Helgarsprokið 11. júní 2006

162. tbl. 10. árg.

Þ að er sennilega sama hvernig á það er litið, í hagsögu Íslands hljóta að koma kaflaskil þegar vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar var kosin frá völdum og fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var mynduð. Sýn þessarar manna á hvert er hlutverk ríkisins var gerólík. Steingrímur sagði blákalt að hann myndi ekki stýra landinu í samræmi við þá hagstjórn sem viðtekin væri á vesturlöndum, á meðan arftaki hans í embætti forsætisráðherra boðaði breytingar í frjálsræðisátt.

„Hver sem fer á netið og skoðar erlendar bílasölur sér strax að það fylgir því mikið álag að vera Íslendingur.“

Eins og gerist og gengur er samt ekki hægt að gera allt í einu. Þó náði fyrsta ríkisstjórn Davíðs að selja Ríkisskip og lækka verulega skatta á fyrirtæki. Eflaust hefðu bankarnir verið einkavæddir strax þá ef Alþýðuflokkurinn undir stjórn Jóns Baldvins Hannibalssonar hefði ekki komið í veg fyrir það. Það tókst þó á næstu kjörtímabilum auk þess sem skattar á fyrirtæki voru lækkaðir enn meira, ríkiseignir voru seldar og einkavæddar, meðal annars Síminn. Það er þó ekki fyrr en nú, eftir næstum fjögur kjörtímabil þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er við völd, að skattar á einstaklinga eru loksins lækkaðir.

Allt er þetta gott og blessað, en frjálslynt fólk má ekki halda að verkefnin séu uppurin. Því miður eru enn þá nokkur verkefni, stór og smá, sem gjarnan má dusta rykið af og koma í framkvæmd. Verkefni sem hverjum þeim, sem kosinn er á þing undir merkjum frelsis og einstaklingsframtaks, ætti að svíða að sjá óunninn eftir einn og hálfan áratug í ríkisstjórn. Þannig eru bæði vaxtabætur og sjómannaafsláttur nátttröll sem eiga ekkert erindi lengur, hafi þau þá átt nokkurt erindi á sínum tíma.

Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur verið rætt um landbúnaðarkerfi lýðveldisins hér í Vefþjóðviljanum og til allrar ólukku hefur verið ástæða til þess arna. Ísland leikur það ömurlega hlutverk að vera í forystu í ofverndunarstefnu, með öllu sínu óhagræði fyrir neytendur auk þess sem það þarf hálfan her að fólki til að halda utan um landbúnaðarkerfið, það er að segja ofurtollana, niðurgreiðslurnar og alla þessa mögnuðu þvælu. Landbúnaðurinn er í dag myllusteinn um háls þjóðarinnar. Þótt ekki væri nema vegna þess að við borðum jú öll mat, þá er mikið unnið þegar þessum hlekkjum er kastað. Ekki síst fyrir bændur, sem mega varla vakna á morgnana án þess að fá tilskilinn stimpil frá yfirvöldum.

Einnig hefur verið bent á, að verndunarstefna Vesturlanda hefur ákaflega slæm áhrif á landbúnað í Afríku, eins og það sé ekki nóg um erfiðleika þar fyrir. Það eitt að fella niður tollamúrana og aðrar takmarkanir á landbúnaðarafurðir gefur að minnsta kosti þessari afrísku atvinnugrein möguleika á að byggja upp fjármagn og atvinnu og fara í frekari fjárfestingar. Það er svo sem á tæru að ein og sér myndi opnun íslenska markaðarins ekki bjarga Afríku, en það væri samt skárra en ekkert. Það yrði einnig hressandi umskipti frá núverandi afstöðu Íslands til þessa málaflokks, sem einkennist af blátt áfram ömurlegri einangrunarhyggju og ofvernd.

Þá er sennilega þjóðráð að fara að ryðja úr vegi öllu því reglugerðafargani sem felast í stimpilgjöldum, vörugjöldum og alls kyns tollum. Hverjum dettur í hug að þarna búi að baki einhverjir sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar? Svo er vitaskuld ekki og eru tollar einmitt sérstaklega búnir til vegna sérhagsmuna fárra.

Bifreiðatollar – hverju nafni sem þeir nefnast – eru þó alveg sérstaklega fráleitir. Hver sem fer á netið og skoðar erlendar bílasölur sér strax að það fylgir því mikið álag að vera Íslendingur. Frakkar, Bretar, Þjóðverjar, Bandaríkjamenn og miklu miklu fleiri til fá verulega góðan afslátt á bifreiðar sínar fyrir það eitt að vera ekki Íslendingar. En um leið og eintak af bifreið kemur inn fyrir landamæri okkar, þykir einhverra hluta vegna allt í lagi að krefja kaupandann um miklu hærra verð. Hvaða skepnuskapur er þetta eiginlega? Og þessi aukagjöld, sem íslenskir bílkaupendur greiða, fara ekki nema að hluta til í vegakerfið þrátt fyrir að fullyrðingar um annað séu algengar.

