Föstudagur 28. apríl 2006

118. tbl. 10. árg.

Það kom berlega í ljós í umræðum forystumanna framboðanna fimm í Reykjavík í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær að þeir hafa ekki hugmynd um hvernig þeir ætla að fjármagna kosningaloforðin um „gjaldfrjálsan leikskóla“, tónlistarhús, „frítt í strætó“, aukna styrki til tómstundastarfs, flugvöll á hafi úti, „stórátak í málefnum eldri borgara“ og hvað þetta heitir nú allt saman. Þarna sátu fulltrúar R-listaflokkanna sem hækkað hafa tekjuskatt á borgarbúa með hækkun útsvars. Þrátt fyrir hærri skatta hafa þeir engu að síður aukið hafa skuldir borgarinnar. Þarna sátu þeir og bunuðu út úr sér útgjaldatillögunum.

Sveitastjórnarmál eru orðin alger heimavöllur vinstrimanna þar sem keppt er í eyðslu og því sem henni fylgir óhjákvæmilega, skattahækkunum. Svo rammt kveður að þessu að ríkið setti sveitarfélögunum lög um hámarksútsvar sem þau mega leggja á íbúa sína. Hámarkið var haft rúmt svo allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi. Ekki þurfti að spyrja að leikslokum, flest sveitarfélögin brunuðu beint upp í hámarkið. Þar eru nær öll þau stærstu að Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Reykjanesbæ frátöldum.

Seltjarnarnes og nokkrir mjög fámennir hreppar eru einu sveitarfélögin sem lækkað hafa útsvarið á síðustu árum. Það er umhugsunarefni fyrir þá sem vilja stækka sveitarfélög með sameiningu í „hagræðingarskyni“. Sveitarfélögin almennt, ekki síst þau stóru á höfuðborgarsvæðinu, hafa þó notið mjög aukinna tekna vegna hagvaxtar og hærri launa í þjóðfélaginu. Þau hefðu því átt að hafa svigrúm til skattalækkana. En eyðsluhvötin er svo sterk að öllu sem inn kemur er umsvifalaust eytt og meiru til.

Reykjavíkurborg fór á kjörtímabilinu upp í hámarksútsvarið í fyrsta sinn. Útsvarið hefur hækkað úr 11,99% í 13,03% frá árinu 2000. Þótt hækkunin nemi aðeins rúmu einu prósentustigi er hún engu að síður 8,7% hækkun á þessum skatti til borgarinnar. Þessi hækkun þýðir að borgin hefur hnuplað hluta af tekjuskattslækkun ríkisins.