S
Hvað ætli samfylkingarmenn á þingi segðu ef ráðherrar nýttu almannafé með svipuðum hætti og Steinunn Valdís gerir skömmu fyrir kosningar? |
teinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri Samfylkingarinnar er ekki feimin við að nota annarra manna fé til að greiða kosningabaráttu sína. Steinunn Valdís notaði auglýsingafé borgarinnar, það er að segja skattgreiðenda í Reykjavík, óspart í prófkjöri sínu í fyrra eins og áður hefur verið bent á. Þá var baráttan við innanflokksmenn, þá Stefán Jón Hafstein og Dag Bergþóruson Eggertsson. Nú keppir Steinunn Valdís við frambjóðendur í öðrum flokkum og þá hefur hún sama háttinn á og auglýsir sig – og þar með Samfylkinguna – á kostnað skattgreiðenda í Reykjavík.
Í fyrradag birtist allstór auglýsing í Fréttablaðinu um að hægt væri að panta viðtal við borgarstjóra sem yrði til viðtals í þjónustumiðstöð í Vesturbænum á tilteknum tíma. Í gær birtist svo önnur auglýsing á sama stað, enn stærri, þar sem boðið var upp á viðtal við borgarstjóra í þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Ef borgarstjóri býður upp á viðtöl í öllum þjónustumiðstöðvum borgarinnar geta auglýsingar þessar orðið sex.
Þessar auglýsingar eru svo sem ekki þær fyrstu sem núverandi borgarstjóri leggur í á stuttum embættisferli sínum. Flestir minnast vafalaust mikillar auglýsingaherferðar borgarinnar, sem meðal annars skartaði myndum af borgarstjóra, þar sem nýtt símanúmer borgarinnar var kynnt. Fyrir þá sem ekki muna og eiga brýnt erindi við borgina er símanúmerið 4 11 11 11 og var kynnt þannig að í þetta númer skyldu menn hringja sama hvaða erindi þeir ættu við borgina. Þetta einssímanúmerskerfi hefur þó ekki virkað betur en svo að í nýju auglýsingaherferðinni er boðið upp á einhver allt önnur númer. Gefur það borgarstjóra óvænt tækifæri til að hefja nýja auglýsingaherferð vegna nýju símanúmeranna. Hvernig væri til dæmis að nýta dagana 20. til 27. þessa mánaðar, það er að segja vikuna fram að kjördegi, til að koma þessum nýju símanúmerum á framfæri við borgarbúa?
Þegar rætt er um óhófleg og óeðlileg útgjöld Reykjavíkurborgar er ekki úr vegi að velta fyrir sér óhóflegum og óeðlilegum sköttum borgarinnar. Menn geta til dæmis velt því fyrir sér hvers vegna borgin skattleggur hundaeigendur um 15.400 krónur þegar þeir skrá hund og svo um sömu upphæð á hverju einasta ári á meðan hundurinn tórir. Þetta gera 1.283 krónur á mánuði og þá er ástæða til að spyrja hvernig borgarstjóri réttlætir það að taka 1.283 krónur á mánuði af hundaeigendum í borginni. Það er að vísu dýrt að auglýsa borgarstjóra svo vel sé bæði fyrir prófkjör og kosningar, en er þetta samt ekki nokkuð langt gengið í skattheimtunni? Hundaeigendur ættu kannski að panta viðtal og spyrja. Síminn er … ja, það verður auglýst síðar.