Fáein dæmi af verðlagi sömu vörunnar, BMW, hér og í Bandaríkjunum, sýna nokkuð vel hvers kyns firra álagning ríkisins er orðin. Við útreikninga á verði í Bandaríkjunum er miðað við gengi dalsins í fyrradag:

  Ísland Bandaríkin Mismunur
BMW X5 4.8is 12.320.000,-  5.203.523,- 7.116.477,-
BMW 530i 5.940.000,- 3.370.042,- 2.569.958,-
BMW 325i 4.490.000,- 2.174.939,- 2.315.061,-

Bílarnir þrír sem Kanarnir Paul, Anne og Margaret í Bandaríkjunum kaupa fyrir samanlagt jafnvirði tæplega 11 milljóna króna, þurfa Íslendingarnir Páll, Anna og Margrét að reiða fram, takk fyrir, kr. 22.750.000,-. Munurinn rétt losar 12 milljónir, sem er sá verðmiði sem síðari hópurinn þarf að greiða fyrir það eitt að vera með íslenskt ríkisfang. Inni í þessum tölum er reyndar álagning bílasalanna og ekki tekið tillit til flutningsgjalda auk þess sem virðisaukaskattur er ekki sá sami hér og í Bandaríkjunum. Þó munar mestu um 45% vörugjald ríkisins, milljónirnar sem Páll, Anna og Margrét þurfa að vinna mánuðum og árum saman fyrir.

Og svo er það blessað áfengið. Það er hreint makalaust að Ísland kýs að fylgja fordæmi Norðmanna og Svía í þessum efnum. Með fullri virðingu fyrir Noregi og Svíþjóð, þá hefur langflestum vestrænum þjóðum, stórum sem smáum, tekist að selja áfengi, án sérstaks ofurálags, í hefðbundnum verslunum án þess að allt fari í háaloft. Það er ekkert sem bendir til þess að landið leggist í eyði þó svo ÁTVR myndi líða undir lok og almennar matvöruverslanir færu að selja vín.

Allt skattkerfið eins og það leggur sig má gjarnan fá upplyftingu, helst í ætt við þær hugmyndir sem gera ráð fyrir að það sé 15% skattur á tekjum einstaklinga, fyrirtækja og virðisauka. Með því væri búið að snúa á vinnuletjandi jaðarskatta, ná hagræðingu með einföldun og afnámi alls kyns undanþága og gera landið eftirsótt fyrir erlend fyrirtæki, sem aftur eykur atvinnu og velmegun.

Jöfnunarsinnar á Alþingi hafa alla tíð haft sérstakan áhuga á því að viðhalda afar sérstökum ójöfnuði í lífeyrissmálum landsmanna, helst með þeim hætti að lögbinda mun betri lífeyriskjör til handa opinberum starfsmönnum en hinum sem vinna hjá einkaaðilum. Skuldbindingar ríkissjóðs eru gríðarlegar af þessum sökum og þeir sem ekki vinna hjá hinu opinbera þurfa í raun að greiða, með sköttunum sínum, fyrir lífeyriskjör þeirra sem þar vinna. Það er óhætt að reikna með að flestir telji þessum fjármunum betur borgið í eigin veski, jafnvel á eigin lífeyrisreikningi.

Ein leiðin til að koma í veg fyrir of miklar lífeyrisskuldbindingar ríkisins er að fara að huga að varanlegri fækkun ríkisstarfsmanna. Það helst að sjálfsögðu í hendur við hlutverk ríkisins og ekki leikur vafi á því að það má ögn minnka umsvifin án þess að öryggi lýðveldisins sé í hættu. Þá er einnig kominn tími á að gera launþegum ljóst, svart á hvítu, hvað sveitarfélögin í landinu, að minnsta kosti flest þeirra, eru afkastasamar eyðsluklær. Þetta er best gert með því að sýna skiptingu skattsins milli ríkis og sveitarfélaga á launaseðlum landsmanna. Og þó svo að sveitarfélögin stæðu sig vel væri ágætt að sýna þessa skiptingu. Hvers vegna ættu menn ekki vilja vita hvert skattfé þeirra fer?

Í vetur komst Alþingi að því að það væri slæm hugmynd að ræða hugmyndir um fáeinar breytingar á heilbrigðiskerfinu, meðal annars þá að efnafólk gæti borgað sig fram fyrir biðraðir. Nær allar hugmyndir sem snúa að því að tengja heilbrigðiskerfið við markaðslögmál í einhverri mynd eru skotnar niður samstundis. Á meðan ríkir verðbólga í heilbrigðisráðuneytinu sem er ekki í neinum tengslum við verðlagsþróun í landinu, kerfið þenst svo gott sem stjórnlaust út. Samt eru flestir sammála um að það er ekki nauðsynlega lausnin að henda endalaust peningum í kerfið. Í raun er augljóst að það er ekki lausnin. Sjaldan hefur getuleysi þingmanna komið jafn vel fram og í þessu biðraðamáli. Það er orðið sérstakt rannsóknarefni hvers vegna þingmenn eru svona hræddir við að að boða breytingar í heilbrigðiskerfinu. Það væri þó í það minnsta hægt að fara í sömu breytingar og sænskir jafnaðarmenn – sem hingað til hafa verið í hálfguðatölu meðal vinstrisinna hérlendis – gerðu á sínu heilbrigðiskerfi í markaðsátt.

Í skemmstu máli hlýtur það að vera sérstakt markmið frjálslynds fólks allra flokka að haga málum þannig, að einstaklingar þurfi ekki að eyða tíma, fé og fyrirhöfn umfram brýnustu nauðsyn, hvort sem það er vegna reglugerðarfargans, of hárra skatta, tollamúra og vísvitandi markaðsbrenglunar á borð við niðurgreiðslur og þess háttar. Skattkerfið ætti að vera einfalt og það getur tæpast verið markmið í sjálfu sér að gera þjóðina að hálfgerðum þrælum vegna skattheimtufrekju. Það er varla æskilegt að fólk þurfi doktorspróf til að skilja til hálfs reglugerðarfrumskóginn sem gildir um alla skapaða hluti. Frjálslynt fólk má að ósekju fara að gefa því betri gaum að enn þá er óunnið margt, sem er bæði landi og þjóð til trafala.