Föstudagur 23. júní 2006

174. tbl. 10. árg.

Ríkisstjórnin ákvað í gær að hækka skatta á þorra launþega frá og með næstu áramótum. Áður lögfest lækkun tekjuskatts um 2% verður aðeins 1% en á móti kemur meiri hækkun persónuaflsáttar en áður hafði verið boðuð. Þetta þýðir að þeir sem hafa yfir um 150 þúsund króna mánaðarlaun munu greiða hærri skatta á næsta ári en stefndi í að óbreyttu. Það voru nauðungarsamtök launamanna, ASÍ, VR og fleiri áþekk, sem kröfðust þessarar skattahækkunar af ríkisstjórninni. Það er alveg furðulegt að löglega kjörin stjórn í landinu skuli láta slík skylduaðildarsamtök knýja sig til samningaviðræðna og láti svo undan flestum kröfum þeirra. Til hvers eru kosningar til Alþingis og stjórnarsáttmálar ef ASÍ ræður þessu hvort eð er? Það má raunar spyrja hvort ekki væri eðlilegt að ríkisstjórnin settist einnig að samningaborði um skattamálin við þá launþega sem eru svo lánsamir að vera utan nauðungarsamtakanna.

Þessi breyting á skattkerfinu er ekki aðeins slæm vegna þess að hún leiðir til skattahækkana á stóran hóp einstaklinga heldur einnig vegna þess að með henni er ríkisstjórnin að snúa af braut lækkandi skatthlutfalls. Lækkun skattahlutfallsins er eina leiðin til að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins.

Ætlar þessi ríkisstjórn í alvöru að láta það verða sitt síðasta verk í skattamálum fyrir kosningar næsta vor að hækka tekjuskattshlutfallið á einstaklinga? Stjórnin átti í vök að verjast fyrir síðustu kosningar vegna skattamála og hvernig halda menn að umræðan verði fyrir kosningarnar næsta vor ef þessi skattahækkun nær fram að ganga?