Miðvikudagur 21. júní 2006

172. tbl. 10. árg.

Þ essa dagana er mjög til umræðu hvað skuli gera í efnahagsmálum, þar með talið til að tryggja aðhald í fjármálum hins opinbera. Sveitarfélögin gleymast gjarnan í þessu sambandi þrátt fyrir að þau ráðstafi orðið stórum hluta skattfjárins, til að mynda yfir helmingi tekjuskatts einstaklinga. Þetta er miður, því að sveitarfélögin eru enn meiri eyðsluseggir en ríkið – og er þá langt til jafnað. En þar sem báðir aðilar, ríki og sveit, þurfa að gæta aðhalds í fjármálum sínum er ekki úr vegi að líta til verkefna sem eru á könnu beggja og mega skaðlítið missa sín. Eitt þessara verkefna er hið margumrædda tónlistarhús sem á eftir að rísa við Reykjavíkurhöfn verði ekkert að gert, skattgreiðendum og efnahagslífinu öllu til tjóns.

Vefþjóðviljinn hefur lengi lýst andstöðu sinni við byggingu þessa tónlistarhúss á kostnað almennings og þess vegna þarf engum að koma á óvart þótt þessi afstaða sé ítrekuð nú. Það kemur hins vegar meira á óvart þegar einstaklingar úr tónlistargeiranum lýsa þeirri skoðun sinni að húsið megi missa sín, enda er það plagsiður að þeir sem hafa áhuga á einhverju – að ekki sé talað um þá sem hafa atvinnu af einhverju – styðja öll opinber útgjöld sem þessum áhugamálum tengjast, sama hversu vitlaus þau annars eru. Þannig vakti athygli í gær þegar stutt viðtal birtist í Fréttablaðinu við Harald Frey Gíslason trommuleikara Botnleðju sem sagði meðal annars: „Ég vil ekki að það verði hérna bullandi verðbólga til þess að við getum fengið tónlistarhús sem við getum alveg verið án.“ Já, „sem við getum alveg verið án“, er það sem tónlistarmaðurinn sagði um tónlistarhúsið.

Vitaskuld geta tónlistarmenn jafnt sem aðrir verið án þessa tiltekna tónlistarhúss. Þeir hafa verið það hingað til og gengið alveg prýðilega, eins og hástemmdar lýsingar á gæðum tónlistarmanna og hljómsveita landsins sýna. Gildir þá einu hvort um er að ræða popphljómsveitir á borð við Botnleðju eða klassískar hljómsveitir á borð við Sinfóníuhljómsveitina.

Annað sem ríki og sveit geta sameinast um að spara eru útgjöld til íþróttamála, en á því sviði hafa þessir aðilar oft og tíðum orðið uppvísir að samráði gegn skattgreiðendum svo byggja megi áhorfendastúkur, teppalagða knattspyrnuvelli, fjölnota leikfimisali og hvaðeina annað sem ekki er talið að muni bera sig á eðlilegum forsendum.