Helgarsprokið 18. júní 2006

169. tbl. 10. árg.

L eiðtogar Evrópusambandsins hittust á tveggja daga fundi í Brussel í liðinni viku og lauk honum á föstudaginn. Að vanda er ein helsta ályktunin sem hægt er að draga eftir fundinn sú að um fleira eru ríkin ósammála en sammála.

„Eftir því sem ríkjunum fjölgar í Evrópu-sambandinu verður þetta meira áberandi. Í smærri málunum eru hagsmunirnir enn ólíkari og enn erfiðara er fyrir 25 eða fleiri ríki að ná samkomulagi en fyrir 15.“

Til að mynda áttu ríkin í megnustu vandræðum með að ná samkomulagi um það hversu auðvelt það ætti að vera almenningi að fylgjast með því sem gerist á ráðherrafundum Evrópusambandsins og hvernig aðgangur almennings að upplýsingunum ætti að vera. Var ákveðið að auka gegnsæi fundanna en ríki sem voru andstæðrar skoðunar komu í gegn fyrirvara um að hægt verði að hætta við og hverfa til sama kerfis og nú er ríkjandi þar sem helstu samningaviðræður fara fram fyrir luktum dyrum. Margir óttast jafnframt að ákvörðunin um að bæta aðgengi almennings að upplýsingum um það sem fram fer á ráðherrafundum Evrópusambandsins sé almannatengslabrella, enda láti ráðherrarnir ekki þvinga sig til að láta hrossakaupin fara fram fyrir opnum tjöldum. Þess í stað muni þau í framtíðinni eiga sér stað í reykmettuðum bakherbergjum eða yfir hátíðarkvöldverðum.

En ríkin áttu ekki bara erfitt með að vera sammála um það hvort og hvernig aðgangi almennings að upplýsingum um ráðherrafundi eigi að vera háttað. Á fundinum náðu ríkin ekki samkomulagi um hvað gera beri við stjórnarskrá Evrópusambandsins sem barin var saman og ætlunin var að byggja framtíð sambandsins á. Sumir héldu nú að það væri dautt plagg sem ekki yrðu gerðar frekari tilraunir til að troða upp á borgara aðildarríkjanna eftir að því hafi verið hafnað af kjósendum í Hollandi og Frakklandi. En það er auðvitað tómur misskilningur enda vill stór hluti valdaelítu Evrópusambandsins og margra aðildarríkjanna finna leið til þess að koma stjórnarskránni á þrátt fyrir að henni hafi verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu einhverra ríkja. Tilgangurinn með því að leggja hana fyrir þjóðaratkvæði var bara brella til að gefa ferlinu lýðræðislegt yfirbragð. Ætlun ýmissa er að koma stjórnarskránni á með góðu eða illu, hvað sem borgurunum kann að finnast. Sem betur fer eru forystumenn sumra ríkja enn þeirrar skoðunar að ekki beri að þvinga stjórnarskránni upp á þegnana þar sem henni hafi verið hafnað. Þannig hefur ríkjunum endurtekið reynst erfitt að komast að samkomulagi um hvað gera beri við stjórnarskrána eins og um svo margt annað. Endanlegri ákvörðun er því sífellt slegið á frest.

Hví skyldi það reynast svo erfitt að ná samkomulagi um bæði stór og smá mál í Evrópusambandinu? Það eru auðvitað margar ástæður fyrir vanda hins viðamikla Evrópusambands, svo sem uppbygging þess eins og Vefþjóðviljinn hefur áður fjallað um.

En fleira kemur til eins og óvissan um markmið sambandsins. Það skýrir að miklu leyti hversu illa gengur í samstarfinu, að enginn veit hvert stefnt er og þaðan af síður hvernig sambandið mun líta út í framtíðinni. Leiðtogarnir hittast, karpa, standa í hrossakaupum, en eiga í erfiðleikum með að verða sammála um bæði smá og stór mál. Það liggur ljóst fyrir að elíta sumra aðildarríkjanna vill að Evrópusambandið verði sambandsríki Evrópu en elíta annarra ríkja vill mun lausara ríkjasamband en Evrópusambandið er í dag. Í þessu felst stór hluti vandans. Markmið sambandsins eru óljós, auk þess sem hagsmunirnir af öllum þáttum samstarfsins eru ekki nógu miklir eða skýrir til þess að ríkin vilji gefa mikið eftir af sjálfsákvörðunarrétti sínum til þess að semja um aukinn samruma eins og til dæmis fælist í sameiginlegri stjórnarskrá.

Það er augljóslega erfitt að leiða svo umfangsmikið samstarf farsællega áfram, sem þar að auki er yfirþjóðlegt, ef sameiginlegt markmið með förinni er ekki skýrt. Menn höfðu hugsað sér að skilgreina markmið og stefnu Evrópusambandsins betur með stjórnarskránni en hún var málamiðlun ólíkra sjónarmiða, gekk of skammt að mati sumra og of langt að mati annarra.

Eftir því sem ríkjunum fjölgar í Evrópusambandinu verður þetta meira áberandi. Í smærri málunum eru hagsmunirnir enn ólíkari og enn erfiðara er fyrir 25 eða fleiri ríki að ná samkomulagi en fyrir 15. Sama á við um stærri málin sem snúa að því hvert beri að stefna með samstarfinu. Eftir því sem aðildarríkin verða fleiri, þeim mun erfiðara verður að ná einingu um hvert eðli sambandsins eigi að vera.

Ísland náði á sínum tíma hagstæðu samkomulagi við Evrópusambandið ásamt Noregi og Liechtenstein. Engin ástæða er fyrir Ísland að sækja um fulla aðild að sambandinu enda er algerlega óvíst hvernig sambandið mun líta út eftir áratug. Það er engin skynsemi í að sækjast eftir aðild að félagsskap þar sem menn vita ekkert um hvaða grunnreglur verða við lýði eftir aðeins skamman tíma.