tekur undir, þegar sagt er, að heimurinn myndi vera mjög miklu farsælli ef Kristur hefði meiri völd í hjörtum mannanna En hvað gerir þessi sami mannfjöldi til þess að efla þau völd? Það er enn sem fyrri: Mannfjöldinn undrast. Hann ber í brjósti vissa lotningu fyrir Kristi, samsinnir með vörunum ýmsum atriðum í kenningu hans. En hvað gerir hann meira? Raunin verður sú sama og forðum: Frelsarinn er jafnvarnarlaus fyrir þessum samsinnandi áhorfendum, jafn allslaus í þessum heimi. Eða hvar ert þú, góður almenningur Íslands, sem horfir á það, að landið er að verða heiðið aftur, og sér, já, mjög margir af yður sjá, hvert sú þróun leiðir? Eruð það ekki þér, sem berið ábyrgð á þessari þróun, þér, sem heyrið kirkjunni til í orði kveðnu, viljið hafa prest, en hirðið svo ekkert um þann prest, ekkert, hvað hann kennir eða hvort hann kennir yfirleitt nokkuð, ekkert, hvað fram fer í þessum 3, 4 eða 5 kirkjum sem hann ber ábyrgð á, eða hvort þar fer yfirleitt nokkuð fram, yður er alveg sama, aðeins ef hann borgar sæmilegt útsvar með tíð og tíma og dugir til vissra veraldlegra útréttinga. Þér dáist að Kristi. En hvenær er Nýja testamentið lesið á heimilum yðar, hvenær er beðin bæn? Þér dáist að Hallgrími. En hvar eru Passíusálmarnir um þessa föstu?
– Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð, Reykjavík 1956, bls. 119-120.

Senn eru sjötíu ár síðan Sigurbjörn Einarsson var vígður til prests. Allt frá vígslustund hefur hann verið óþreytandi að tala yfir löndum sínum, hvort sem er litlum söfnuði á Fellsströnd, Hallgrímssöfnuði í Reykjavík, guðfræðinemum í Háskólanum eða hverjum þeim sem hlýða vildi á biskupinn yfir Íslandi. Enginn kirkjunnar maður hefur verið honum áhrifameiri síðustu áratugina og mætti sennilega fara drjúgt aftur í leit að öðrum eins. Það má vera hverjum manni skiljanlegt þó slíkri persónu líki ekki sérstaklega við það tómlæti sem hún þykist sjá í mörgum landa sinna, sem í senn játi trú á og fylgni við Jesúm Krist, en geri svo ekkert til að byggja upp og verja kristindóm í landinu.

Fleiri geta að sínu leyti sagt slíka sögu, þó hún kunni að snúa að veigaminni og veraldlegri hlutum. Hvað eru þeir margir þingmennirnir sem segja að hver einstaklingur eigi að vera sem mest sjálfráða um eigið líf og mega taka um það sínar ákvarðanir án þess hið opinbera komi askvaðandi með umhyggjusemi sína? Og hvað margir þeirra ætli að hafi nú til dæmis samþykkt lög sem banna íbúum fjölbýlishúss að sammælast um að leyfa tóbaksreykingar í sameign sinni og það eins þó að hver einasti íbúi vilji að þar sé reykt? Ætli það séu ekki bara flestir? Hvað ætli margir þingmenn, sem geta talað allan daginn um að ríkið eigi ekki að skipta sér af fjölskyldumálum fólks, séu þeirrar skoðunar að það eigi að vera ríkið en ekki foreldrar sem ráði því hvernig fæðingarorlofi sé skipt milli foreldra? Þannig mætti spyrja og spyrja. Þó til séu heiðarlegar undantekningar meðal þingmanna, eru þeir langtum fleiri sem tala fyrir einstaklingsfrelsi þegar það hentar, og setja síðan þau lög sem þrýstihóparnir krefjast.

