Þriðjudagur 25. apríl 2006

115. tbl. 10. árg.

Það er ekkert annað en broslegt að maður sem um þessar mundir kynnir sig sem „talsmann neytenda“ skuli vera ríkisstarfsmaður. Skattar eru langstærsti útgjaldaliður heimilanna. Á síðasta ári enduðu 47% landsframleiðslunnar í sjóðum ríkis og sveitarfélaga. Nær önnur hver króna sem landsmenn afla fer í fjármögnun verkefna sem mörg hver eru ekki mikið gæfulegri en embætti talsmanns neytenda. Það stóð heldur ekki á talsmanni neytenda í viðtölum við fjölmiðla að leggjast gegn því að ríkið dragi úr skattheimtu af eldsneyti. Hann taldi það ekki mikilvægt neytendum en hins vegar kom hann með ýmsar hugmyndir um hvernig ríkið gæti eytt þeim sköttum sem það tekur af bíleigendum. Til dæmis taldi hann að niðurgreiða mætti svonefndar almenningssamgöngur enn frekar en orðið er. Talsmaður neytenda vill að ríkið skattleggi gríðarlega það sem neytendur nota í raun en niðurgreiði það sem neytendur nota ekki en stjórnmálamenn dreymir um að þeir noti.

En það er ekki aðeins talsmaður neytenda sem fer mikinn gegn neytendum þessa dagana. Formaður Samfylkingarinnar hefur lagt til að samþykkt verði lög frá Alþingi sem hækka tekjuskatt einstaklinga. Formaðurinn má eiga það að hann hefur haldið sömu stefnu frá því hann var borgarstjóri og borgarfulltrúi og hækkaði tekjuskatt Reykvíkinga myndarlega með hækkun útsvars upp í mörk hins löglega. Það er út af fyrir sig gott að fram sé kominn fulltrúi Samfylkingar sem heldur sig við skattahækkanir en slær ekki úr og í eins og Samfylkingin hefur verið fræg fyrir í skattamálum.

  Ríki og sveitarfélög taka sífellt stærri hluta til sín af tekjum landsmanna.
  Heimild: www.hagstofa.is

Eins og áður sagði tekur hið opinbera og eyðir nær annarri hverri krónu sem aflast í landinu. Og það má í stuttu máli sagt gera ráð fyrir að þær krónur sem ríki og sveitarfélög afla að þeim sé eytt. Það má glöggt sjá á því hvernig ríki og sveitarfélög hafa aukið útgjöld sín undanfarin ár þegar skatttekjur hafa streymt inn vegna mikils hagvaxtar. Það er því ekki beinlínis góður kostur að hækka skatta til að draga úr þenslunni. Nær væri að lækka skatta og takmarka það sem stjórnmálamenn hafa úr að spila. Það mætti til að mynda gera með því að leggja fjármagnstekjuskatt niður. Þannig væri bæði eyðslufé pólitíkusanna minnkað og dregið úr refsingum við því að spara. Þegar fjármagnstekjuskatturinn væri horfinn þyrftu menn ekki lengur að gera ríkinu grein fyrir eignum og eignabreytingum á skattframtali svo að í mörgum tilvikum mætti skila framtalinu með einum músarsmelli.

Samhliða því að afnema fjármagnstekjuskatt og gera það þar með vænlegra að spara fyrir hinn almenna mann er nauðsynlegt að hætt verði við opinberar framkvæmdir á borð við hátæknisjúkrahús, Héðinsfjarðargöng og tónlistarhús.

En einmitt núna er mikilvægast að allir þessir stjórnmálaflokkar sem eru að kynna aukin útgjöld til leikskólamála, „frítt í strætó“, tugmilljarðaflugvöll út í Norður-Atlantshafi verði krafðir svara um hvaða skatta á að hækka til að fjármagna öll þessi loforð.