Þriðjudagur 20. júní 2006

171. tbl. 10. árg.
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var á kvikmyndahátíðinni í Cannes um helgina. Hún notaði ferðina til þess að kynna Ísland sem áhugaverðan kost fyrir kvikmyndagerðarfólk og lagði mesta áherslu á tólf prósenta skattaafsláttinn sem ríkið veitir framleiðslufyrirtækjum.
– Úr frétt Fréttablaðsins af ferðum Valgerðar Sverrisdóttur í Cannes 22. maí 2006.

Þ

Ef hann springur færðu endurgreitt hjá Valgerði.

að fer ekki á milli mála að skattalækkun er góð leið til að lokka fyrirtæki til landsins og ekki síður að halda þeim sem fyrir eru í landinu áfram. Í viðtali við Fréttablaðið sagði Valgerður Sverrisdóttir þáverandi iðnaðarráðherra skattaafslátt til kvikmyndagerðarmanna, sem bundinn var í lög fyrir fimm árum, hafa skilað góðum árangri. „Það er gaman að geta staðið hér og talið upp nöfn eins og James Bond, Angelinu Jolie, Clint Eastwood, Batman og fleiri þegar nefnd eru dæmi um það sem tekið hefur verið upp á Íslandi á síðustu árum.“, sagði ráðherrann í viðtalinu.

Ef að þessi skattaafsláttur hefur í raun gefið svo góða raun hvers vegna er hann ekki gerður almennur þannig að öll fyrirtæki njóti hans? Þetta mundi vafalaust létta rekstur margra fyrirtækja. Þegar þetta færi að spyrjast út með góðri aðstoð Valgerðar í Cannes og jafnvel víðar eftir að hún gerðist utanríkisráðherra þá er ekki að efa að það mundi skila góðum árangri. Og einstaklingar gætu vafalaust einnig þegið slíkan afslátt. Til dæmis með því að ríkið endurgreiði 12% af þeim kostnaði sem menn þurfa að bera í heimilisrekstrinum. Hinn venjulegi Íslendingur er auðvitað ekki með jafnháan risnureikning og James Bond og Batman og Valgerði Sverrisdóttur þykir vafalaust ekki jafngaman að standa í Cannes og segja frá því að Jón og Gunna fái 12% af helgarinnkaupunum endurgreidd frá íslenska ríkinu. En hér hafa sest að ýmsir frægir menn og Valgerði gæti þótt gaman að standa og segja frá því í Cannes og víðar að Damon Albarn, Bobby Fischer,  og Odd Nerdrum fái 12% af kostnaði við heimilishald hér á landi endurgreidd.

Skattaafsláttur af þessu tagi er ekkert annað en ríkisstyrkur. Slíkir styrkir beina mönnum í ákveðinn farveg. Stjórnvöld eiga ekki að hygla einstökum atvinnugreinum með þessum hætti. Atvinnugreinar og fyrirtæki keppa sín á milli um starfsmenn og  fjármagn og hið opinbera á ekki að gera upp á milli þeirra með skattfríðindum eða öðrum tegundum af ríkisaðstoð. Það blasir auðvitað við að James Bond kom hingað en menn sjá hins vegar ekki hvaða starfsemi varð undir því hún mátti ekki við keppninni við ríkisstyrktan Bondinn. Það verður því alltaf á brattann að sækja fyrir þá sem tala gegn sérstækum aðgerðum af þessu tagi. Árangurinn af þeim sést oft vel og ráðamenn stæra sig af honum en skaðinn er ekki áþreifanlegur.