Fimmtudagur 25. maí 2006

145. tbl. 10. árg.

Fjölmiðlar hafa mjög gengið á eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra á Akureyri og krafið hann svara um framtíðaráform sín. Engin yfirlýsing hefur þótt nægileg til að taka örugglega af öll tvímæli um að hann hyggist ekki bjóða sig fram til þings á næsta ári. Og alltaf urðu svör hans afdráttarlausari um málið.

Gott og vel, ekkert að því að menn leggi upp úr því að fá að vita um fyrirætlanir oddvitaefnanna. En það er svolítið skemmtilegt að sömu fjölmiðlar og þráspyrja bæjarstjórann á Akureyri um hugsanlegt þingframboð hans, hafa engan áhuga á því að spyrja til dæmis Lúðvík Geirsson, bæjarstjóra í Hafnarfirði, slíkra spurninga.

En kannski hafa fjölmiðlar fengið sig fullsadda á að spyrja forystumenn Samfylkingarinnar slíkra spurninga; og væri ekki undarlegt ef horft er til viðhorfanna þar á bæ til efnda slíkra yfirlýsinga. Reynslan af því er nefnilega ekki björguleg. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar lýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir því hátíðlega yfir að ef R-listinn næði meirihluta þá yrði hún sjálf borgarstjóri næstu fjögur árin nema hún „hrykki upp af“. Hún myndi ekki fara í þingframboð og ekki yfirgefa borgarstjórastólinn. Hálfu ári eftir kosningar skrifaði Dagur B. Eggertsson í blöðin og sagði að trúverðugleiki Ingibjargar Sólrúnar ylti á því að hún stæði við þessa yfirlýsingu. Skömmu síðar fór Ingibjörg í þingframboð og á kjörtímabilinu hafa nú setið þrír borgarstjórar og sá sem nú situr er ekki borgarstjóraefni eigin flokks, heldur annar maður sem ekki varð borgarstjóri síðast því samstarfsflokkarnir gátu ekki hugsað sér það. En þessi sami Dagur og fáum vikum áður hafði talið það lykilatriði um trúverðugleika Ingibjargar að hún sæti kyrr í starfi sínu, hann reyndist svo ekkert sjá að því þegar hún gekk á bak orða sinna. Og annar frambjóðandi Samfylkingarinnar, Einar Kárason að nafni, skrifaði sérstaklega í blöðin að Ingibjörg þyrfti hreint ekki að standa við loforð sitt, því það hefðu bara verið einhverjir sjálfstæðismenn sem hefðu spurt. Fólkið sem hefði kosið R-listann vegna loforðs Ingibjargar, það gat bara átt sig.

Svo kannski átta fréttamenn sig bara á því að það er ekki til neins að spyrja frambjóðendur Samfylkingarinnar um þessi mál.