Laugardagur 1. júlí 2006

182. tbl. 10. árg.

Birgir Ármannsson alþingismaður ritaði grein í Blaðið í gær og sagði frá reynslu sinni af Evrópusambandinu á þingi Evrópuráðsins í vikunni. Birgir segir frá útþenslustefnu Evrópusambandsins og þeim áhyggjum sem margir innan Evrópuráðsins hafi haft af því að Evrópusambandið vilji sífellt útvíkka starfssvið sitt, „nú síðast með því að undirbúa stofnun sérstakrar mannréttindaskrifstofu ESB“. Birgir bendir á að mannréttindamál hafi í áratugi verið lykilþáttur í starfi Evrópuráðsins og að öll ríki Evrópusambandsins, auk fjölda annarra ríkja, eigi aðild að Evrópuráðinu. Hann nefnir að þetta sé ekki einstakt dæmi um áhuga ESB á útþenslu, þvert á móti séu dæmin mörg. Skattamálin séu þar á meðal og með reglulegu millibili komi fram hugmyndir um að samhæfa stefnu aðildarríkjanna í skattamálum. Þótt einstök ríki hafni þessum hugmyndum haldi þrýstingurinn áfram, einkum af hálfu þeirra ríkja sem hafi háa skatta og sætti sig illa við samkeppnina við þá sem leggi minni byrðar á borgarana.

Þá nefnir Birgir sem dæmi hugmyndir innan Evrópusambandsins um að auka vald þess á sviði lögreglumála, en framkvæmdastjórnin í Brussel hafi að undanförnu þrýst mjög á um að auka vald sambandsins að þessu leyti. Hann bendir á, þó að hann telji samstarf ríkja á sviði löggæslu æskilegt, að aukið vald Brussel á þessu sviði væri ekki jákvæð þróun. Fara þurfi varlega í að framselja vald til alþjóðlegra eða yfirþjóðlegra stofnana enda felist sú hætta í slíku framsali að vald og ábyrgð fylgist ekki að. „Lýðræðislega kjörin stjórnvöld í einstökum löndum bera pólitíska ábyrgð á þeim ákvörðunum sem þau taka; ríkisstjórnir sem glata trúverðugleika fara frá völdum og þingmenn sem missa stuðning ná ekki endurkjöri,“ segir Birgir, og heldur áfram: „Öðru máli gegnir um stofnanir á borð við ESB, þar sem allt ferli við ákvarðanatöku er flókið og ógegnsætt og hið raunverulega vald liggur oftar en ekki hjá framkvæmdastjórninni og embættismannakerfinu, sem enginn hefur kosið og þarf ekki að leita endurkjörs.“

Loks bendir hann á að jafnvel þegar kosið sé um mál, eins og um stjórnarskrána sem felld hefur verið í þjóðaratkvæðagreiðslum, þá skipti lýðræðislegur vilji almennings litlu. Sambandið leiti annarra leiða þegar svo fari og margir innan þess vilji nú lögfesta stjórnarskrána í pörtum til að fara á svig við vilja kjósenda.

Það kemur vissulega á óvart að sá flokkur hér á landi sem oftast reynir að slá sig til riddara með tali um lýðræði skuli einmitt vera sá flokkur sem beitir sér fyrir því að Ísland verði selt undir ólýðræðislegt vald embættismanna í Brussel. Það þarf hins vegar líklega ekki að koma á óvart að þessi flokkur skuli fara sífellt minnkandi, hvort sem miðað er við nýlegar sveitarstjórnarkosningar eða þær skoðanakannanir sem birtar voru í gær. Samfylkingin, undir forystu Evrópusambandsnámsmannsins mikla Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er á góðri leið með að fjara út undan Evrópusambandstalinu. Ætli það verði ekki bara viðeigandi að halda innan skamms sameiginlega erfidrykkju Samfylkingarinnar og útskriftarveislu Evrópusambandsnámsmannsins. Eða hafa þessar skemmtanir kannski þegar farið fram í kyrrþey?