Þriðjudagur 27. júní 2006

178. tbl. 10. árg.
Íbúðalánasjóður ríkisins hvetur menn nú til skuldasöfnunar og ríkisstjórnin ætlar að verðlauna hana með hækkun vaxtabóta.

Um þessar mundir auglýsa bankar og verðbréfafyrirtæki mjög ýmsar leiðir til sparnaðar. Sem kemur ekki á óvart þegar verðbólga og vextir eru svo háir sem raun ber vitni. Minna fer fyrir auglýsingum um ýmsa möguleika til slá lán sem skýrist væntanlega af sömu ástæðu. Á þessu er þó ein undantekning. Íbúðalánasjóður ríkisins er í mikilli auglýsingaherferð fyrir aukinni skuldasöfnun. Í auglýsingum sjóðsins eru landsmenn hvattir til að taka ný lán, með allt að 90% veðhlutfalli, og jafnvel lengja í þeim lánum sem fyrir eru svo taka megi meira með sömu greiðslubyrði.

Það er augljóslega einhver misskilningur að ríkið ætli að hvetja menn til sparnaðar og aðhalds á næstunni. Ekki er nóg með að lánastofnun ríkisins hvetji menn til skuldasöfnunar með auglýsingum heldur hefur ríkisstjórnin gefið ASÍ ádrátt um að skuldasöfnunin verði verðlaunuð meira en orðið er með hækkun svonefndra vaxtabóta. Því til viðbótar ætlar ríkisstjórnin að tillögu ASÍ líka að hækka barnabætur. Að því ógleymdu að handan hornsins eru stórframkvæmdir á vegum ríkis og borgar eins og tónlistarhöll og hátæknisjúkrahús.

Meginástæða þessa taumleysis í ríkisfjármálum og rekstri hins opinbera er að á undanförnum árum hafa skatttekjur ríkis og sveitarfélaga aukist alltof mikið. Þær skattalækkanir sem þó hafa orðið hafa ekki dugað til að slá á tekjuaukningu ríkis og sveitarfélaga. Á síðasta ári voru tekjur ríkis og sveitarfélaga 47% af vergri landsframleiðslu en árið 1995 var hlutfallið 39%. Nær önnur hver króna sem varð til í landinu endaði í sjóðum í hins opinbera. Og ef einhverju má treysta varðandi rekstur hins opinbera þá er það að því fé sem kemur í kassann er umsvifalaust eytt.

Það er því furðulegt að heyra þá kenningu að hægt sé að slá á þenslu í þjóðfélaginu með því hækka skatta. Skatttekjur ríkis og sveitarfélaga eru alveg örugglega ekki settar til hliðar. Þeim er eytt án tafar; skvett eins og olíu á eldinn. Og því miður er þetta ekki aðeins vitlaus kenning. Ríkisstjórnin hefur látið ASÍ glepja sig til þess að hækka tekjuskatt einstaklinga.

En það eru ekki aðeins Íslandsmet í ríkisútgjöldum sem falla um þessar mundir. Ungliðahreyfing Sjálfstæðisflokksins hefur sett það glæsilega met að segja ekki bofs við því að tekjuskattur einstaklinga sé hækkaður.