Þriðjudagur 18. apríl 2006

108. tbl. 10. árg.

Um helgina var greint frá því að í Reykjavík hefði strætisvagn runnið upp á hringtorg, jeppi oltið og fimm bílar rekist á, hér og þar í borginni. Skýringin á öllu þessu var talin vera hálka sem komið hefði óboðin á götur borgarinnar þvert ofan í starfsáætlanir gatnamálastjóra. Næsta frétt á eftir þessum var svo sú að borgaryfirvöld krefðust þess að allir tækju nú nagladekkin undan bílum sínum því kominn væri 15. apríl. Nagladekkjaæsingurinn í Reykjavík er lítið dæmi um ákafann sem grípur sumt fólk þegar einkabílar eru annars vegar. Af hverju má fólk nú ekki aka um á nöglum meðan það býst við hálku á götunum? Mun fólk unnvörpum deyja úr svifryki nema allir aki naglalausir síðustu hálkudagana?

Ígær var sagt frá því að framsóknarmenn í Vestmannaeyjum séu Lúðvík Bergvinssyni, eiganda Vestmannaeyjalistans, sárreiðir fyrir hvernig staðið hafi verið að vali á umræddan framboðslista sem eigi að heita sameiginlegt framboð með framsóknarmönnum. Lúðvík segir hins vegar að framsóknarmenn eigi bara að vera ánægðir; maðurinn í 7. sæti listans sé framsóknarmaður. – Fyrst svo er, hvað eru framsóknarmenn þá að kvarta. Ef allt gengur að óskum Vestmannaeyjalistans fær hann fjóra menn kjörna og framsóknarmaðurinn verður þá þriðji varamaður. Framsóknarmenn í Eyjum hafa því þá bæði töglin og hagldirnar og vandséð hví þeir ættu að hika við að leyfa Lúðvík Bergvinssyni að hirða leifarnar.

ÍÍsíðustu viku var greint frá því að útgáfu tímaritsins Veru væri lokið og hefur ýmsum eflaust þótt það nokkuð miður. Skýringin á endalokunum var sögð vera peningaskortur; það hefðu ekki verið nægilega margir áskrifendur, kaupendur eða auglýsendur. Þó hefur ýmsum aðferðum verið beitt til þess að halda útgáfunni gangandi, eins og að láta opinbera stofnun og það jafnréttisstofu vera fastan kaupanda að opnu í blaðinu, eins og minnst var á fyrir nákvæmlega ári. En brotthvarf Veru af tímaritamarkaðnum er að vissu leyti umhugsunarefni fyrir áhugamenn um þjóðmál og útgáfu þeim tengda. Slík útgáfa blómstrar ekki nema nægilega margir verði til þess að kaupa afurðirnar eða styðja þær með öðrum hætti. Í því samhengi minnir Vefþjóðviljinn á, að allur kostnaður við útgáfu þess blaðs, kynningu á því og aðra starfsemi útgefandans er greiddur með frjálsum framlögum lesenda.

En hvernig er háttað annarri þjóðmálaútgáfu á Íslandi þessa dagana? Auðvitað er það svo að sumir þurfa ekki að leita framlaga eða áskrifenda. Fulltrúum sumra sjónarmiða eru einfaldlega afhentir hljóðnemar Ríkisútvarpsins og þar fá þeir að lesa daglega pistla yfir áheyrendum og það auðvitað án þess að reynt sé að gæta nokkurs jafnræðis eða gera talsmönnum annarra sjónarmiða sömu kjör. Þá skiptir líka máli að sumum öðrum fjölmiðlum hefur töluvert verið beitt í stjórnmálabaráttunni síðustu misserin, eins og til dæmis má fræðast svolítið um í bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlum 2004. En að þessu slepptu, hvernig er þá þjóðmálaútgáfu sinnt á Íslandi?

Af tímaritum er núorðið helst að geta tímaritsins Þjóðmála, sem af og til hefur verið sagt frá í þessu riti, enda þar á ferð óvenjuvandað og efnismikið rit um stjórnmál og menningu sem full ástæða er til að mæla með við alla áhugamenn um þau málefni. Stefnir Sambands ungra sjálfstæðismanna kemur að sögn út enn, en sú útgáfa er ekki eins regluleg og hún áratugum saman var. Nokkuð er enn gefið út af bókum um íslensk þjóðmál og ein slík nýútkomin selst að sögn mjög vel þessa dagana. Greint hefur verið frá því, að væntanleg sé ný fjölmiðlabók frá Ólafi Teiti og mun vafalaust höfða til margra.

Í bóksölu Andríkis er fyrir utan áskrift að Þjóðmálum boðið upp á ýmsar áhugaverðar íslenskar bækur um þjóðmál. Þar eru Fjölmiðlar Ólafs Teits, þar er greinasafn Jakobs Ásgeirssonar ritstjóra Þjóðmála, þar eru Leyndardómar fjármagnsins eftir hinn heimskunna höfund Hernando De Soto, þar er saga kommúnismanns eftir Richard Pipes fyrrverandi prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, þar er hin fræga bók Bjorns Lomborgs um hið sanna ástand heimsins og rangar fullyrðingar umhverfissinna, og svo mætti áfram telja. Ætti þar að vera í boði ýmislegt góðgæti fyrir flesta vitiborna áhugamenn um þjóðmál, en allar þessar bækur fást á vægu verði og heimsending undantekningarlaust innifalin.