Mánudagur 26. júní 2006

177. tbl. 10. árg.

Til Íslands flækjast hinir og þessir og sennilega fleiri en svo að íslenskir fjölmiðlamenn hefðu undan að tala við þá alla þó þeir vildu. Einum náðu þeir þó um helgina. Hingað kom maður að nafni Richard Dawkins, og ef marka má viðtal við hann sem Morgunblaðið sá þörf á að kaupa af sjálfstætt starfandi blaðamanni úti í bæ, þá er þessi Dawkins af því frægur að vera „líklega einn þekktasti trúleysingi heims“. Í viðtalinu sem Morgunblaðið birtir segir Dawkins að öll trúarbrögð séu hættuleg því þau hvetji til átaka og nefnir sem dæmi að hryðjuverkamennirnir sem unnu illvirki í New York, Lundúnum og Madrid á síðustu árum hafi verið innblásnir af trú.

Nú er sennilega ekki ástæða til að efast um að þessir hryðjuverkamenn hafi verið ákafir í trú sinni, en jafnvel þó svo sé þá er fráleitt að leiða af því þá niðurstöðu að trúarbrögð séu hættuleg og ættu að hverfa úr mannlífinu. Trú, skoðanir, metnaður, ást, langanir – allt getur þetta orðið til þess að þess að maður fremur óhæfuverk. En það er ekki þar með sagt að þessi hugtök sem slík séu slæm eða að ástæða sé til að ferðast land úr landi til að uppræta það. Þó einhver maður fremji einhvers konar ástríðuglæp þá verður það ekki ástæða til þess að menn reyni að útrýma ástartilfinningum fólks úr heiminum. Og ef menn vilja draga víðtækar ályktanir af einstökum voðaverkum og hvað kann að hafa fengið menn til að fremja þau, þá kann að vera að slíkur einfeldningsháttur leiði á aðrar slóðir en menn ætla sér. Ef trúlausir menn vilja styðja hugmyndir sínar við þá staðreynd að trúaður maður hafi unnið illvirki þá er ekki að efa að þeir eiga greinargóð svör við þeirri spurningu hvort mannkynið hefði farið mikils á mis ef til dæmis herramenn eins og Adolf Hitler og Mao Tse Tung hefðu einn daginn hlýtt þeirri trú sem býður að ekki skuli mann deyða. Ef illvirki trúaðs manns er dómur yfir trú hans og annarra manna, jafnvel allt annarri trú annarra manna – væri þá mjög fjarstætt að draga ályktanir af blóðugum ferli manna sem ekki töldu sig undir neinn æðri mátt selda?

Ríkissjónvarpið vildi svo greinilega ekki vera langt að baki Morgunblaðinu og lagði í gær allt Kastljós undir viðtal við Dawkins, enda ekki á hverjum degi sem líklega einn þekktasti trúleysingi heims kemur hingað til lands. Í sjónvarpsviðtalinu upplýsti Dawkins að engar vísindslegar sannanir væru fyrir tilvist Guðs, sem kannski þurfti ekki að koma á óvart því frá því Tómas fékk að þreifa á naglaförum Jesú hafa slík sönnunargögn ekki verið boðin fram af réttum aðilum, svo vitað sé. Raunar kom ekkert á óvart í máli Dawkins, enda sjónarmið trúlausra vel þekkt. Sem er nefnilega það sem er sérstakt við þessi viðtöl við hinn þekkta trúleysingja: það var hreint ekki neitt fréttnæmt við komu hans. Ætli það komi langt viðtal næst þegar hingað kemur erlendur biskup og vill segja frá nokkrum þekktustu atriðum kristindóms? Eða ætli slíkur maður fái kannski frekar það hversdagslega svar að í máli hans yrði ekkert sem fólk hefði ekki heyrt ótal sinnum áður? Af einhverjum ástæðum hefur hins vegar bæði Ríkissjónvarpinu og Morgunblaðinu þótt merkilegt að hingað komi maður og fari með alþekktar þulur trúlausra.

Það er svo allt annar handleggur hvorir hafa rétt fyrir sér um grundvallaratriði tilverunnar, trúaðir eða trúlausir. Fyrir svo utan það augljósa atriði að „trúaðir“ eru gríðarstór og fjölbreyttur hópur. Og ekki verður hinu neitað að Dawkins kom ágætlega fyrir í viðtalinu, var rólegur, yfirvegaður og vafalítið þægilegur í viðkynningu. En það er bara þessi dýrkun á útlendingum sem hingað slæðast sem getur orðið þreytandi. Á dögunum var til dæmis langt kastljósviðtal við Yoko Ono, konu sem er heimsfræg fyrir að vera ekkja eins þekktasta tónlistarmanns síðustu aldar. En viðtalið snerist ekki um neitt sem máli skipti, heldur bara hugmyndir ekkjunnar um ýmis málefni. En þá var ekkert tilefni lengur til þess að frekar væri rætt við hana en aðra ferðamenn. Og að mörgu leyti má segja sama um hinn breska fræðimann sem hingað kom að boða trúna á guðleysi tilverunnar. Hann kom vel fyrir, er ljómandi máli farinn – en það var furðulega vel í lagt að leggja heilt kastljós undir þau heldur ófrumlegu sjónarmið hans að Guð sé ekki til og að heimurinn væri betri ef þar væru allir trúlausir.

Ríkissjónvarpið hefði sparað sér mikinn útsendingartíma með því að láta þau Yoko Ono og Richard Dawkins fá að njóta Íslandsferðarinnar óáreitt. Erindum þeirra beggja hefði verið fullur sómi sýndur með því að láta sér nægja að spila bara brot úr litlu lagi: Imagine there’s no heaven, it’s easy if you try.