Mánudagur 17. apríl 2006

107. tbl. 10. árg.

Fyrir tæpum 12 árum birti tímarit að nafni Efst á baugi tillögur um niðurskurð á ríkisútgjöldum. Sparnaðartillögurnar hljóðuðu upp á tæpa 50 milljarða króna við fjárlagafrumvarp fyrir árið 1994 en ríkisútgjöldin árið 1994 reyndust 147 milljarðar þegar upp var staðið. Hefðu tillögurnar náð fram að ganga hefðu ríkisútgjöldin árið 1994 því orðið þriðjungi lægri en raun bar vitni. Fimmtíu milljarðar eru um 74 milljarðar á núverandi verðlagi.

Já, það var lagt til að ríkisútgjöldin lækkuðu um 74 milljarða á núverandi verðlagi. Jæja, árið 2003 eða 10 árum eftir að tillögurnar voru lagðar fram höfðu ríkisútgjöldin hækkað um 74 milljarða.

Sparnaðartillögurnar í Efst á baugi voru í yfir 100 liðum. Tillöguhöfundar tóku þá 100 útgjaldaliði sem þeim þótti líklegast að samstaða næðist um að spara við ríkissjóð, tvöfalt meira var látið eiga sig. Það er fróðlegt og átakanlegt að lesa tillögulistann því þeir útgjaldaliðir sem horfið hafa af framfæri skattgreiðenda á þessum tólf árum eru vandfundir. Raunar er alls óljóst að nokkur þeirra hafi horfið fyrir fullt og allt því opinberar stofnanir skipta stundum bara um nafn án þess að hlutverk þeirra breytist að öðru leyti en því að þær vista gjarnan fleiri starfsmenn undir nýja nafninu.

Það er því eiginlega óhætt að segja að sparnaðarfræin 100 hafi fallið í grýttan jarðveg. Staðan er enn 100 : 0 skattgreiðendum í óhag. En þótt það sé snautleg niðurstaða fyrir tillöguhöfunda að öllum 100 tillögum þeirra hafi verið hafnað geta þeir þó ornað sér við tvennt. Annars vegar var í tillögunum gert ráð fyrir hvernig ætti að ráðstafa sparnaðinum. Þar var meðal annars lagt til að fella eignarskatt niður, byrja að greiða niður skuldir ríkissjóð og jafna halla á rekstri hans. Það hefur þó gengið eftir.

Hins vegar lögðu sparnaðarhöfundar fram eina tillögu um ný útgjöld. Það var tillaga um aukna þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við varnir landsins upp á tvo milljarðar króna. Hafi sú tillaga ekki þegar náð fram að ganga er ljóst að hún mun verða að veruleika innan tíðar.

Það voru með öðrum orðum lagðar fram yfir 100 sparnaðartillögur og ein útgjaldatillaga. Tólf árum síðar eru útgjöldin að bresta á án þess að nokkur sparnaðartillaga hafi náð fram að ganga.

Að lokum má svo geta þess að hið ágæta nafn Efst á baugi er auðvitað ekki lengur nafn á tímariti sem lætur sig hagsmuni skattgreiðenda varða heldur nafn á fréttadálki ráðuneytis.