Miðvikudagur 19. apríl 2006

109. tbl. 10. árg.

Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var lítil frétt undir yfirskriftinni „Samkynhneigðir í boði Bush“ og sagði frá því að venju samkvæmt – reyndar tæplega 130 ára venju – hefði verið haldin páskaveisla fyrir börn í garði Hvíta hússins. Í fréttinni segir að samkynhneigð pör hafi nú mætt á staðinn með börn sín og „ákváðu forsetahjónin að beita sér ekki gegn því,“ eins og Morgunblaðið orðaði það. Ætla mætti af fréttinni að til álita hafi komið hjá forsetahjónunum að banna samkynhneigðum pörum að mæta með börn í veisluna, en þó bendir ekkert til svo hafi verið, ef marka má erlendar fréttir af atburðinum. Þvert á móti var tilkynningin um boðið sérstaklega þannig orðuð að hún gaf samkynhneigðum pörum kost á að koma eins og öðrum. Á þetta benti raunar talsmaður Family Pride, samtaka sem berjast fyrir jafnræði samkynhneigðra foreldra og fjölskyldna, sem leit á það sem sterka yfirlýsingu að boðið væri opið fyrir samkynhneigð pör.

Þetta er svo sem ekki stórt mál, en sýnir ágætlega hvernig fréttaflutningurinn er oft hér á landi af málefnum George Bush forseta Bandaríkjanna. Bush heldur boð sem opið er öllum börnum og gætir sérstaklega jafnræðis á milli fjölskylduforma. Hópar samkynhneigðra nýta sér boðið til að koma skilaboðum á framfæri, meðal annars með því að fulltrúar hópsins mæta til leiks sérstaklega merktir og lekið er út fréttum af því að fulltrúar þessa hóps hyggist mæta í boðið. Og hver er þá fréttin sem sögð er af atburðinum? Jú, gefið er í skyn að Bush hafi verið illa við heimsókn samkynhneigðu paranna en ekki ýjað að því að ef til vill hafi þessi barnaskemmtun ekki verið rétti vettvangurinn til að senda út pólitísk skilaboð.

Annars er það af Bush að frétta – en ratar líklega ekki í fréttir hér á landi – að hann fjallaði um skatta og skattalækkanir í vikulegu útvarpsávarpi sínu síðast liðinn laugardag. Í ávarpinu sagði hann að vegna skattalækkana árin 2001 og 2003 greiddu Bandaríkjamenn nú lægri skatta en ella. Hins vegar væri deilt um það í Washington hvort að þessar skattalækkanir ættu að standa eða hvort hækka ætti skatta á ný. Bush benti réttilega á að hagkerfið blómstraði þegar almenningur tæki sjálfur ákvarðanir um eyðslu, sparnað og fjárfestingar. Orð hans eru umhugsunarverð hér á landi nú vegna þess að hér stendur yfir alveg sams konar deila. Stjórnarandstaðan, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar fremsta í flokki, vill hætta við lögfestar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar um áramót. Hún vill með öðrum orðum setja lög um hækkun skatta, sem er athyglisvert fyrir skattgreiðendur landsins og nokkuð sem ástæða er til að hafa í huga í komandi sveitarstjórnarkosningum í vor og alþingiskosningum að ári.

En Ingibjörg Sólrún á auðvitað svör við þessu. Tillögur hennar um skattahækkanir fela líklega í rauninni í sér skattalækkanir. Með hækkun prósentunnar lækka skattarnir rétt eins og þeir hækka við lækkun prósentunnar eins og Ingibjörg Sólrún og tiltekinn pólitískur prófessor hafa bent á. Efist einhver um þetta er viðkomandi beðinn um að hafa samband við Háskóla Íslands og biðja um samband við Stefán Ólafsson, sem mun vafalítið eiga auðvelt með að útskýra hvernig hækkun skattprósentunnar veldur lækkun skattgreiðslunnar.