Laugardagur 27. maí 2006

147. tbl. 10. árg.

F yrir síðustu borgarstjórnarkosningar reyndi R-listinn að slá á gagnrýni vegna aðgerðaleysis í málefnum eldriborgara með því að gera sérstakt samkomulag við Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þáverandi fjármálaráðherra Geir H. Haarde hafði ekkert fengið að vita fyrirfram þrátt fyrir að efndir samkomulagsins – ef þær hefðu nokkru sinni staðið til – hefðu kostað gríðarlegt fé úr ríkissjóði. Geir benti á það að engin heimild væri fyrir þessu samkomulagi og greinilega enginn hugur að baki annar en sá að hafa áhrif á kosningar. Svo furðulegt sem það er, þá brast á mikil reiði í garð Geirs og Sjálfstæðisflokksins en ekki þeirra sem höfðu sviðsett „samkomulag“ um opinberar aðgerðir. Og sanngirnin er slík, að í sjónvarpskappræðum oddvitanna í gærkvöldi þá vísaði Ólafur F. Magnússon, hinn óvenjutrúverðugi frambjóðandi, sérstaklega í þetta „samkomulag“ sem „stjórnarflokkarnir“ hefðu gert við „R-listaflokkana“ en allir hefðu svikið og hefðu Frjálslyndir því einir flokka hreinan skjöld. Og enginn viðstaddra sá ástæðu til að andmæla, fréttamennirnir létu gott heita. Í einum kosningum er Sjálfstæðisflokkurinn skammaður af æsingi fyrir að gera ekki samkomulag um hjúkrunarheimili. Fjórum árum síðar er sami flokkur hundskammaður fyrir að „svíkja“ sama samkomulag.

Og skrautfjaðrir íslenskra fjölmiðlamanna sitja athugasemdalaust undir þessu.

Skoðanakannanir benda nú til að vinstrigrænir muni ná góðri fótfestu í sveitarstjórnum víða um land, ekki síst í sjálfri höfuðborginni þar sem það gæti jafnvel orðið helsta spennuatriðið á kosninganótt hvort þriðji maður VG eða áttundi maður Sjálfstæðisflokksins nær kjöri. VG býður fram sjálfstætt framboð í 13 sveitarfélögnum en þau voru aðeins 8 síðast og eykur fylgi sitt að öllum líkindum verulega víðast hvar. Miðað við ástand efnahagsmála kemur þessi uppsveifla VG nokkuð á óvart því flokkurinn virðist í fljótu bragði nærast á óánægju með það sem aflaga fer. Andstæðingar hans segja vinstrigræna á móti öllu. Forystumenn VG virðast líka hafa þann starfa helstan að lýsa því á kjarnyrtan hátt hvernig eymd, volæði og náttúruspjöll marka nútímann. En þetta er kannski ekki alveg svo einfalt. Flokkur sem nefnir sig grænan – og vísar þá líklega í gróður jarðar fremur en jaxlinn – og auglýsir frambjóðendur sína við undirleik lóu og spóa vill augljóslega höfða mjög sterkt til áhuga manna á náttúruvernd og umhverfismálum.

Áhugi á umhverfisvernd hefur vaxið mjög á undanförnum árum. Með bættum hag og auknum frítíma geta sífellt fleiri eytt tíma og fé í að njóta náttúrunnar. Bílar til fjallaferða seljast sem aldrei fyrr þótt flestum sé að mestu ekið innan bæjar. Fyrirtæki sem bjóða hvers kyns útivistarþjónustu, gönguferðir, veiði, siglingar, hjólaferðir, klifur og köfun hafa sprottið upp og útivistarfatnaður er auglýstur sem aldrei fyrr. Tímarit sem fjalla eingöngu um útivist og náttúruskoðun eru byrjuð að koma út. Sumarbústaðir rísa vítt og breitt um landið. Einstaklingar kaupa jarðir í stórum stíl og leggja af búskap. Jafnvel lífrænt ræktaðar matvörur virðast vera að festa sig í sessi en þær eru jafnan mun dýrari en annar matur. Menn leggja jafnvel nokkra rándýra fermetra í íbúðum sínum undir flokkað sorp, blöð og dósir, þótt umdeilt sé hve miklum ávinningi fyrir umhverfið endurvinnslusportið skilar.

Flokki, sem höfðar fyrst og síðast til áhuga manna á umhverfisvernd, er því afar mikilvægt að hagur manna vænkist. Í kreppu og atvinnuþrefi minnkar áhugi manna og geta til að stunda umhverfisvernd og náttúruskoðun. Í atvinnuleysi er ekki við því að búast að menn hafi samúð með sjónarmiðum gegn virkjunum og iðnverum. Þess vegna er það engum flokki jafnmikilvægt og vinstrigrænum að skattar séu lágir, skilyrði til atvinnurekstrar hagstæð og hagvöxtur góður.

Það gæti því verið helsta skýringin á því hve flokknum vegnar vel í skoðanakönnunum um þessar mundir að allar breytingarnar á efnahagslífinu sem hann hefur barist gegn á undanförnum árum, einkavæðing, skattalækkanir og aukið viðskiptafrelsi, hafa skilað sér í aukinni velmegun.

Velmegunin er orðin svo mikil að menn telja sig jafnvel hafa efni á að kjósa vinstrigræna.