Laugardagur 24. júní 2006

175. tbl. 10. árg.

S vifryk er vinsælt umræðuefni nú um stundir og hafa ýmsir miklar áhyggjur af þessu tiltekna ryki. Fyrir því kunna að vera góð og gild rök, upp að vissu marki að minnsta kosti. En það er eins með þessar áhyggjur og flestar aðrar að mörgum forsjárhyggjumanninum verða þær tilefni til hugleiðinga og jafnvel tillagna um auknar hömlur og bönn. Þannig hafa komið fram hugmyndir um að réttast væri að banna nagladekk með þeim rökum að þau séu helsti framleiðandi svifryks.

Í nýjasta FÍB blaðinu er sagt frá finnskri rannsókn á svifryki sem sögð er benda til hins gagnstæða, það er að segja að nagladekk séu frekar til þess fallin að draga úr svifryksmengun en hitt. Í greininni í FÍB blaðinu segir að mjúkt yfirborð og fínskorið mynstur ónegldu dekkjanna grípi betur í vegyfirborðið sem þýði líka að þau þyrli meiru upp af sandi, ryki og vatnsgufu en hin negldu. Negldu dekkin hafi yfirleitt harðari slitflöt og grófara mynstur en hin ónegldu. Þar sé treyst á naglana til að halda veggripi á ís meðan mynstur og mýkt hinna ónegldu skapi „ísgripið“.

Þá segir í FÍB blaðinu að norskar mælingar sem gerðar hafi verið á svifryki fyrir og eftir staðbundin bönn við notkun nagladekkja sýni lítil tengsl á milli svifryks og notkunar nagladekkja. Magn svifryks í andrúmsloftinu sé miklu frekar háð veðurfari og vætutíð. Þetta er raunar svipuð niðurstaða og nýleg íslensk rannsókn um sama efni sýndi.

En hvað er þá til ráða til að draga úr svifryki? Eitt ráð og ef til vill það besta er einfaldlega að þrífa göturnar og ef til vill verður það gert í Reykjavík sem hluti af hinu mikla hreinsunarátaki sem ný borgaryfirvöld hafa boðað. Svifrykið er nefnilega að stærstum hluta ryk sem þyrlast upp aftur og aftur vegna þess að þrifum er ekki sinnt. Annað ráð sem er líklega ekki mikið síðra er að hætta að niðurgreiða ferðir risastórra, níðþungra og yfirleitt galtómra bíla um götur borgarinnar. Þessir bílar, sem eru gulir á lit og þekkjast af því að þeir eru allt of stórir fyrir flestar af götum borgarinnar, slíta götunum margfalt meira en venjulegir fólksbílar. Og munurinn er ekki bara tí- eða hundraðfaldur. Nei, hann er þúsunda- eða tugþúsundafaldur. Það er nefnilega ekki bara þannig að þessir illa nýttu „monstertrukkar“ eyði tiltölulega meira eldsneyti á hvern farþega en almenningsfarartækin, það er að segja fólksbílarnir. Einn helsti vandinn vegna gulu risabílanna er gífurlegt slit á götum með tilheyrandi viðhaldskostnaði og svifryksmengun.