Helgarsprokið 25. júní 2006

176. tbl. 10. árg.

Vefþjóðviljinn hélt því fram á föstudaginn að þeir sem hefðu yfir 150 þúsund króna mánaðartekjur mundu tapa á þeim breytingum sem gerðar hafa verið á upphaflegum áætlunum ríkisstjórnarinnar um skattlækkanir frá því í nóvember 2004. Í Morgunblaðinu í gær er svo frétt þess efnis að allir með undir 250 þúsund krónum hagnist á þessum breytingum. Við nánari skoðun á loforði ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember 2004 má hins vegar halda því fram að allir tapi á þeim breytingum sem orðið hafa á upphaflegum áætlunum ríkisstjórnarinnar. Allir tekjuhópar munu greiða hærri tekjuskatt í byrjun næsta árs en þeir hefðu gert ef marka hefði mátt fyrirheit ríkisstjórnarinnar í nóvember 2004. Þetta skýrist ekki aðeins af nýju samkomulagi ríkisstjórnarinnar við ASÍ heldur einnig af útsvarshækkunum sveitarfélaga og verðbólgunni undanfarið.

Í sameiginlegri yfirlýsingu forsætis- og fjármálaráðherra 19. nóvember 2004 kemur fram að ríkisstjórnin hafi samþykkt frumvarp sem lækka muni tekjuskatt einstaklinga um fjögur prósentustig og að persónuaflsláttur hækki um 8% á árunum 2005 til 2007.

„Ríkisstjórnin er því ekki aðeins að ganga á bak orða sinna um lækkun á skatthlutfallinu heldur hækkar persónuaflsláttur í raun einnig minna en ráð var fyrir gert. Það er því rangt að hækkun á skatthlutfallinu verði bætt upp með hækkun persónuaflsáttar. Ríkisstjórnin er einfaldlega að hækka skatta frá því sem áður hafði verið lofað og lögfest.“

Með nýgerðu samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambands Íslands er hins vegar ljóst að ekki verður staðið við þessi loforð ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir. Jafnvel lögfestar skattalækkanir verð dregnar til baka og skattar hækkaðir að nýju.

Tekjuskattur einstaklinga verður í byrjun næsta árs 35,72% en ekki 34,58% eins og vænta hefði mátt af loforði ríkisstjórnarinnar. Tekjuskattshlutfallið verður því enn hærra en það var þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp árið 1988 og íslenskir stjórnmálamenn stefna óðfluga að því að geta haldið upp á 20 ára afmæli þess að skattpína almenning meira en gert var í byrjun. Ríkisstjórnin hefur dregið 1% skattalækkunarinnar til baka og sveitarfélögin hafa einnig hækkað útsvarið á undanförnum árum.

Persónuafsláttur verður 32.150 krónur á mánuði um næstu áramóti en hefði orðið að minnsta kosti 32.665 krónur ef hann hefði hækkað um 8% að raungildi frá því ríkisstjórnin gaf loforð sitt í nóvember 2004. Almennt verðlag hefur hækkað um 10% frá því í nóvember 2004 sem er auðvitað mun meiri hækkun er reiknað var með þegar ríkisstjórnin gaf loforð sitt. Það hefur vart verið ætlunin að persónuaflsláttur lækkaði um 2% að raunvirði á þessum tíma. Vegna verðbólgunnar undanfarið hefur nú verið ákveðið að binda persónuaflsláttinn við vísitölu neysluverðs frá næstu áramótum.

Nú er rétt að taka það fram að Vefþjóðviljinn er enginn aðdáandi persónuafsláttar og mundi fremur vilja lágan flatan skatt án persónuaflsáttar. En það hefur verið gefið í skyn undanfarna daga að sú 1% hækkun sem verður á tekjuskattinum um næstu áramót frá því sem þegar hafði verið lögfest muni verða bætt með meiri hækkun á persónuafslætti. Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa haldið því fram að það sé bara verið að fara aðra leið að sama marki. Þetta er rangt. Ríkisstjórnin lofaði í nóvember 2004 að hækka persónuafslátt um 8% fram til ársins 2007. Samkvæmt samkomulaginu við ASÍ mun persónuaflsláttur hins vegar í besta falli hafa hækkað um 6,3% að raunvirði um næstu áramót.

Ríkisstjórnin er því ekki aðeins að ganga á bak orða sinna um lækkun á skatthlutfallinu heldur hækkar persónuaflsláttur í raun einnig minna en ráð var fyrir gert. Það er því rangt að hækkun á skatthlutfallinu verði bætt upp með hækkun persónuaflsáttar. Ríkisstjórnin er einfaldlega að hækka skatta frá því sem áður hafði verið lofað og lögfest.

Vanefndir ríkisstjórnarinnar, útsvarshækkun sveitarfélaganna og samkomulagið við Alþýðusambandið gera það að verkum að allir skattgreiðendur greiða hærri skatta um næstu áramót en ætla mátti af loforðum ríkisstjórnarinnar í nóvember 2004.

Loforð ríkisstjórnar 2004 Raunveruleikinn 2007
Laun á mánuði Tekjuskattur Tekjuskattur Skattahækkun á mánuði
       100.000                  532               2.141           1.610    
       150.000             17.332             19.287           1.955    
       200.000             33.997             36.432           2.435    
       250.000             50.663             53.578           2.915    
       300.000             67.328             70.724           3.395    
       350.000             83.994             87.869           3.875    
       400.000            100.660            105.015           4.355    
       450.000            117.325            122.160           4.835    
       500.000            133.991            139.306           5.315    
       550.000            150.656            156.452           5.795    
       600.000            167.322            173.597           6.275    
       650.000            183.988            190.743           6.755    
       700.000            200.653            207.888           7.235    
       750.000            217.319            225.034           7.715    

Eins og sjá má á töflunni hér að ofan (allar tölur í krónum) munu allir tekjuhópar greiða hærri tekjuskatt á næsta ári en ríkisstjórnin lofaði í nóvember 2004. Ríkisstjórnin lofaði þessu ekki aðeins heldur lögfesti hún 4% lækkun á tekjuskattshlutfallinu en ætlar nú að hækka það aftur um 1%.

Það er svo líklega rétt að taka það fram að í ofangreindum útreikningum eru laun ekki reiknuð fram eftir vísitölu neysluverðs eða launavísitölu eins og Stefán Ólafsson prófessor og Samfylkingin gera þegar þau reikna út breytingu á skattbyrði. Ef sú leið hefði verið farin mundi skattahækkun á mánuði auðvitað verða miklu meiri.