Mánudagur 12. júní 2006

163. tbl. 10. árg.

H ið vandaða blað, Fréttablaðið, birtir á forsíðu sinni í dag merkilega mynd sem tekin var í gær á handboltaleik Íslendinga og Svía. Á myndinni má meðal annarra sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og Gunnar Einarsson bæjarstjóra í Garðabæ fagna sigri Íslendinga. Um þau segir í myndatexta Fréttablaðsins: “Þau studdu vel við bakið á íslenska liðinu en til hægri við Þorgerði má sjá Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar.” Eins og sést á myndinni þá fagnar “Persson” sigri Íslendinga ákaft og gleður það eflaust ekki sænska áhorfendur, ekki frekar en sú staðreynd að við hlið “Perssons” er Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, eiginkona Júlíusar Hafsteins sendiherra…

Það er merkilegt að forsætisráðherra Svía fagni tapi landa sinna svo ákaflega og sé auk þess á vellinum með konu Júlíusar. Von að Fréttablaðið slái því upp á forsíðu.

M enn hafa mikið getað gasprað í tilefni breytinga í ríkisstjórn. Í gærkvöldi töluðu fréttamenn við Árna Finnsson hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands, sem var ósáttur við að Sjálfstæðisflokkurinn hygðist láta umhverfisráðuneytið af hendi og væri það til marks um að flokkurinn hefði ekki mikinn áhuga á umhverfismálum. Einnig sýndu þessi skipti að umhverfisráðuneytið væri í huga stjórnmálamanna aðeins ómerkileg skiptimynt en ekki venjulegt ráðuneyti.

Það er hins vegar önnur leið til að líta á þetta mál, ef einhver vill. Ef það er rétt hjá Árna að það sýni áhugaleysi á málaflokknum að láta umhverfisráðuneytið af hendi, má þá ekki alveg eins segja að það sýni áhugaleysi á utanríkismálum að fela Framsóknarflokknum að sjá um það? Og hver heldur að Sjálfstæðisflokkurinn sé áhugalaus um utanríkismál? Og svo mega menn ekki gleyma því að það er ekki aðeins svo að umhverfisráðuneytið sé látið af hendi; það er líka tekið við umhverfisráðuneytinu. Þegar Framsóknarflokkurinn krafðist þess að fá forsætisráðuneytið í sínar hendur, þá fór Sjálfstæðisflokkurinn fram á að fá umhverfisráðuneytið og utanríkisráðuneytið í staðinn. Flokkurinn hefði vitaskuld getað krafist einhverra annarra ráðuneyta Framsóknarflokksins, en bað um þessi. Þegar Framsóknarflokkurinn afhendir Sjálfstæðisflokknum svo forsætisráðuneytið að nýju, þá gerir hann kröfu um sömu tvö ráðuneyti.

Þetta eru greinilega aðal ráðuneytin! Að minnsta kosti má alveg eins líta svo á, eins og segja að umhverfisráðuneytið sé tóm skiptimynt.

Það er svo annað mál, að helber óþarfi var að stofna umhverfisráðuneytið á sínum tíma og hæglega mætti fela öðrum ráðuneytum verkefni þess. Niðurlagning umhverfisráðuneytisins er eitt af því sem liggur í augum uppi þegar stjórnarráð Íslands verður endurskoðað.

S teingrímur J. Sigfússon segir að greinilegt sé að stjórnarflokkarnir hyggist starfa saman eftir næstu kosningar, og er hinn versti yfir því. Sjálfur hefur Steingrímur talað eindregið fyrir því að stjórnarandstöðuflokkarnir starfi saman eftir næstu kosningar. Ætli nokkurn tíma renni upp sá dagur að vinstrigrænir átta sig á því að þeir geta ekki endalaust talað og talað gegn samstarfi við suma flokka en orðið svo hissa á því ef sömu flokkar reyna þá að tala við þá fáu sem vilja tala við þá.