Miðvikudagur 26. apríl 2006

116. tbl. 10. árg.

Það er sjaldan jafnmikil ástæða fyrir hinn almenna mann að óttast lagasetningu Alþingis og þegar „þverpólitísk sátt“ er um mál. Nú er að koma fram frumvarp um fjölmiðla sem sagt er fela í sér „breiða pólitíska sátt“ samkvæmt fréttum Morgunblaðsins – breiðsíða stjórnmálamanna gegn almenningi. Það sem fyrst og síðast vakir fyrir þeim sem vilja sérstök samkeppnislög um fjölmiðla er að valdið til að velja fjölmiðla verði fært frá notendum þeirra til ríkisins. Neytendur eiga ekki að hafa síðasta orðið um hverjir reka fjölmiðlana heldur ríkið. Ef að einstaklingi gengur of vel að reka fjölmiðilinn sinn verður hann að selja öðrum hann. Ríkið sjálft mun svo auðvitað reka sína fjölmiðla utan við þessar reglur sem það setur öðrum.

Fjölmiðlamenn geta að vissu leyti sjálfum sér um kennt ef frumvarp um þetta efni verður samþykkt sem lög frá Alþingi. Nær allir sögðust þeir óska eftir sérstökum lögum um fjölmiðla þegar umræðan um fjölmiðlafrumvarpið fyrra stóð sem hæst – en bara ekki akkúrat þeim lögum. Fáir tóku þá grundvallarafstöðu að ríkið ætti ekki að skipta sér af rekstri fjölmiðla. Fjölmiðlamenn virðast auk þess almennt líta á sig sem mikilvægustu starfsmenn samfélagsins, þeir séu „fjórða valdið“ og „fulltrúar almennings“ og fyrirtækin sem þeir starfa hjá séu á einhver hátt merkilegri en önnur fyrirtæki þjóðfélagsins. Fjölmiðlamenn telja margir að þeir eigi meiri rétt en aðrir til að gægjast inn um skráargöt hjá fólki og vaða á skítugum skónum inn um allt með hljóðnema og myndavélar. Ef þeir fá ekki allt sem þeir vilja er það fyrsta frétt hjá þeim sjálfum að þeir hafi óskað eftir upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga en ekki fengið. Er að undra þótt stjórnlyndir stjórnmálamenn telji nauðsynlegt að setja sérstök lög um þennan „hornstein lýðræðisins“.

Annað sem hjálpað hefur stjórnmálamönnunum að koma sér niður á sérstök lög um fjölmiðla er einstæður fréttaflutningur Fréttablaðsins af þessum málum, bæði fyrr og nú. Í stað þess að nota bara leiðara og auglýsingar til að kynna málstað sinn hafa fréttir blaðsins verið óspart nýttar til að kynna sjónarmið útgefanda blaðsins. Það er auðvitað og á að vera réttur blaðsins að gera það. En það hjálpar ekki þeim sem vilja koma í veg fyrir fjölmiðlalög þegar daglega blasa við dæmi af þessu tagi. Í dag er aðalfréttin á forsíðu blaðsins einmitt á þessa lund. Uppsláttur á forsíðu Fréttablaðsins í gær  fjallaði svo um það að Sigurður Líndal fyrrverandi lagaprófessor teldi það varla standast jafnræðisreglu að undanskilja hlutafélag um Ríkisútvarpið takmarkandi eignarhaldsákvæðum nýja fjölmiðlafrumvarpsins. Sigurði var þá ekki kunnugt um að nýju ákvæði um Ríkisútvarpið hefði verið bætt í fjölmiðlafrumvarpið.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvað Fréttablaðið nær að hafa hagsmuni sína sem aðalfrétt á forsíðu í marga daga í röð.

Áforsíðu Fréttablaðsins í gær var önnur mun forvitnilegri frétt en stríðsfréttin um eiginhagsmuni blaðsins. Blaðið hafði  gert skoðanakönnun þar sem Reykvíkingar voru spurðir hvort fresta ætti einhverjum stórum framkvæmdum í Reykjavík vegna stöðu efnahagsmála og þá hvaða framkvæmdum. Af þeim sem vildu fresta einhverjum framkvæmdum, en þeir voru 52% aðspurðra, vildu langflestir fresta tónlistarhúsinu sem áformað er að reisa niðri við höfn. Heil 44% frestunarsinna vildu fresta byggingu tónlistarhússins, en sú framkvæmd sem næst komst var með 25% stuðning.

Þessi afstaða kemur Vefþjóðviljanum ekki á óvart, því að hann mundi vilja fresta varanlega byggingu tónlistarhúss fyrir skattfé almennings. Niðurstaðan er hins vegar athyglisverð í ljósi þess hve stjórnmálamenn hafa verið samstiga í að troða þessum kostnaði upp á skattgreiðendur. Um það hefur verið „pólitísk sátt“. Fyrirhugað er að taka af skattgreiðendum um 600 milljónir króna á ári hverju til byggingar hússins, allt þar til Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi fjármálaráðherra verður 100 ára gamall. Þá fyrst geta skattgreiðendur slakað á og hætt að taka aukavinnu til að greiða fyrir þessa dýru framkvæmd.