Það er eftir öðru í umræðu í íslenskum fjölmiðlum að þá fyrst hafi orðið lítilsháttar umræður um kostnað hins opinbera af byggingu tónlistarhúss þegar færi gafst á að ræða formhlið málsins. Ríkisendurskoðun láðist að kynna sér fjáraukalög áður en hún opinberaði gagnrýni á ráðherra fyrir heimildarlaus útgjöld og hefur dregið gagnrýni sína til baka. Hvorugt þessara atriði er hins vegar meginatriðið þegar kemur að byggingu tónlistarhúss fyrir skattfé. Meginatriði er ekki hvort ráðherrar höfðu heimild Alþingis til að undirrita samninga – þó að það skipti vissulega máli – og þaðan af síður skiptir máli í þessu sambandi að Ríkisendurskoðun er ekki áreiðanlegri en raun ber vitni. Og það skiptir svo sem ekki heldur meginmáli þótt á vef Austurhafnar, „einkahlutafélags“ um byggingu hússins sem ríkið á 54% í og Reykjavíkurborg 46%, segi:
Ákvörðun var tekin árið 2000 um að reisa tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð (TR) við Austurhöfnina í Reykjavík. Alþjóðleg hugmyndasamkeppni var haldin árið 2001 um skipulag svæðisins og í framhaldinu var unnið rammaskipulag sem kynnt var árið 2004. Það var jafnframt leiðbeinandi fyrir samningskaupaferli um einkaframkvæmd, sem hófst í kjölfarið og leiddi til þess að tilboð Portus-hópsins var valið hagkvæmast þegar niðurstaða matsvinnu var tilkynnt í september 2005. |
Fjölmiðlar, að minnsta kosti þeir sem ekki sofa værum svefni, gætu svo sem spurt að því hver hafi tekið ákvörðun árið 2000 og hvaða heimild viðkomandi hafði þá. Þeir gætu líka spurt að því hver hafi heimilað hugmyndasamkeppni, rammaskipulag, samningskaupaferli um einkaframkvæmd, og svo framvegis. Allt er þetta út af fyrir sig umhugsunarvert og rannsóknarefni fyrir fjölmiðla sem hafa augun opin annað slagið.
Meginatriðið þegar kemur að byggingu tónlistarhúss fyrir fjármuni almennings er hins vegar að með ákvörðun um byggingu þess eru stjórnmálamenn að neyða alla skattgreiðendur til að láta af hendi fjármuni til að nota í áhugamál tiltölulega fámenns hóps. Stjórnmálamenn taka að sér að ákveða að eitt áhugamál sé mun mikilvægara en önnur og að þeir sem stundi það skuli njóta styrks frá hinum hvort sem þeim líkar betur eða verr.
Annað stórt atriði þegar kemur að byggingu þessa tiltekna tónlistarhúss er að það er miklum mun dýrara en það hefði þurft að vera vegna þess að frekja þeirra sem knúið hafa málið áfram hefur verið yfirgengileg. Þeim hefur ekki nægt að seilast í vasa almennings og láta reisa yfir sig hús fyrir tvo, þrjá eða fjóra milljarða, þó að fyrstu áætlanir hafi sýnt að þetta hefði vel verið mögulegt ef þessi hópur hefði sætt sig við hús sem væri ekki allt of stórt og að auki risavaxið listaverk í sjálfu sér. En það mátti ekki fara hóflegu leiðina – ef hægt er að tala um hóf þegar nokkrir milljarðar í svona verkefni eru annars vegar – heldur varð að fara hyldjúpt í vasa almennings og búa til risavaxna höll sem kostar hátt á annan tug milljarða króna og hæfir engan veginn íbúafjölda landsins.
Hvernig væri nú að fjölmiðlar skoðuðu þessi atriði og veltu því upp hvort að ekki væri möguleiki annað hvort að hætta við byggingu hússins eða að minnka hana niður í þá stærð sem hæfir íbúafjöldanum og spara þannig marga milljarða króna?