Laugardagur 17. júní 2006

168. tbl. 10. árg.
Svo má elska einn, að enginn sé hataður þar fyrir. Foreldri rækir afkvæmi sitt og tekur ekkert frá öðrum með því. Barn ann foreldri og þarf engum að verða til óþurftar af þeim sökum. Það eru ekki sköp, heldur ósköp, ef slíkt hendir. Hvor tveggja afstaðan er ásköpuð að uppruna til og undirrót, en sem ásköpuð eigind undirstaða dýrmætra manndyggða og stoðarsteinn heilbrigðs, farsæls mannlífs.
Sama gegnir um ættjarðarástina. Hún er hvataafl mikilvægrar skyldu, undirstaða dýrmætrar lífsafstöðu. Rækt hennar er dyggð, órækt svik við manngildi sitt, brigð við Skapara sinn. Ásköpuð, ósjálfráð afstaða hugans til þess umhverfis, sem maður er sprottinn úr og hluti af, er ein af aðferðum Skaparans til þess að gera mann að hollum lífsþegni, alveg eins og hinar aðrar tegundir ástar, sem á var minnzt. Þar er sá vettvangur, sem hverjum einstökum er fyrst og fremst falinn til þess að gegna skyldu sinni, greiða skuld sína við lífið. Þú ert heiminum hollur þegn, mannkyninu góður sonur að sama skapi, sem þú rækir land þitt og þjóð, öldungis eins og þjóðhollustan er í fyrsta lagi og fremstum hluta undir því komin, hver þú ert maka þínum, foreldri, barni.
Ættjarðarást, sem hverjum heilbrigðum manni er í blóð borin, á að leiða til þjóðrækni og þjóðhollustu. Það er manngildiskrafa. Og svo sem á öðrum sviðum gilda hér meira athafnir en orð, dagleg afstaða og viðbrögð meira en geðhrif hátíðlegra stunda, þótt þau séu líka góð og nauðsynleg. Trúmennska í daglegu starfi, rækt hollra hátta heima og heiman, góðfýsi og athugun, aðgæzla og hófstilling í úrskurðum um menn og málefni – þetta er nytjameira en lófatak eða yfirlýsingar í fjöldans fylgd og straumi á stórum stundum. Þannig ræktast og bezt sá hæfileiki, sem mest veltur á, ef lýðfrelsi og og atkvæðisréttur á að notast og blessast einstaklingi og þjóð, en það er dómgreind og nærfærni um það, hvað aðstæður heimta af hverjum þegni og þjóðarheildinni á hverri líðandi stundu.
– Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup yfir Íslandi, úr ræðu á lýðveldishátíð Hafnfirðinga, 17. júní 1948

Þ að hefur mörgum orðum og talsverðri prentsvertu verið varið til að ræða um þjóðerniskennd og ættjarðarást. Lengi munu flestir hafa verið sömu skoðunar og sr. Sigurbjörn Einarsson, að heilbrigt væri og eðlilegt að þykja vænna um eigin heimahaga en ókunnug lönd, og að hver sæmilegur maður hlyti að vilja það sem landi hans yrði fyrir bestu. Á seinni árum hefur hins vegar meira heyrst til þeirra sem virðast hafa horn í síðu slíkra tilfinninga, telja þjóðerniskennd beinlínis hættulega og ættjarðarást í besta lagi barnalega. Þeir, sem ekki vilja óðir og uppvægir laga íslenska menningu og siði að hverjum þeim útlendingi sem hingað þóknast að flytja, fara fljótt að heyra talað um fordóma, fáfræði og vanþekkingu. Sífellt mega þeir heyra áróður um „fjölmenningu“, þess er krafist að hið opinbera sjái fyrir túlkum við ýmis tækifæri og meira að segja opinberar kosningar um íslensk málefni eru farnar að kalla á leiðbeiningar á ótal tungumálum fyrir kjósendur.

