Föstudagur 21. apríl 2006

111. tbl. 10. árg.

Pétur H. Blöndal alþingismaður reiknar sig stundum út af kortinu. Nú hefur hann reiknað út að lækkun á sköttum á eldsneyti jafngildi niðurgreiðslu á því. Pétur lýsti þessari skoðun sinni í viðtali við Kastljós Ríkissjónvarpsins. Ef til vill mætti segja að ef skattar á bensín og Dieselolíu væru lægri en almennt á vöru og þjónustu að þá væri verið að hygla olíukaupendum á kostnað annarra að lækka skattana. En þannig er það ekki. Það eru sennilega aðeins áfengi, tóbak og bílarnir sem brenna eldsneytinu sem bera viðlíka háa skatta og eldsneyti. Það hendir bestu menn að þeir líta á skattgreiðendur sem mjólkurkýr ríkisins og í hvert sinn sem ríkið losar um tak á spena sé verið að færa skattgreiðendum gjafir. Þetta er heldur hvimleitt sjónarmið. Pétur hefur einnig haldið því fram að bíleigendur séu að greiða fyrir þá þjónustu sem felst í þjóðvegum landsins. En eins og menn vita fer aðeins hluti af eldsneytissköttunum í vegagerð. Þriðju rökin sem Pétur nefndi gegn lækkun skatta á eldsneyti voru þau að með því að halda eldsneytisverði háu ykist þrýstingur á menn að finna nýjar orkulindir. Já kannski eykst þrýstingurinn eitthvað en menn eru búnir að vera með mjög háa skatta á eldsneyti mjög lengi í mörgum löndum án þess að það hafi skilað sér í nýjum orkugjöfum.

Össur Skarphéðinsson og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust lækkunar eldsneytisskatta í umræðum um málið á Alþingi í morgun. Fyrir nokkrum árum lagði Samfylkingin hins vegar til að lagður yrði á „almennur koldíoxíðskattur“ í þágu umhverfisins. Stór hluti þess koldíoxíðs sem myndast hér á landi kemur frá bruna bensíns og olíu. Það var því ekki hægt að skilja þessa stefnu öðruvísi en svo að flokkurinn vildi hækka skatta á bensín og Dieselolíu. Frambjóðendur flokksins hlupu hins vegar einn af öðrum frá þessu merka stefnumáli og könnuðust ekkert við að vilja leggja skatt á útblástur koldíoxíðs frá bílum. Líklega hefur hinn almenni koldíoxíðskattur Samfylkingarinnar því átt að leggjast á neyslu koldíoxíðs en ekki framleiðslu. Helstu neytendur koldíoxíðs eru plöntur af ýmsu tagi sem nýta hann við ljóstillífun. Það má því gera ráð fyrir að kálhausinn og  sumarblómin hefðu hækkað nokkuð í verði ef þessi stefna hefði orðið ofan á.