N ú standa yfir viðræður milli samtaka atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á kjarasamningum. Reyndar eru nokkur misseri þangað til núgildandi kjarasamningar falla úr gildi en þessir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins eru hins vegar sammála um mikilvægi þess að ná saman nú, til þess að bæta kjör þeirra sem lægst hafa launin með raunhæfum hætti, án þess að koma af stað skriðu launahækkana og víxlverkun launa og verðlags, sem gæti leitt yfir þjóðina langvarandi verðbólguskeið.
Rétt er að hafa þessar forsendur viðræðna aðila vinnumarkaðarins í huga þegar litið er til þeirrar kröfu ýmissa verkalýðsforingja að til þess að samningar náist sé nauðsynlegt að endurskoða lög um eftirlaun þingmanna og ráðherra. Fjölmiðlar hafa undanfarna daga birt hvert viðtalið á fætur öðru við forystumenn í verkalýðshreyfingunni þar sem þeir hafa lýst því sem lykilatriði í viðræðunum að lögum verði breytt að þessu leyti og einn orðaði það svo að spurningin væri sú hvort þingmenn ætluðu að koma í veg fyrir þjóðarsátt í kjaramálum með því að láta ógert að breyta lögunum. Enginn fjölmiðill hefur hins vegar spurt þessa forystumenn launafólks hvernig breyting á eftirlaunalögum þingmanna og ráðherra gagnist umbjóðendum þeirra, hvort kjör hinna lægst launuðu batni við það að eftirlaun einhverra annarra skerðist eða hvernig sú breyting muni koma í veg fyrir verðbólguþróun á næstu mánuðum. Það má að vísu benda á að eftirlaun þingmanna og ráðherra eru greidd með sköttum landsmanna og koma þannig við pyngju launþega. En forystumenn verkalýðshreyfingarinnar virðast ekki hafa áhyggjur af þeirri hlið málsins og hafa jafnvel stungið upp á því að skerðing eftirlauna verði umsvifalaust bætt með þeim mun hærri launum handa þingmönnum og ráðherrum. Fjölmiðlarnir hafa með öðrum orðum ekki vakið athygli á því að verkalýðshreyfingin hótar að semja ekki um kjarabætur til hinna lægst launuðu félagsmanna sinna nema hún fái framgengt pólitískri kröfugerð, sem stendur í litlu efnislegu samhengi við kjaramálin.
Enginn fjölmiðlamaður hefur heldur spurt forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hvort launakjör þeirra sjálfra séu í samræmi við þjóðarsátt á vinnumarkaði og þá kjarajöfnunarstefnu sem þeir boða á hátíðarstundum. Hefur einhver til dæmis spurt Gunnar Pál Pálsson, formann VR, hvort laun hans séu í samræmi við laun félagsmanna hans sem vinna við afgreiðslustörf í Bónus eða Nettó. Hefur hann verið spurður að því hvort þjóðarsátt ríki um að hann fái tífalt hærri laun en þeir. Sama má segja um Guðmund Gunnarsson, formann Rafiðnaðarsambandsins, og þá Gylfa Arnbjörnsson og Grétar Þorsteinsson hjá ASÍ. Er ekki eðlilegt framlag þeirra til þjóðarsáttar að jafna kjör sín og umbjóðenda sinna? Engum blaðamanni dettur í hug að spyrja að því.
Og varðandi formenn stjórnarandstöðuflokkanna. Engum blaðamanni dettur í hug að spyrja þá hvort sé mikilvægara að samþykkja breytingu á eftirlaunalögum eða lögum um þingfararkaup, en þeim var breytt um leið og eftirlaunalögunum með þeim hætti að þessum sömu formönnum stjórnarandstöðuflokkanna var færð sérstök launahækkun upp á 200 þúsund krónur á mánuði. Steingrímur J. Sigfússon var reyndar norður í landi í desember 2003 þegar Alþingi samþykkti þessa breytingu og Guðjón Arnar Kristjánsson á Kanaríeyjum – og símasamband við þessa afskiptu staði var sérlega slæmt þá daga sem málið var til umfjöllunar á þingi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var ekki orðin formaður Samfylkingarinnar á þessum tíma en notaði þetta mál óspart til að berja á þáverandi formanni, Össuri Skarphéðinssyni. Hún lagðist gegn þessari breytingu af hörku en hefur eftir því sem best er vitað ekki hikað við að taka við launauppbótinni frá því hún var kjörin formaður flokks síns vorið 2005. Enginn fjölmiðlamaður virðist muna eftir þessu – eða kannski vilja þeir bara ekki sýna þann dónaskap að spyrja spurninga af þessu tagi.