Fimmtudagur 29. júní 2006

180. tbl. 10. árg.

Vefþjóðviljinn hefur stundum gert að umtalsefni þá ógæfu sem virðist einkenna rekstur Strætó bs. Kannski væri þó réttara að segja að ógæfan felist í stefnu sveitarfélaganna sem eiga „byggðasamlagið“ en rekstrinum sjálfum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu niðurgreiða rekstur strætisvagnanna um 1500 milljónir króna á ári sem einhverjir gætu vafalaust réttlætt í huga sínum ef vagnarnir væru sæmilega nýttir. Svo er hins vegar alls ekki og lætur nærri að nýtingin jafngildi því að níu af hverjum tíu vögnum aki jafnan tómir á meðan einn er fullsetinn. En þegar allt um þrýtur má alltaf réttlæta hluti með því að þeir séu „umhverfisvænir“.  Ýmsir sem hafa áhyggjur af svonefndum gróðurhúsaáhrifum eru einnig mjög fylgjandi rekstri strætó í núverandi mynd. Þó virðist blasa við að útblástur gróðurhúsalofttegunda á hvern ferþegakílómetra er meiri í strætó en mörgum einkabílum.

En það eru ekki aðeins farþegasætin í strætisvögnunum sem eru að mestu leyti auð því samkvæmt fréttum hefur einnig gengið erfiðlega að manna bílastjórasætin upp á síðkastið. Kannski losna útsvarsgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu undan því að greiða nokkrar milljónir á dag með rekstri vagnanna ef ekki tekst einu sinni að fá menn upp í vagnana gegn greiðslu.

Í morgun greindi Fréttablaðið svo frá því að borgin hafi eytt um 54 milljónum króna á undanförnum árum í þróun á nýju kortakerfi sem einkum er ætlað í strætisvagnana. Að auki hefur Strætó bs. sett um hundrað milljónir króna í uppsetningu kortalesara í vögnum sínum. Nú er ekki að efa að þessi nýju kort hafa einhverja kosti umfram önnur greiðslukort en það hlýtur að orka tvímælis og Reykjavíkurborg beri þróunarkostnað og áhættu af þessu tagi.

Í öllu falli hljóta sveitarfélögin sem eiga Strætó bs. að huga að öðrum leiðum til að tryggja „almenningssamgöngur“ um höfuðborgarsvæðið. Núverandi leið er of dýr og illa nýtt.

Íbúðalánasjóður ríkisins er ekki af baki dottinn þótt ríkisstjórnin hafi ákveðið að þrengja útlánareglur hans örlítið. Daginn sem ríkisstjórnin kynnti þessa ákvörðun sína fór Íbúðalánasjóður af stað með blaðaauglýsingar þar sem hann auglýsti eftir fólki sem finnst vera „kominn tími á nýja eldhúsinnréttingu“, „þykir gólfefnin vera út sér gengin“ eða vill gera aðrar breytingar á húsum sínum. Íbúðalánasjóður lánar en þó ekki minna en 570 þúsund krónur. Það er algert lágmark að mati sjóðsins þegar út sér gengnu gólfefnunum er skipt út.