Mánudagur 24. apríl 2006

114. tbl. 10. árg.

Ánæstu dögum verða enn gerðar breytingar á lögum í þá átt að bæta réttindi þeirra sem kjósa að eyða ævinni með fólki af sama kyni. Eins og kunnugt er þá skiptir litlu máli hvaða tillögur stjórnvöld gera í slíka veru, því nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn virðast alltaf þurfa að yfirtrompa, og virðist stundum sem þeir geti ekki sætt sig við þá staðreynd að allar réttarbætur þessa hóps hafa gengið í gegn þegar þeir sjálfir hafa verið í stjórnarandstöðu og geta einskis hróss krafist. Niðurstaðan nú mun verða sú, að stjórnarfrumvarp um miklar réttarbætur fer óbreytt í gegn en stjórnarandstöðuþingmaður mun næsta haust leggja fram eigið frumvarp þar sem gengið verður enn lengra, svo það verði þessi þingmaður en ekki ríkisstjórnarmeirihlutinn sem mun þykja baráttumaður í þessum málum.

Tillaga þingmannsins mun snúa að því að fólk af samstæðu kyni geti fengið giftingu hjá trúfélögum sem hjón væru. Í Blaðinu var á laugardaginn rætt við Hrafnhildi Gunnarsdóttur, formann Samtakanna 78, og viðurkenndi hún þar vissulega að stjórnarfrumvarpið sem senn verður að lögum væri sigur fyrir baráttu samtakanna, en sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að trúfélagagiftingar hefðu ekki náðst í gegn: „Þetta eru vissulega vonbrigði. En ef við skoðum skýrsluna sem þessar lagabreytingar byggja á þá var aldrei farið í saumana á því að veita vígsluréttindi. Ég tel því mjög eðlilegt að leitað verði sátta í þessu máli“, sagði Hrafnhildur.

Gott og vel, hún telur eðlilegt að leitað verði sátta. En þá myndi kannski einhver spyrja hvaða sættir séu boðnar. Eiga sættirnar kannski að felast í því að fallist sé á allar gerðar kröfur? En nóg um það. Það er nefnilega ástæða til að velta fyrir sér öllu sáttatalinu sem sífellt er haft uppi. Allskyns tillögum er hafnað með þeim rökum helstum að nú hafi verið rofin einhver sátt. Stjórnarandstaðan segir í ásökunartóni að stjórnarmeirihlutinn hafi engar sættir boðið um einstök deilumál og því verði þau bara tekin í gíslingu og talað þar til hinir gefi eftir, sem þeir iðulega gera. Frumvörp eru borin fram með yfirlýsingum um að einhverjir „aðilar“ úti í bæ séu sáttir við frumvarpið eins og það er. Og ef þeir eru ekki sáttir þá kemur hver þingmaðurinn á eftir öðrum og segir að það verði að ná “sátt” um málið.

Hvers vegna þarf alltaf sátt? Jújú, í sumum tilfellum skiptir máli að menn geti vænst stöðugleika í löggjöf og þar getur haft þýðingu ef minnka má líkurnar á því að lögum verði breytt við það að nýr meirihluti myndist á Alþingi. Það mun hafa verið ein stærsta ástæða þess að stjórnvöld létu að hluta undan þeim sem árum saman höfðu grafið undan hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi sem vitað var um. En í mörgum tilfellum er „sátt“ um mál stórlega ofmetin. Jafnvel ætluð til að forða þingmönnum frá því að taka afstöðu sem þeir þurfa að byggja á eigin skoðunum en ekki annarra.

Og næst þegar stjórnarandstaðan krefst sátta um öll helstu deilumál, hvernig væri þá að einhver spyrði hvaða sættir meirihlutinn í borgarstjórn býður minnihlutanum þar upp á. R-listinn virðist ekki einu sinni þurfa sátt innan eigin raða.

Af hverju í ósköpunum eru sagðar útvarpsfréttir af Skaftárhlaupi? Það auðvitað stórgaman af myndum af rennandi vatni og jökulám í kasti, en til hvers eru útvarpsfréttir af rúmmetrum?