A llt hefur gengið á sama veg hjá vesalings Halldóri Ásgrímssyni undanfarna daga. Meira að segja miðstjórnarfundurinn þar sem Halldór var aðalnúmerið var svo klókindalega skipulagður að bein útsending af ræðu Halldórs hófst á sama tíma og bein útsending opnunarleiks heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu, sem var í ólæstri dagskrá á Sýn. Þeir sem ná útsendingum Sýnar horfðu því á leikinn. Hinir horfðu á leikaraskapinn hjá þeim sem ekki hafa sýn.
Svona hefur þetta allt verið. Halldór hugleiðir afsögn í sérstökum tilgangi: að láta á það reyna hvort Framsóknarflokkurinn geti náð fyrri styrk undir forystu harðjaxlsins Finns Ingólfssonar. Þeirri aðgerð lýkur svo með því að Finnur kemur ekki – en Halldór hættir. Innan fárra daga mun formaður Framsóknarflokksins vakna upp í þeirri stöðu að flokkur hans er í ríkisstjórnarsamstarfi – en flokksformaðurinn er ekki lengur í ríkisstjórn. Og Finnur Ingólfsson, sá sem málið gekk nú út á að sækja, hann er jafn mikið utan stjórnar og Halldór. Frá bæjardyrum Finns hefur ekkert komið úr þessu öllu nema nokkrar skrípamyndir í blöðunum. Það er hreinlega óskiljanlegt að Halldór hafi ekki lagt afsagnarhugmyndirnar frá sér þegar honum varð ljóst að Guðni myndi ekki standa við sitt.
Nei nei, Halldór gleymir að hætta við að hætta, situr sem flokksformaður utan ríkisstjórnar, yfirspilaður af Guðna Ágústssyni.
E n ríkisstjórnarmeirihlutinn verður að vissu leyti tryggari við stjórnarskiptin. Stjórnarþingmönnum fjölgar um einn þegar Jónína Bjartmarz verður ráðherra.