Fimmtudagur 27. apríl 2006

117. tbl. 10. árg.
Þótt bíll sé af svonefndri tvinngerð þýðir það ekki endilega að hann sé betri fyrir umhverfið eða minnki þörfina fyrir innflutta olíu meira en hefðbundinn bíll. Þetta er allt háð því hvaða tegund af tvinnbíl og venjulegum bíl menn eru að bera saman og auk þess skiptir máli hvernig bíllinn er notaður. Það eru til bæði góðir og slæmir blendingar. Sparneytnir venjulegir bílar eru oft betri í þessu tilliti en tvinnsportjeppar eins og einfaldlega sjá má á uppgefinni eldsneytisnotkun bíla.

Um árabil hafa margir stærstu bílaframleiðendur heims forðast að smíða tvinnbíla því þótt þeir séu tæknilega forvitnilegir eru þeir jafnframt mjög frumstæð verkfræðileg lausn. Með því að nota tvo orkugjafa þyngist bíllinn, tæknin verður flóknari og bíllinn dýrari (allt að $6.000). Rafgeymirinn í tvinnbíl tekur pláss frá farþegum og farangri og þótt endurnýta megi geymana þegar dagar bílsins eru taldir er ekki víst að hægt sé að treysta öllum til að standa skil á þeim. Rafgeymir úr tvinnbíl, sem vegur yfir 50 kg, er hættulegur umhverfinu endi hann ekki í endurvinnslu.

– Jamie Lincoln Kitman svæðisstjóri Automobile Magazine í The New York Times 16. apríl 2006.

U

Tvinnbílar eru ekki alveg nýir af nálinni. Þennan smíðaði Krieger árið 1903. Bensínvél studdi við rafgeymi bílsins.

m þessar mundir eru að koma á markað sportjeppar með tvinntækni, það er bæði bensín- og rafmótor. Þótt þeir séu blendingar eyða þeir meira eldsneyti en margir minni fólksbílar með hefðbundnum bensín- eða Dieselvélum. Þar er að sjálfsögðu verið að bera saman bíla af mismunandi stærð og þyngd sem kannski þykir ekki sanngjarnt. En Jamie Lincoln Kitman, sem vinnur við að reynsluaka bílum og skrifa um þá reynslu sína, heldur því einnig fram í grein sinni í The New York Times að tvinnbílar séu ekki alltaf umhverfisvænni kostur en bíll af sömu stærð. Hann nefnir sem dæmi að við langkeyrslu á ákveðinni gerð af tvinnbíl verði bíllinn að reiða sig nær algerlega á bensínmótorinn því rafgeymirinn hafi ekkert þol á miklum hraða. Hann hafi því komist að raun um að það gæti verið hagstæðara að aka um á venjulegum bíl af sömu stærð við þessar aðstæður. Tvinnbíllinn sé hannaður til að skottast um innanbæjar enda nýtist rafgeymirinn best við þær aðstæður en um leið og aksturinn verður blandaður eða að miklu leyti úti á þjóðvegum aukist eldsneytisnotkun mjög hratt. Við þjóðvegaakstur muni möguleg sparneytni tvinnbílsins aldrei njóta sín til fulls og hærra kaupverð aldrei skila sér til baka til eigandans.

Kitman varar eindregið við því að tvinnbílar fái undanþágur eða aflslátt af þeim sköttum sem lagðir eru á bíla almennt. Hann nefnir sem dæmi að ef Dodge Durango, sem er stór jeppi, kæmi á markað með tvinnútgáfu yrði eldsneytisnotkun hans um 20 lítrar á hundrað kílómetra. Það væri einkennilegt að veita slíkum bíl sérstakan skattafslátt í nafni umhverfisins á meðan venjulegir  bílar sem eyða jafnvel innan við 6 lítrum á hundraðið bæru fulla skatta. Kitman nefnir að Durangóinn gæti jafnvel fengið aflslátt í bílastæði og forgang á ákveðnum akreinum þótt honum væri ekið bensínsvolgrandi með einum farþega um götur bæja á meðan litli sparneytni bíllinn, fullur af fólki, fengi enga slíka fyrirgreiðslu.

Og Kitman lýkur grein sinni á þessum orðum:

Lög sem hygla tvinnbílum kunna að hljóma vel í fyrstu en þau geta engu að síður reynst vera niðurgreiðsla til þeirra bílaframleiðenda sem ekki hefur tekist að framleiða sparneytna bíla á kostnað þeirra sem voru svo framsýnir að hanna sparneytna bíla frá byrjun. Og þau geta þegar upp er staðið reynst vera refsing gagnvart þeim bíleigendum sem spara eldsneyti á gamla mátann – með því að nota minna af því á minni, léttari og sparneytnari bílum.

Það þarf ekki að spyrja að því að íslensk stjórnvöld hafa sett reglur sem hygla tvinnbílum á kostnað hefðbundinna bíla með lækkun vörugjalda. Það er ekki að efa að tvinnbílar geta verið góður kostur við ákveðnar aðstæður og margir telja að þeir séu það millistig sem notað verður á næstu árum áður en betri lausnir finnast á geymslu tilbúins eldsneytis á borð við vetni sem nota má í efnarafala. Það er hins vegar ekki gott að stjórnvöld séu krukka í þessari tækniþróun með skattalegri mismunun. Stjórnvöld hafa engar forsendur til að meta hvaða tækni er líklegust til að skila minni eyðslu og hreinni orku.