Helgarsprokið 28. maí 2006

148. tbl. 10. árg.

Þ á er dagur að kveldi kominn, varð ýmsum á orði þegar þeir sáu fyrstu tölur úr kosningunum í Reykjavík í gær. Dagur Bergþóruson Eggertsson, vonarstjarna Samfylkingarinnar, frambjóðandi sjálfs formannsins Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fékk slæman skell og verstu kosningu sem Samfylkingin hefur fengið í Reykjavík til þessa, eins og Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálaskýrandi kosningavöku Ríkissjónvarpsins benti á. Þar miðaði Ólafur við tvennar síðustu þingkosningar, en sama niðurstaða fæst þegar úrslitin fyrir R-listaflokkana eru borin saman við fylgi R-listans fyrir fjórum árum.

„En um leið og Sjálfstæðis-flokkurinn bætir stöðu sína í 10 af 15 stærstu sveitarfélögunum þá eykur Samfylkingin fylgi sitt aðeins í 4 af þessum 15 sveitarfélögum.“

Ólafur benti á annað þessa nótt, en það er sú staðreynd að talið um tvo turna í íslenskri pólitík á ekki við rök að styðjast. Samfylkingin getur ekki lengur haldið því fram að hún sé flokkur sambærilegur að stærð við Sjálfstæðisflokkinn og tilraun forystumanna hennar til að reyna að fá vinstri menn annarra flokka til að kjósa Samfylkinguna sem eina mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn misheppnaðist. Þetta eru hin stóru tíðindi næturinnar. Þeim vinstri mönnum sem tóku sig saman og mynduðu Samfylkinguna til fella Sjálfstæðisflokkinn úr sessi sem kjölfestu íslenskra stjórnmála hefur ekki orðið að ósk sinni. Þess í stað lifir fjórflokkakerfið svokallaða góðu lífi, ásamt litlum furðuflokki sem gera verður ráð fyrir að verði ekki langlífur.

Framsóknarmenn hafa verið spurðir að því hvernig staða Halldórs Ásgrímssonar formanns flokksins verði eftir þessar kosningar, en eins og Jakob Hrafnsson formaður ungra framsóknarmanna benti á í nótt væri ekki síður ástæða til að spyrja um stöðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem formanns Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún fór gegn formanni flokksins, Össuri Skarphéðinssyni, með þeim rökum að hún gæti aflað flokknum meira fylgis en hann gerði. Ekkert bendir hins vegar til að atlagan að formanninum hafi verið réttmæt. Staða flokksins samkvæmt skoðanakönnunum á landsvísu hefur versnað eftir að Ingibjörg tók við og þessar kosningar eru lítið annað en útreið fyrir flokkinn, sérstaklega þegar litið er til þess að hann er í stjórnarandstöðu á landsvísu og hefur verið lengi, sem hefur almennt hjálpað flokkum í sveitarstjórnarkosningum rétt eins og ríkisstjórnarþátttaka hefur almennt skilað flokkum verra fylgi en ella í sveitarstjórnarkosningum.

Fimmtán stærstu sveitarfélög landsins eru Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Akureyri, Reykjanesbær, Garðabær, Mosfellsbær, Árborg, Akranes, Seltjarnarnes, Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Skagafjörður, Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð. Þessi sveitarfélög eru með um eða yfir 4.000 íbúa, næsta sveitarfélag er með vel innan við 3.000 íbúa, og í þessum 15 sveitarfélögum búa rúmlega 82% landsmanna. Þegar litið er til þessara 15 stærstu sveitarfélaga landsins má sjá að Samfylkingin kemur illa út úr kosningum gærdagsins. Sá flokkur sem hún hefur viljað mæla sig við, Sjálfstæðisflokkurinn, kom hins vegar vel út úr kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt í 10 af þessum 15 sveitarfélögum og sums staðar umtalsvert. Flokkurinn vinnur til að mynda sinn stærsta sigur frá upphafi á Seltjarnarnesi, 67,2% og 5 menn af 7, undir forystu Jónmundar Guðmarssonar bæjarstjóra.

En um leið og Sjálfstæðisflokkurinn bætir stöðu sína í 10 af 15 stærstu sveitarfélögunum þá eykur Samfylkingin fylgi sitt aðeins í 4 sveitarfélögum af 15. Hægt er að segja að Samfylkingin tapi fylgi í öllum eða nær öllum hinna sveitarfélaganna, en í einstaka sveitarfélagi er að vísu ekki einfalt að leggja mat á þetta því að Samfylkingin treystir sér ekki til að bjóða fram eigin lista nema í 8 af þessum 15 sveitarfélögum en er annars staðar í samkrulli með öðrum litlum flokkum. Þetta er reyndar annað sem segir talsvert bæði um stærð Samfylkingarinnar og fjölda áhugasamra flokksmanna. Vissulega er rétt sem samfylkingarmenn nefna helst í viðtölum nú að þeim gekk vel í Hafnarfirði og á Akureyri, en það eru nánast einu dæmin um gott gengi flokksins í stærstu sveitarfélögum landsins. Flokkurinn leiddi til að mynda sameiginlegt framboð í Garðabæ og á Reykjanesi auk þess að eiga aðild að framboði vinstri manna á Seltjarnarnesi, en á öllum þessum stöðum fór framboð Samfylkingarinnar illa út úr gærdeginum. Og sömu sögu er að segja um Vestmannaeyjabæ þar sem að þingmaður Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, leiddi flokkinn til fylgistaps en Sjálfstæðisflokkurinn náði hreinum meirihluta.

Hins vegar hefði mátt ætla að síðdegis í gær hefðu fornleifafræðingar grafið niður á hauskúpu Egils Skalla-Grímssonar einhvers staðar í miðri Hellisgerði, eða að einhver önnur tíðindi og ekki ómerkari hefðu orðið þar í grennd. Síðustu nótt leið varla svo mínúta að Hafnarfjörður væri ekki nefndur sem sérstakt teikn og stórmerki. Þá var skýringin sú að þar hafði Samfylkingunni gengið vel. Hún hafði haldið meirihluta sínum í bænum og það vel. Fylgi hennar í Hafnarfirði var að vísu minna en fylgi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, Keflavík, Seltjarnarnesi og Garðabæ, svo nokkrir staðir séu nefndir, – og ýmsa aðra staði mætti nefna þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins er töluvert meira en Samfylkingarinnar í Hafnarfirði – en það er engin ástæða til að gera lítið úr öruggum sigri Lúðvíks Geirssonar og félaga hans í Firðinum. En ákafi fréttamanna, og auðvitað forystumanna Samfylkingarinnar, til að láta eins og með endurkjöri Lúðvíks hafi almennar hrakfarir Samfylkingarinnar gufað upp, er meira en broslegur.