Þeir sem ekki standa á öndinni af ánægju yfir þessari þróun fá ósjaldan yfir sig athugasemdir um harðneskju sína, ef ekki verra. Minnisstætt var þegar núverandi biskup Íslands sagði í sjónvarpsviðtali fyrir fáum árum að Ísland væri ekkert fjölmenningarsamfélag, það væri misskilningur. Spyrlar biskups urðu slíku felmtri slegnir að þeir virtust hvorki vita í þennan heim né annan næstu mínútur viðtalsins. Slík er krafan um eina rétta hugsun að það andóf gegn henni sem felst í einfaldri athugasemd þess eðlis að Ísland ekki fjölmenningarsamfélag getur valdið ótta og andköfum.

Menn mega hins vegar ekki ruglast á slíkum sjónarmiðum og svo einhverri slíkri kennd að vera illa við útlendinga eða einhverri ímyndun um siðferðislega yfirburði innfæddra Íslendinga umfram annað fólk. Það er einfaldlega ekkert sem segir að þó að hingað flytjist fólk og ákveði að setjast hér að og heyja sína lífsbaráttu hér, að þá kalli það á einhverjar breytingar á skipan mála hjá þeim sem fyrir eru. Sá sem flyst í annað land á enga heimtingu á því að heimamenn sjái honum fyrir túlki, afhendi honum kjörseðil á móðurmáli nýbúans eða taki að kenna trúarbrögð hans í skólum. Sá sem ákveður að flytjast til lands þar sem gerólík menning, tunga og siður blasir við í öllum áttum, hann hefur þá einfaldlega gengist undir þær aðstæður.

Í gær ræddi Ríkisútvarpið við Kolbein Proppé sagnfræðing um þjóðhátíðarhöld. Kolbeinn fagnaði því í viðtalinu að þjóðerniskennd væri á undanhaldi og sagði að henni hefðu fylgt miklar hörmungar. Það er vissulega alveg rétt, að það getur haft skelfilegar afleiðingar ef fólk tekur að elska land sitt og þjóð svo mjög umfram önnur að því þykir hnötturinn ekki lengur rúma þá alla. En sama má segja um svo margar kenndir. Það vantar nú ekki ástríðuglæpina sem fólk hefur framið í aldanna rás, án þess þó vonandi að menn fari að fagna því að ráði ef ást og kærleikur til annarra minnkar að marki í veröldinni. Það er einfaldlega svo, að svo lengi sem það leiðir ekki til óhæfuverka gagnvart öðru fólki þá er ekkert að því að mönnum þyki vænna um átthaga sína og ættjörð en aðra staði og vilji vinna þeim það gagn sem vit og skynsemi býður.

Í sama viðtali sagði Kolbeinn að fyrir nokkrum árum hefðu orðið mikil uppþot í fjölmiðlum vegna þess að í Hafnarfirði hefði á þjóðhátíð komið fram fjallkona, dökk á hörund. Blöð og útvarp hefðu farið hamförum vegna þessa máls. Nú man Vefþjóðviljinn raunar ekki glöggt eftir sérstakri reiðibylgju vegna þess en jafnvel þó svo hefði verið, þá mætti ímynda sér lítið atriði í því máli sem hefði getað valdið reiði hjá einhverjum. Ávarp fjallkonunnar er skemmtilegur og ágætur siður á þjóðhátíð og vitanlega á ekki að skipta máli hvernig húðin á blessaðri stúlkunni er á litinn. Auðvitað á ekki að velja eða hafna í hlutverk fjallkonunnar eftir húðlit hennar frekar en öðru sem engu skiptir. En getur ekki verið að einhverja þjóðhátíðargesti hafi grunað að það hafi einmitt verið gert? Að fjallkonan hafi verið valin sérstaklega til þess að sýna hversu víðsýn hún væri, þjóðhátíðarnefndin í Hafnarfirði, að fjallkonan hafi ekki verið leidd fram til þess að túlka ást þjóðhátíðargesta til ættjarðar sinnar heldur þjóðhátíðarnefndarmönnum til dýrðar. Slík óánægja hefði verið af allt öðrum toga en ef einhverjir furðumenn geta ekki þolað fjallkonur nema af ákveðnum lit. Þeir sem það geta ekki, glíma sennilega líka við önnur vandamál og stærri en ranga fjallkonu.