Fimmtudagur 4. maí 2006

124. tbl. 10. árg.

N

Dieseltrukkur ber miklu lægra vörugjald en lítill sparneytinn bensínbíllinn. Alþingi vill einnig að eldsneytið á trukkinn beri lægri skatt en eldsneytið á sparneytna bensínbílinn.

ú liggur fyrir að Alþingi mun framlengja lækkun á olíugjaldi til næsta áramóta en lækkunin hefði að óbreyttu runnið út á miðju ári. Lækkunin nemur 5 krónum með virðisaukaskatti. Þetta virðast allir stjórnmálaflokkarnir vilja, jafnvel græningjar sem marka sér þá ákveðna sérstöðu í veröldinni sem slíkir. Þessi lækkun kemur þó aðeins hluta bíleigenda til góða því hún nær aðeins til Dieselolíu en ekki bensíns. Það er einkennilegt að mismuna bíleigendum með þessum hætti. Mismununin er gerð í nafni umhverfisins því Dieselbílar nýta eldsneytið betur en bensínbílar og gefa því frá sér heldur minna af svonefndum gróðurhúsalofttegundum. Frá Dieselbílum kemur hins vegar meira sót en frá bensínbílum svo það er ekki sama hvaða mælistiku menn nota á það hversu umhverfisvænn bíll er.

Það blasir jafnframt við að með þessari mismunun er hjónum sem samnýta sparneytinn bensínbíl gert að greiða hærri skatta af eldsneyti en maður sem ekur einn um á þriggja tonna Dieselolíuháki. Útblástur gróðurhúsalofttegunda á hvern farþegakílómetra eru auðvitað miklu lægri hjá hjónunum á bensínbílnum en manninum á Dieseltrukknum. En maðurinn á Dieseltrukknum er verðlaunaður í nafni umhverfisins með sérstökum skattaafslætti af eldsneytinu sem hann notar. Þar við bærist svo að ef Dieselhákurinn er pallbíll eru einnig greidd af honum 13% vörugjöld í stað 30% sem lítill bensínbíll ber.

Hvað hafa eigendur sparneytinna bensínbíla gert á hlut fjármálaráðherra og Alþingis?

Það hlýtur að vera á mörkunum að svo ómálefnaleg skattaleg mismunun standist. Menn hafa að minnsta kosti látið reyna á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar af minna tilefni.