Föstudagur 26. maí 2006

146. tbl. 10. árg.

Þ að er ekki oft sem mikil hugsun virðist á bak við það sem Össur Skarphéðinsson segir og skrifar. Þó hefur orðið á því svolítil breyting síðustu daga. Fyrst tókst honum með ósanngjarnri stóryrða grein að plata forystumenn vinstrigrænna til gefa yfirlýsingar sem ekki urðu til neins annars en að skerða eigin samningsstöðu og samstarfsmöguleika við aðra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur. Næst tók Össur upp á því að básúna um allt að hugsanlegt slæmt gengi Framsóknarflokksins í komandi kosningum verði til þess að Halldór Ásgrímsson sé „umboðslaus“ sem forsætisráðherra. Þessari kenningu er Össur hins vegar ekki að beina að Halldóri og Framsóknarflokknum í raun. Hann er að beina henni að öðrum forystumanni í landsmálum, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur núverandi formanni Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún felldi svila sinn Össur úr formennsku Samfylkingarinnar með þeim rökum að hún aflaði fleiri atkvæða en hann. Össur Skarphéðinsson vill nú endilega koma þeim skilningi inn hjá sem flestum að dauft gengi flokks í sveitarstjórnarmálum sé í raun langt nef til og að minnsta kosti gult spjald á formann hans.

Nú og svo geta svona yfirlýsingar auðvitað hjálpað til að taka framsóknarmenn á taugum. Þeir eru voða gjarnir á að fara á þeim.

Þó er það svo, að dauft gengi Framsóknarflokksins er í raun líklegt til að hjálpa flokknum í næstu alþingiskosningum, því vel má gera því skóna að margir kjósendur muni eftir kosningarnar á morgun telja flokknum fullrefsað að sinni.

Vinstrimenn munu hins vegar eflaust margir kjósa Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, í þeirri von að áberandi betra gengi Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokksins verði til þess að Framsóknarmenn ókyrrist að mun. Nú og einhverjir vinstrimenn munu vafalaust hugsa með sér að verði borgarstjóri í Reykjavík úr Sjálfstæðisflokknum, þá minnki líkurnar á góðu gengi flokksins í komandi alþingiskosningum. Svona getur margt verið skrýtið í kýrhausnum.

Sem skýrir af hverju Guðni Ágústsson hefur oft meira pólitískt raunveruleikaskyn en aðrir. Enginn maður þekkir kýrhausinn betur.