Sigurbjörn Einarsson hefur um áratugaskeið haft meiri áhrif á andlegt líf samtíðar sinnar en flestir landar hans. Og hann hefur ekki aðeins beitt sér í trúmálum þó miklu mest muni um athafnir hans þar. Á sínum tíma beitti Sigurbjörn sér til dæmis gegn gerð varnarsamnings við Bandaríkin og uppskar ekki tómar árnaðaróskir fyrir. Þó margt hafi farið svona og svona í landsmálum á síðustu öld, þá er það eindregin skoðun Vefþjóðviljans að það hafi verið heillaspor sem stigin voru þegar Ísland skipaði sér í sveit með hinum vestrænu ríkjum sem bundust samtökum um að tryggja öryggi sitt fyrir hugsanlegum ógnum annars staðar frá, og þá auðvitað allra helst úr austurvegi. Það hefði boðið mikilli hættu heim, ef þeir hefðu orðið ofan á sem vildu að Ísland yrði skilið eftir varnarlaust. Ekki þarf að velta því fyrir sér að baráttan fyrir varnarleysi Íslands var alræðisríkjunum í austri mjög að skapi og margir þeir sem hana háðu gerðu það í og með í þeirri von að á Íslandi yrði stofnað kommúnistaríki eins fljótt og kostur væri. Enginn þarf hins vegar að láta sér koma til hugar að síra Sigurbjörn Einarsson hafi haft slíkt í huga, guðleysi kommúnismans hefur alla tíð verið honum ósamþykkjanleg fjarstæða. Hann hefur aldrei verið sá Moskvuagent sem einu sinni var æpt upp.

En það er trúmaðurinn og predikarinn Sigurbjörn sem flestir þekkja. Og ferill hans þar er með ólíkindum. Enn þann dag í dag ber það við að Sigurbjörn stígi í predikunarstól Hallgrímskirkju og eru þó meira en sextíu ár síðan hann kvaddi söfnuðinn. Í kveðjumessu sinni sem sóknarprestur, í janúar 1945, gerði Sigurbjörn orð Jesú Krists að sínum; mín kenning er ekki mín, heldur þess sem sendi mig. Þegar þau eru höfð í huga, sést hversu aðgangshörð hún er, krafan sem nútíminn gerir til kirkjunnar daginn út og inn: ‘vertu meira í takt, fylgdu þróuninni, taktu upp okkar viðhorf, lestu stjórnsýslulögin, núna er árið tvöþúsundogsex’. Kristin kirkja á þess hins vegar ekki kost að taka slíkum óskum með öðru en vinsamlegu brosi og afþökkun, því kenning hennar er ekki hennar einkaeign. Öllum er hins vegar frjálst að játa ekki kristna trú og gera ekkert með það sem kirkjan kennir.

Það er jafn fjarstætt að flytja boðskap um sjálfan Guð án þess að vera sendur til þess, eins og hitt að þegja um slíkan boðskap, ef maður þekkir hann. Af þessum rökum lifir kirkjan enn í dag. Rök hennar eru þessi: Mín kenning er ekki mín, ég er send, kenningin er hans sem sendi mig. Það liggur í augum uppi, að þetta er eina hugsanlega heimild dauðlegra manna til þess að flytja boðskap um sannan Guð, um viðhorf hans til mannanna, um vilja hans þeim til handa. Hver er ég eða hver ert þú, að við tækjum okkur fyrir hendur að flytja kenningu um Guð og eilífan veruleik hans af eigin efnum, sem eigin uppgötvun og sjálfseign! Getgátur geta menn flutt í eigin umboði, hugmyndir og skoðanir. En kirkjan þekkir þann Guð, sem vildi ekki láta mennina sitja uppi með getgátur einar um sjálfan sig, hugboð og óljósan grun um hið eina í tilverunni, sem raunverulega skiptir máli. Guð hefur talað og talar til vor fyrir Soninn.

Það segir sig sjálft að þeir sem komnir eru hátt á tíræðisaldur hafa lifað ólíka tíma. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum ræddi Sigurbjörn Einarsson um æsku sína og minntist eins merkisdags ævi sinnar: „Fólk þurfti að hafa mikið fyrir því að eiga í sig og á. Heimilin þurfti að birgja upp af mat á haustin. Allan fatnað þurfti að gera í höndunum og þar mæddi mikið á konunum. Fötin voru heldur ekki eins skjólgóð og núna. Ég var sjaldan þurr í fæturna áður en ég eignaðist mín fyrstu gúmístígvél 11 ára gamall – hinn 25. apríl 1922. Sá dagur er einn af mestu merkisdögunum í lífi mínu.“ Rúmum áttatíu árum síðar situr sami og semur ræður sínar á tölvu, og segist halda að hún sé annarrar aldar en hann sjálfur og að hún „sé ekkert sátt við að svona gamlingjar séu að eiga við sig“. En þó Sigurbjörn hafi séð heiminn breytast fyrir augum sér er hann þeirrar skoðunar að margt sé það sem ekki breytist.

