Laugardagur 22. apríl 2006

112. tbl. 10. árg.

Um helgina fer fram eitthvað sem nefnt er „borgaraleg ferming“. Að því stendur félagið Siðmennt og í febrúar síðastliðnum ræddi Blaðið við formann félagsins, Hope Knútsson, sem gaf skýringu á framtakinu: „Borgaraleg ferming er valkostur í stað kirkjulegrar fermingar fyrir unglinga sem eru ekki kristnir en vilja samt halda upp á þessi tímamót í lífinu.“

Einmitt. „Halda upp á þessi tímamót í lífinu“, segir Hope Knútsson. Hvaða tímamót? Að vera orðinn svona þrettán og hálfs? Hvaða tímamót eru í lífi ekki-kristinna ungmenna, einmitt á sama tíma og fjölmargir jafnaldrar þeirra fermast í kirkjum landsins? Auðvitað er ekki nema sjálfsagt að ungmenni, sem telur sig ekki vera kristið, láti ógert að fermast. En hvaðan kemur allt í einu „borgaraleg ferming“ fyrir trúlausa, akkúrat á sama tíma og fermt er í kristnum kirkjum? Vonandi er raunveruleg ástæða fyrir „borgaralegum fermingum“ ekki einfaldlega sú að eitthvert fólk hefur ama af því hvílíkur fjöldi ungmenna velur að láta ferma sig í kristnum kirkjum landsins, og vill reyna að lækka það hlutfall með einhverjum ráðum, vill beinlínis að eitthvað komi „í stað kirkjulegrar fermingar“.