Fimmtudagur 20. apríl 2006

110. tbl. 10. árg.
Það er misseristal að tvö misseri heitir ár, það er vetur og sumar. Skal sumar koma eigi fjær Maríumessu of föstu heldur en fjórtán nóttum eftir, og eigi firr en einni nótt og tuttugu, og skal hinn fimmti dagur fyrstur í sumri. Þaðan skulu líða þrettán vikur og þrjár nætur til miðsumars og er drottinsdagur fyrstur að miðju sumri.
– Úr fyrsta íslenska rímhandritinu, frá lokum 12. aldar. Sjá Sögu daganna eftir Árna Björnsson, bls. 32.

S umardagurinn fyrsti er ein elsta hátíð á Íslandi. Um hann er getið í elstu heimildum og, eins og meðal annars má ráða af hinu forna rímhandriti, þá hafa Íslendingar bráðum vitað í þúsund ár að hann ber upp á fimmtudag. Framan við bænabók Guðbrands biskups, sem út kom árið 1576, er prentað elsta rímtal sem prentað hefur verið á Íslandi og þar eru gefnar tvær aðferðir við að finna hinn fyrsta sumardag: annað hvort að telja þriðja fimmtudag frá boðunardegi Maríu eða síðasta fimmtudag fyrir Magnúsmessu á vor. Árið 1700 var tímatalið leiðrétt á Íslandi og tekið upp tímatalið kennt við Gregorium XIII. en skekkjan í hinu gamla tímatali nam þá ellefu dögum. Ekki færðu menn þó allar viðmiðanir sínar um ellefu daga, en sumardaginn fyrsta færðu þeir aðeins um tíu því hann hefur alla Íslandssöguna borið upp á fimmtudag. Má um þetta til dæmis fræðast í áðurnefndu riti Árna Björnssonar.

En þó sumardaginn fyrsta hafi í þúsund ár borið upp á fimmtudag, þá þykir ýmsum ástæða til að breyta því. Að minnsta kosti fjórir slíkir menn sitja á alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hafa um þetta hugðarefni sitt lagt fram sérstaka þingsályktunartillögu. Af greinargerð með tillögunni má ráða að flutningsmenn langar mikið líka til þess að færa uppstigningardag með sama hætti, en sjá á því þau tormerki að hann sé einn af helgidögum þjóðkirkjunnar. Hins vegar “liggi beinna við að kanna hvort ekki sé heppilegra að flytja sumardaginn fyrsta annaðhvort til föstudags eða mánudags næstu helgi á eftir”. Og raunar er það ekki eina framfaramálinu sem hreyft er í greinargerðinni, því þar er jafnframt upplýst að fram hafi komið „það sjónarmið að æskilegt sé að flytja sumardaginn fyrsta frá þriðja fimmtudegi í apríl til sumarsins, t.d. júní- eða júlímánaðar“ – og ekkert kemur fram í greinargerðinni sem bendir til þess að flutningsmenn sjái nein sérstök tormerki á því að sumardagurinn fyrsti verði um mitt sumar.

Nú geta einkaaðilar svo sem samið um það sem þeim sýnist – eða ættu að geta samið um það sem þeim sýnist. Þar á meðal samið um að launþegar fái eða fái ekki frí á tilteknum dögum. En af hverju eru alþingismenn að beita sér fyrir því að þúsund ára gömlum hefðum sé varpað fyrir róða? Af hverju má ein elsta hátíð íslensk ekki fá að vera í friði fyrir svona hundakúnstum? Þó þessum þingmönnum sé greinilega sama um hefðir og siði, þá má kannski í vinsemd benda þeim á að öðru máli kann að gilda um þá landa þeirra, sem ólíkt þingmönnum sínum hafa ekki enn náð því stigi að fyrir þeim séu þúsund ár dagur ei meir.

F rá Gísla S. Einarssyni, frá Gísla S. Einarssyni: Ég hef, án sérstakra áskorana, ákveðið að nota hér eftir listamannsnafnið Gísli D. Einarsson.

Gísli S. Einarsson.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum öllum gleðilegs sumars