Miðvikudagur 28. júní 2006

179. tbl. 10. árg.

Í gær fann Vefþjóðviljinn að útlánastarfsemi Íbúðalánasjóðs ríkisins og skömmu síðar tilkynnti forsætisráðherra að ríkisstjórnin hefði samþykkt að lækka lánshlutfall og hámarkslán sjóðsins. Ekki dettur Vefþjóðviljanum í hug að samhengi sé þarna á milli, en ákvörðun ríkisstjórnarinnar var engu að síður ánægjuleg og skref í rétta átt. Því er að vísu ekki að neita að skrefið er stutt og bæði lánshlutfall og hámarkslán eru hærri en þau voru fyrir skömmu, en það breytir því ekki að skrefið er í rétta átt.

Annað og ef til vill mikilvægara skref er einnig að finna í yfirlýsingu forsætisráðherra og það er að „fresta útboðum og upphafi nýrra framkvæmda á vegum ríkisins“. Nú er frestun að sjálfsögðu ekki það sama og að hætta við framkvæmdir og æskilegt væri að hætta alveg við framkvæmdir sem ekki eru brýnni en svo að þeim má fresta um ótiltekinn tíma. Frestun framkvæmdanna gefur ríkinu engu að síður færi á að endurmeta þörfina fyrir framkvæmdir sem ella hefði verið farið út í bráðlega og ef gæfan er með skattgreiðendum verða einhverjar framkvæmdanna á endanum slegnar af. Gott dæmi um framkvæmd sem ætti að endurskoða með þetta í huga er bygging nýs risavaxins ríkissjúkrahúss, en sú framkvæmd getur ef marka má áætlanir orðið einhver dýrasta framkvæmd sem ríkið hefur ráðist í. Jafnframt er hætta á að yrði húsið að veruleika mundi það dragast um marga áratugi að auka hlut einkaaðila og ná fram hagræðingu í heilbrigðisgeiranum.

Annað hús sem er enn meira áríðandi að hætt verði við er tónlistarhúsið svokallaða sem einhverjir telja æskilegt að byggt verði við Reykjavíkurhöfn þrátt fyrir að húsið sé bæði óhagkvæmt og óþarft. Hluti af ákvörðuninni sem forsætisráðherra kynnti í gær snerist um að ræða við sveitarfélögin um að dregið yrði úr fjárfestingum þeirra og að „[s]tór samstarfsverkefni ríkis og Reykjavíkurborgar verði skoðuð sérstaklega“. Þetta verður varla skilið á annan hátt en þann að ríkið ætli sér að ræða við Reykjavíkurborg um að fresta byggingu tónlistarhússins, enda er ekkert verkefni sem fellur betur undir þá skilgreiningu að geta talist stórt samstarfsverkefni ríkis og Reykjavíkurborgar.

Vefþjóðviljinn hefur gagnrýnt eindregið þau afleitu áform ríkisstjórnarflokkanna að ætla að hækka tekjuskatt um 1% frá því sem áður hafði verið lögfest. Óvíst er enn með hvaða hætti þau áform um aðhald sem kynnt voru í gær verða framkvæmd. Verði það gert myndarlega þannig að niðurstaðan verði varanlegur sparnaður hjá ríki og sveitarfélögum má segja að ríkisstjórnin hafi komið að nokkru til móts við gagnrýni þeirra sem eru fylgjandi aðhaldi hjá hinu opinbera. Verði hins vegar lítið úr því sem kynnt var í gær er hætt við að vonbrigðin verði þeim mun meiri.