Helgarsprokið 23. apríl 2006

113. tbl. 10. árg.

F ramsóknarmenn velta mjög vöngum yfir því þessa dagana hver ástæðan er fyrir því að fáir virðast geta hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn. Ein þeirra kenninga sem stundum skýtur upp kollinum, meðal annars í viðtali við varaformann flokksins í Morgunblaðinu á dögunum, er „að minni flokkurinn fari verr út úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn“. Varaformaðurinn nefnir tvö dæmi af samstarfi Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hið fyrra frá árinu 1971 og hið síðara frá árinu 1995. Það verður að segjast eins og er að þessi dæmi eru afar óheppileg, því að fylgistap Alþýðuflokksins stafaði af því að bæði þessi ár þurfti Alþýðuflokkurinn að berjast við klofningsframboð úr eigin röðum þar sem forystumenn sem höfðu yfirgefið flokkinn buðu fram nýjan flokk.

Ef horft er á samstarf Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks í lengra samhengi og ekki einblínt á þau ár sem Alþýðuflokkurinn barðist við klofning má sjá að Alþýðuflokkurinn hefur jafn oft staðið vel eins og illa eftir samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Árið 1967 jók hann til að mynda við fylgi sitt eftir að hafa verið í viðreisnarsamstarfinu svokallaða með Sjálfstæðisflokknum í átta ár. Það ár tapaði Sjálfstæðiflokkurinn hins vegar fylgi og raunar einnig fjórum árum síðar, þegar báðir ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði líka fylgi árið 1995 eftir samstarf við Alþýðuflokkinn. Það er raunar svo að það hefur fremur verið regla en undantekning að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á samstarfi við Alþýðuflokkinn en á hinn bóginn er ekki hægt að sjá neina reglu út úr því hvernig Alþýðuflokknum vegnaði eftir slíkt stjórnarsamstarf.

„Það er nefnilega ekki Framsóknarflokkurinn sem hefur tapað á samstarfi við  Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tíðina heldur Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur tapað á samstarfi við Framsóknarflokkinn.“

En hvað með Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk, skyldi Framsóknarflokkurinn ekki hafa farið sérstaklega illa út úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eins og stundum er gefið í skyn? Nei, tölurnar gefa slíkt ekki sérstaklega til kynna. Það er hins vegar nokkuð skýr regla að Framsóknarflokkurinn er undir meðaltalskjörfylgi sínu í þeim alþingiskosningum eftir 1960 þegar flokkurinn hefur átt aðild að ríkisstjórn, hvort sem hún er til hægri eða vinstri. Hafi flokkurinn verið utan stjórnar hefur hann á hinn bóginn verið yfir meðalkjörfylginu. Þetta segir ekkert um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega en er hugsanlega vísbending um að Framsóknarflokkurinn ætti ekki að vera í ríkisstjórn. Ólíklegt verður hins vegar að telja að framsóknarmenn telji vænlegt að tapa völdum til að auka líkurnar á að bæta fylgi flokksins.

Loks er eðlilegt að spyrja hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið út úr stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn og þá koma athyglisverðar staðreyndir í ljós. Það er nefnilega ekki Framsóknarflokkurinn sem  hefur tapað á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tíðina heldur Sjálfstæðisflokkurinn sem  hefur tapað á samstarfi við Framsóknarflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tíu prósentustigum á samstarfinu við Framsóknarflokkinn á árunum 1974-1978, sem er mun meira tap en Framsóknarflokkurinn þurfti að þola á sama tímabili. Tap Sjálfstæðisflokksins var enn meira eftir samstarf flokkanna árin 1983-1987, en þá stóð Framsóknarflokkurinn nánast alveg í stað á milli kosninga. Í þessum kosningum kom reyndar fram klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Borgaraflokkurinn, en jafnvel þótt fylgi hans sé öllu bætt við fylgi Sjálfstæðisflokksins tapaði sá síðarnefndi dálitlu fylgi. Árið 2003 tapaði Sjálfstæðisflokkurinn líka miklu fylgi eftir stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn en Framsóknarflokkurinn tapaði litlu fylgi. Staðreyndin er reyndar sú að einungis árið 1999 fór Framsóknarflokkurinn verr út úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn en Sjálfstæðisflokkurinn út úr samstarfi við Framsóknarflokkinn, en það ár bætti Sjálfstæðisflokkurinn fylgi sitt en fylgi Framsóknarflokksins dróst saman.

Að öllu samanlögðu, þegar horft er til síðustu fjögurra áratuga, er það þess vegna Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur tapað meiru á samstarfi við bæði Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn en þessir flokkar á samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.