Fimmtudagur 22. júní 2006

173. tbl. 10. árg.

Það var frekar skemmtilegt að fylgjast með bleikklædda fólkinu nítjánda júní. Fréttamenn voru bleikklæddir, nýr félagsmálaráðherra ljómaði af spenningi yfir bleika bindinu sínu, netsíða Morgunblaðsins var bleik, enda fáir rétttrúaðri en Morgunblaðið, og netsíða Viðskiptablaðsins var bleik líka enda blaðið á hraðferð sömu leið. En fáir aðrir voru bleikir. Það var rétt svo að hægt væri að segja að fleiri væri bleikklæddir utandyra en á venjulegum degi. Það voru sem sagt þeir sem búast mátti við; aðallega vissir fjölmiðlar og svo stjórnmálamenn sem gerðu allt til að „vera með“, en hinn almenni borgari lét það ógert.

Og fjölmiðlamenn létu sér ekki nægja að taka þátt í átaki í vinnutímanum með því að vera í sérstökum baráttufötum við að lesa fréttir og stjórna þáttum. Þeir lögðu líka þætti undir sitt eftirlætisumræðuefni, stöðu Kvenna og réttindi Kvenna. Sífellt þarf að rifja upp hvenær konur fengu kosningarétt. Eins og þær einar hafi einhvern tíma verið án kosningaréttar og þurft að bíða eftir honum.

Fjölmiðlamönnum dettur ekki einu sinni í hug að einhvern tíma hafi runnið upp sá dagur að efnalitlir karlmenn fengu kosningarétt. Eða karlmenn sem skulduðu sveitarstyrk. Eða vistráðnir karlmenn. Það þarf aldrei að rifja upp afmæli kosningaréttar þessara manna. En á hverju einasta ári þarf að standa á öndinni yfir bráðum hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna, klæða sig í bleik föt, breyta vefsíðum, afhenda málaða steina, halda sérstaka umræðuþætti.

Hvað ætli menn segðu ef samtök gjaldþrota manna skoruðu á menn að ganga í sérstökum fötum til að minnast kosningaréttar þeirra sem skulda sveitarstyrk?