Tímaleysi fólks nú á dögum er mjög á orði haft. En oft hefur verið bent á það, að þessi títtnefndi skortur á tíma kunni að vera blekking, sjónhverfing, jafnvel flótti. Menn leita langt yfir skammt að lífsfullnægju og hamingju. Kröfur til lífsins hlaðast upp en jafnframt gefa menn sér ekki tíma til að lifa. Sá sem gefur barninu sínu tíma meðan það er barn gefur sjálfum sér mikið. Hann/hún er að njóta tækifæris, sem býðst ekki aftur. Bernskan líður hratt. Sá tími varir ekki lengi, þegar barnið þitt leitar fyrst og fremst til þín og þráir ekki aðra hamingju en vera nærri þér, blanda geði við þig, taka við áhrifum frá þér. Þessi stutti tími er dýrmætur. Fyrir barnið og fyrir þig. Enginn getur gefið barninu sínu gjöf, afmælisgjöf, jólagjöf, fermingargjöf, sem jafnist á við það að gefa því eitthvað af sjálfum sér. Gefa því minningar um hlýja, gjöfula samveru. Sér í lagi minningar um helgi.  Um hljóða lotningu í nánd þess Drottins, sem gefur lífið og allt, sem fegrar og bætir það. Það er torvelt að tala á þessum nótum án þess að það verki á einhverja eins og fjaðrir á uppstoppuðum páfugli. Gegn því er fátt til ráða. Þeir sem skynja ekki lífið nema í gegnum gervihami kunna að vera í „takt við tímann.“ En það er feigð í þeim taktslætti. Kenningar sem ganga í berhögg við lífið, afhjúpast fyrr eða síðar. En valda ómældu tjóni og óláni, þegar þeim er fylgt. Og því miður eiga sumar einföldustu og brýnustu staðreyndir mannlegrar tilveru gegn hneigðum að sækja, sem eru meinlegri en vafasamar formúlur kennivalda hvort sem er á sviði sálfræði, uppeldisfræði eða siðfræði.

Og Sigurbirni þykir sem það sem mestu skipti, það hafi á enga grein breyst. Ekki maðurinn svo neinu skipti og alls ekki Guð.

En ef þú hefðir einhvern tíma tóm til þess eða eirð að hugleiða alvarlega spurningu í auðmýkt, þá gætirðu máske hugsað út í þetta: Hvað hefur breyst af því, sem máli skiptir fyrir oss, um innsta eðli vort og stöðu vora í alheiminum, síðan á jarðvistardögum Jesú Krists? Mun ekki mannshjartað vera svipað – í harmi sínum, í gleði sinni, í synd og sælu, í ást og hatri? Mun ekki móðirin hugsa til barnsins síns á svipaðan hátt og þá? Mun ekki elskhuganum vera líkt innanbrjósts? Mun ekki morðinginn og þjófurinn og svíðingurinn og sælkerinn og kúgarinn og hórkarlinn vera áþekkir innvortis? Vér fæðumst ekki í heiminn með neitt hátíðlegri hætti en fáfróðir forfeður gerðu og á banasænginni erum vér mjög í sömu sporum og þeir. Og sólin vekur lífið á sama hátt og þá og blóðið er eins samsett í æðum vorum og í Páli postula og vér horfum á sömu stjörnumerkin og Lúther og lögmál himins og jarðar og himinhvolfs, líkama og sálar eru þau sömu og þegar Kristur var krossfestur. Einstein og Edison, bílar og tannburstar hafa ekki breytt minnstu vitund um þetta, ekki kjarnorkan heldur. Og almáttugur Guð er nákvæmlega eins. Hvorki Alþingi, Sálarrannsóknarfélagið, Háskólinn eða Prestastefnan geta vikið honum til eða því, sem honum hefur þóknast að birta og boða mönnunum, ekki fremur en góufífillinn getur flutt heimskautið úr stað, eða sveigt jörðina til á möndli sínum. Blómið á nákvæmlega sömu úrkosti til lífsins nú eins og þá, og sömu leið í dauðann. Mannssálin líka.